19.03.1984
Neðri deild: 59. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3808 í B-deild Alþingistíðinda. (3243)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. 2. umr. um þetta ágæta mál var nokkuð einkennileg. Hér komu upp fulltrúar stjórnarandstöðunnar og gerðu fjölda aths. Það voru gerðar almennar aths. um vinnslu málsins, það voru gerðar almennar aths. um undirstöðu þess, almennt ástand á skipulagi fjármála og lánsfjármála í umsjá hæstv. ríkisstj., það voru gerðar sértækar aths. um fjölda einstakra liða. Þannig var um málið fjallað og það hlaut mikla gagnrýni. Svo kom hæstv. fjmrh., yfirmaður þessa undirbúnings og ráðherra þessa málaflokks, og lýsti því yfir að hann hefði engar spurningar fengið sérstaklega og þyrfti því engu að svara.

Málið er að hæstv. ráðh., sem eiga hér hlut að máli, þurfa að svara fyrir mjög margt í þessu frv., bæði í heild um almenna þætti, um undirstöðu þess, skuldamál í landinu og hlutverk og stöðu frv. í stjórn fjármála ríkisins, og það á ekki að þurfa að búa til samræmt prófverkefni með spurningum til þess að menn svari þeirri gagnrýni.

Fjárlög og lánsfjárlög eiga að mynda í sameiningu heildarramma fyrir fjármálastjórn ríkisins. Nú hefur komið í ljós á undanförnum misserum að bæði fjárlögin og lánsfjárlögin eru að verulegu leyti ómerk og út í bláinn. Það er búið að lýsa þessu á ýmsan hátt. Hæstv. fjmrh. hefur sjálfur lýst þessu að hluta í umr. sem urðu um gatið í fjárlögunum. Það er bráðum liðinn fjórðungur ársins 1984 og enn þá eru þúsundir milljóna í fjárlögum og á lánsfjárlögum algerlega á huldu. Þetta er ekki sú styrka fjármálastjórn sem allir voru að tala um að yrði hjá hæstv. ríkisstj. Þetta er ekki sá styrki búskapur í ríkisfjármálum sem var lýst í umr. um lánsfjárlög fyrir jól. Við getum nefnt aftur fjölda dæma. Það voru nefnd hérna dæmi við 2. umr. Við getum endurtekið ýmis þeirra.

Það var. t. d. áætlað á fjárlögum að það yrði 2.5% niðurskurður launa og 5% niðurskurður almenns rekstrar hjá fyrirtækjum og stofnunum ríkisins. Í febrúarbyrjun skv. bréfi fjmrn. hafði ekkert gerst í þessu máli og þá, í byrjun febrúar, er hæstv. fjmrh. eða rn. hans að senda út bréf til stofnana og fyrirtækja ríkisins og óska eftir hugmyndum um hvernig þessar stofnanir ætti á árinu að framfylgja 2.5% niðurskurði launa og 5% niðurskurði almenns rekstrar. Ef þarna verður ekki eitt gatið enn veit ég ekki hvar það yrði: Ef sparnaður gengur ekki eftir þarna þarf einhvers staðar að afla tekna upp í þetta gat. Þetta er eitt dæmi um styrka fjármálastjórn hæstv. ríkisstj.

Annað dæmi er t. d. fjármögnum húsnæðislánakerfisins, sem ég vík nánar að hérna á eftir. Þar eru svo mörg göt að spurning er hvort skikkjan hangir saman.

Þriðja dæmið, sem má taka um styrka fjármálastjórn, er 300 millj. kr. gat í heilbrigðiskerfinu vegna þess sem átti að vera sjúklingaskattur og ekki varð. Þetta er dæmi um styrka fjármálastjórn.

Fjórða dæmið er 300–400 millj. gat í almannatryggingakerfinu, sem enginn skilur hvernig kom. Þetta er fjórða dæmið um styrka fjármálastjórn og ég hirði ekki að sinni um að hafa þau fleiri. Þetta eru dæmi upp á fleiri hundruð, jafnvel þúsundir milljóna. Þetta eru göt í gögnum sem ýmist er nýlega búið að samþykkja, samþykkt voru í spreng fyrir jól eða verið er að samþykkja f dag. Og þetta er hin styrka fjármálastjórn.

Það eru ótalin þarna ýmis verkefni sem við vitum að þarf að fara að taka á. Það eru verkefni eins og í sjávarútvegi. Ég reikna ekki með að nokkur hv. þm. telji að skuldabaggi útgerðarinnar, eins og honum hefur verið lýst, verði léttur án þess að til komi þátttaka ríkissjóðs — og hvernig verður þá fjár til þess aflað? Verður aukin skattheimta, verða tekin erlend lán, verða prentaðir peningar? Þetta eru allt saman hlutir sem við vitum að þarf að leysa, en ekki er gerð tilraun til þess og ekki er vikið að þeim í þeim gögnum sem hæstv. Alþingi er látið fjalla um þessa dagana. Hæstv. ríkisstj. virðist ekki einu sinni geta spáð almennilega í þau spil sem hún hefur, og þó að við gerðum ekki kröfur til að hún útskýrði hvernig hún ætlaði að jafna metin debet og kredit gætum við nú samt gert kröfu til þess að ráðh. legðu sæmilega ábyggilegar áætlanir fyrir.

