19.03.1984
Neðri deild: 59. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3836 í B-deild Alþingistíðinda. (3254)

Um þingsköp

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ef það er ætlun hæstv. ríkisstj. að koma þessu máli fram í dag er sjálfsagt að þeir hæstv. ráðherrar sem hafa fengið jafnítarlegar og mikilvægar spurningar og hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh. hafa fengið nú svari þeim spurningum áður en við þm. tökum til máls. Skv. þingsköpum sem hér gilda hef ég ekki tækifæri til að tala aftur nema til að gera örstuttar aths. Ég tel það ekki til að greiða fyrir framgangi málsins að ráðh. hafi þann hátt á hér að ætlast til þess að einstakir þm. tali sig dauða áður en svarað er þeim spurningum. Ég mælist því eindregið til þess við hæstv. forseta að hæstv. félmrh. og hæstv. fjmrh. svari nú þegar þeim spurningum sem til þeirra hefur verið beint svo að umr. geti haldið áfram á greiðan og eðlilegan hátt, en ekki sé verið að níðast á þingsköpum með þeim hætti að láta þm. tala sig dauða áður en hæstv. ráðh. þóknast að svara.

(Forseti: Vegna beiðni hv. 7. þm. Reykv. vil ég upplýsa að forseti hefur ekki vald til að krefjast þess af ráðherrum að þeir fari í ræðustól og svari spurningum. Þeir hafa ekki enn beðið um orðið, en næstur á mælendaskrá er hv. 7. þm. Reykv.)

Herra forseti. Það samkomulag sem gert var um að greiða fyrir afgreiðslu þessa máls, svo að hæstv. ríkisstj. gæti tekið nýtt erlent lán eins og hún er að kappkosta að geta gert á morgun, var háð því að þeir ráðherrar sem hér bera ábyrgð á meginþáttum málsins veittu greinargóð svör við þeim spurningum sem til þeirra hefur verið beint. Ef hvorki hæstv. fjmrh. né hæstv. félmrh., þrátt fyrir þær spurningar sem hv. þm. Svavar Gestsson hefur til þeirra borið og þá ósk sem ég hef hér sett fram, hafa beðið um orðið er það eingöngu yfirlýsing af þeirra hálfu um að þetta samkomulag, sem þeir hafa átt aðild að við stjórnarandstöðuna, sé í sundur slitið. Það eru þá þessir tveir hæstv. ráðh. sem hafa slitið það samkomulag í sundur og bera alla ábyrgð á hvort hæstv. ríkisstj. tekst að taka þetta lán eða ekki því að við þm. í stjórnarandstöðu látum ekki koma þannig fram við okkur hér að við verðum að skerða okkar eðlilega rétt til að fjalla um þetta mál og knýja fram svör og ráðh. svari svo ekki spurningum og notfæri sér þingsköpin á þann hátt að láta okkur tala okkur dauða.

Þegar stjórnarandstaða og hæstv. ríkisstj. gera samkomulag um afgreiðslu mála, eins og hér hefur verið gert, er það á grundvelli þess að hæstv. ráðherrar svari spurningum sem til þeirra er beint. Ef þeir kveðja sér ekki hljóðs nú og láta mælendaskrána ganga eins og hún er hjá virðulegum forseta, og það er alveg rétt hjá virðulegum forseta að hún hefur ekki vald til að knýja þá upp í ræðustólinn, ber eingöngu að skoða það sem yfirlýsingu af hálfu ríkisstj. um að samkomulag um framgang málsins sé þar með í sundur slitið. Við munum bíða fáeinar sekúndur eftir því að vita hvort svo sé. Þá kemur það skýrt í ljós og þá geta hvorki formaður þingflokks Sjálfstfl., Ólafur G. Einarsson, né varaformaður og sérstakur eftirrekstrarstjóri Sjálfstfl., Friðrik Sophusson, kvartað yfir því á eftir hvaða afleiðingar það hefur. — En við munum sem sagt bíða í fáeinar sekúndur og gá að því hvort hæstv. fjmrh. eða hæstv. félmrh. biðja um orðið til að svara spurningum. (Forseti: Það eru enn tveir hv. þm. á mælendaskrá, hv. 7. þm. Reykv. og hv. 4. landsk. þm. Hv. 7. þm. Reykv. er næstur á mælendaskrá. Óskar hann eftir því að taka til máls síðar?) (SvG: Ráðh. gefur sig ekki fram enn þá.) Gefi ráðh. sig ekki fram er þetta samkomulag sundur slitið. (Forseti: Hv. 7. þm. Reykv. er á mælendaskrá. Óskar hann að taka til máls núna?)