19.03.1984
Neðri deild: 59. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3838 í B-deild Alþingistíðinda. (3257)

Um þingsköp

Ólafur G. Einarsson:

Hæstv. forseti. Það hefur komið fram fyrr í umr. að gert var samkomulag milli þingflokkanna um að ljúka afgreiðslu þessa máls í dag eða fyrir miðnætti, skulum við segja. Formaður þingflokks Alþb., Ragnar Arnalds, staðfesti við mig fyrir nokkrum mínútum að það samkomulag stæði. Ég vil taka það skýrt fram, að að því leyti sem ég kom að þessum samningaumleitunum gerði ég að sjálfsögðu ráð fyrir að spurningum yrði hér svarað. Við vorum ekki að semja um að hæstv. ráðherrum eða einstökum þm. yrði meinað að tala í þinginu. En ég get náttúrlega ekki fullyrt neitt um það fyrir fram hvort hv. þm. geðjast svörin sem ráðherrar flytja hér.

Ég vonast nú til að menn geti fallist á þetta samkomulag, umr. ljúki hér það tímanlega að málið komist til hv. Ed. í kvöld. Þar hefur verið boðaður fundur kl. 9, þannig að málinu verði lokið fyrir miðnætti, eins og ég veit að allir skilja að nauðsyn er á.