Á því blaði sem fjmrn. dagsetti 3. mars og útbýtti við kynningu á gatinu margumtalaða kemur ruglandinn og fátið mjög greinilega fram. Þar er verið að tala um fjárlög sem þessi sama ríkisstj. var nýbúin að láta samþykkja. Og þar stendur, með leyfi forseta:

„Í fyrsta lagi eru útgjöld sem ekki hefur verið gert ráð fyrir við afgreiðslu fjárlaga ... [Það voru 500–600 millj.] Í öðru lagi eru útgjöld sem ekki voru þekkt við afgreiðslu fjárlaga, alls 500–600 millj. . . . Í þriðja lagi útgjöld ríkissjóðs sem áformað var við afgreiðslu fjárlaga að kæmu til lækkunar á árinu 1984.“

Ég efast um að nokkur ríkisstj. hafi kveðið upp jafngreinilegan dóm um sína fjármálastjórn og gert er á minnisblaði fjmrn. dags. 3. mars s. l. og er fskj. I með minnihlutaáliti fjh.- og viðskn. með lánsfjárlagaafgreiðslunni.

Þetta eru hin markvissu vinnubrögð. Og ef þetta eru markviss vinnubrögð, þá mætti spyrja sig: Hvernig væru ómarkviss vinnubrögð?

Ég held að við verðum að líta á fjárlög og lánsfjárlög í því samhengi sem þau eru. Við höfum rætt þessi mál saman að undanförnu. Að mínu mati hafa komið fram af hálfu stjórnarandstöðunnar áþreifanlegar og óumdeilanlegar aths. um vinnubrögð ríkisstj., það eru aths., eins og ég sagði áðan, um almenna hluti, um gerð þessa frv., um grundvöll, og það eru aths. um einstaka ákveðna þætti, einstaka liði. Ég vorkenni þeim þm. sem þurfa múlsins vegna að gangast undir að samþykkja þessi plögg, vegna þess að ég tel vinnubrögðin og þann grundvöll sem þau standa á fyrir neðan allar hellur.

Ef við snúum okkur að samræmdum spurningum um einstaka hluti, þá langar mig fyrst að víkja nokkrum spurningum til hæstv. félmrh. varðandi húsnæðiskerfið.

Fyrsta spurning sem mig langaði til að spyrja var varðandi skyldusparnað. Það kom fram í stuttu svari ráðh. við 2. umr. að fyrirliggjandi frv. um Húsnæðisstofnun mundi hægja svo á útstreymi úr skyldusparnaðarkerfinu að það yrði til bóta í framtíðinni. Mig langaði til að spyrja ráðh. hvort hann teldi að minnkandi útstreymi úr skyldusparnaðarkerfinu muni að einhverju leyti koma kerfinu til bóta á árinu 1984, sem skv. áætlun Húsnæðisstofnunar er negatíft um 75 millj. miðað við áætlun lánsfjáráætlunar.

Fyrsta spurningin var sem sagt um skyldusparnað og hvort fyrirliggjandi frv. um Húsnæðisstofnun muni hægja til verulegra bóta á útstreymi skyldusparnaðar. Önnur spurningin er þessi: Telur ráðh. að það sé fjarri lagi, sem Húsnæðisstofnunin áætlar í áætlun sinni, dags. 7. febr. s. l., að skyldusparnaðurinn verði neikvæður um 30 millj. á árinu? Mig langar að spyrja hvort ráðh. teldi þessa áætlun Húsnæðisstofnunar fjarri lagi.

Í þriðja lagi langaði mig til að spyrja hæstv. ráðh. hvort hann telji að 200 millj. skv. sérstakri fjáröflun og 690 millj. frá lífeyrissjóðum muni skila sér til húsnæðislánakerfisins þrátt fyrir þær aths. sem bæði fjmrn. og stjórnarandstaða hafa gert um þennan málaflokk.

Í fjórða lagi langar mig til að spyrja hæstv. ráðh. hvort hann telji að ríkisstj. sé skuldbundin til að leggja húsnæðislánakerfinu til þær 1 050 millj. sem talað er um í lánsfjárlögum. Þær sundurliðast þannig að lífeyrissjóðir eiga að leggja fram 690 millj., sérstök fjáröflun á að vera upp á 200 millj., skyldusparnaður á að skila 45 millj. og lán frá Atvinnuleysistryggingasjóði skal vera 115 millj. Ég endurtek spurninguna, hvort ráðh. félagsmála telji að ríkisstj. sé skuldbundin til að tryggja þessar 1 050 millj.

Fimmta spurning mín til hæstv. félmrh. er eftirfarandi: Samkvæmt áætlun húsnæðismálastjórnar, sem ég hef minnst á hérna áður og var dags. 7. febr. s. l., vantar 473 millj. í húsnæðislánakerfið þó að fjáröflun skv. lánsfjárlögum gengi 100% eftir. Þessar 437 millj., sem samt mundi vanta, skiptast þannig að Byggingarsjóð ríkisins mundi vanta 269 og Byggingarsjóð verkamanna 168. Þá langar mig að spyrja út frá þessum staðreyndum í fyrsta lagi hvort ríkisstj. hafi uppi áform um að afla þessara 400–500 millj., sem þarna vantar að áliti Húsnæðisstofnunar, og í öðru lagi: Ef ríkisstj. hefur ekki uppi áform um að afla þessara peninga, hvernig leggur hún til að niðurskurður húsnæðismála fari þá fram miðað við áætlun Húsnæðisstofnunar?

Þetta eru fimm spurningar um húsnæðismál, sem ég hef beint til hæstv. félmrh.

Nú langar mig til að spyrja hæstv. fjmrh. spurninga. Þetta mál er allt á hans umráðasviði og mig langaði að spyrja bæði almennra spurninga og síðan um einstök atriði.

Mig langaði að spyrja í fyrsta lagi hvort ráðh. telji eðlilegt að afgreiða lánsfjárlög í dag með þeim augljósu götum sem þar eru skv. yfirliti fjmrn. dags. 3. mars s. l. Þetta er spurning um hvort ráðh. telji það eðlileg vinnubrögð af löggjafarsamkundunni að afgreiða lánsfjárlög með þeim götum sem fjmrn. hefur sagt okkur frá á yfirliti dags. 3. mars.

Önnur spurning sem mig langaði til að spyrja er hvort og hvenær við megum eiga von á að boðaður verði fundur stjórnarandstöðu og kannske í framhaldi af því fundur blaðamanna til að segja frá lánsfjárlagagati ríkisstj. í framhaldi af þeim umr. sem fjárlagagat ríkisstj. fékk um daginn.

Þá langaði mig til að spyrja hæstv. fjmrh. þriðju spurningarinnar: Telur fjmrh. að ríkisstj. sé skuldbundin til að tryggja húsnæðislánakerfinu 1 050 millj., eins og lagt hefur verið til á lánsfjáráætlun fyrir 1984? Telur fjmrh. að ríkisstj. sé skuldbundin til að tryggja þessar 1 050 millj. til húsnæðislánakerfisins? Ég þarf ekki að sundurliða þessar 1 050 millj., ég gerði það áðan.

Í fjórða lagi langar mig til að spyrja hæstv. fjmrh.: Það hefur verið samþykkt að fella niður lendingargjöld á Keflavíkurflugvelli vegna Norður-Atlantshafsflugs Flugleiða. Það er upphæð sem nemur líklega um 27 millj. kr. Þetta er gert á grundvelli sérstaks uppgjörs fyrir Norður-Atlantshafsflugið eitt. Þá langar mig til að spyrja: Leitaði fjmrn. eftir upplýsingum um heildarafkomu fyrirtækisins Flugleiða áður en rn. gerði þessa tillögu? Og í framhaldi af því spyr ég þá hvort þær upplýsingar, sem ég tel að rn. hafi aflað, um heildarafkomu fyrirtækisins hafi gefið tilefni til 27 millj. kr. styrks frá ríkinu til fyrirtækisins. — Þetta voru fjórar samræmdar spurningar til hæstv. fjmrh.

Mig langar til að spyrja hæstv. forsrh. (Forseti: Forsrh. virðist ekki vera í salnum. Ég skal reyna að gera gangskör að því að hann verði hér.) Og kannske sjútvrh. Það er ein lítil spurning til hans. Ætli sjútvrh. sé í húsinu? (Forseti: Ég vona það. Ég hef óskað eftir því að þessir tveir ráðh. verði hér innan stundar og ég vona það. Það verður gert hlé þá á fundinum. — Hæstv. ráðh. ganga í salinn. Þá er fundarstörfum haldið áfram.)

Mig langaði til að bera fram eftirfarandi spurningu til hæstv. forsrh.: Ábyrgist ríkisstj. 1 050 millj. kr. fjáröflun skv. lánsfjárlögum til húsnæðislánakerfisins og hefur hún gert um það samþykkt?

Mig langaði til að spyrja hæstv. sjútvrh., vegna þess að við erum hérna að ræða lánsfjármál ríkissjóðs: Telur hæstv. sjútvrh. að fjárhagsvandi útgerðarinnar verði leystur án þess að ríkissjóður hlaupi undir bagga og afli lánsfjár og hvaða upphæðir gæti ráðh. þá nefnt í því sambandi?