19.03.1984
Neðri deild: 59. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3840 í B-deild Alþingistíðinda. (3259)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Virðulegi forseti. Það var ekki meining mín að fara að tefja umr. eða hnýta einhvern hnút á þær því að afgreiða þarf það sjálfsagða mál sem hér er til meðferðar, lánsfjárlög. Satt að segja taldi ég að hv. 3. þm. Reykv. væri búinn að fá þau svör frá mér sem nægðu honum til að halda áfram á síðum Þjóðviljans að reyna að gera húsnæðismálin nógu tortryggileg, miðað við það sem fram hefur komið þar áður, og léti við það sitja og óskaði ekki eftir frekari staðfestingu á þeim skoðunum og því áliti sem ég hef hér látið í té.

Það má vel vera að hv. þm. hafi greiðan aðgang að Húsnæðisstofnun, en ég vil endurtaka að húsnæðismálastjórn er enn ekki farin að gera framkvæmdaáætlun fyrir árið 1984 af þeirri einföldu ástæðu að beðið er eftir því hver úrslit lánsfjárlagafrv. fær á hv. Alþingi. Það er beðið eftir því að lánsfjárlög verði samþykkt, en um leið og það liggur fyrir mun húsnæðismálastjórn koma saman og gera sína áætlun. Þær tölur sem hægt er að fá í Húsnæðisstofnun í dag eru því aðeins byggðar á þeim möguleikum sem hér liggja fyrir. Það eru ekki neinar staðfestar tölur til frá húsnæðismálastjórn.

Ég vil bæta því hér við, ef mönnum hefur láðst að átta sig á þeirri staðreynd, að stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins er þingkjörin og þetta er sjálfstæð stofnun, sem mun að sjálfsögðu taka sínar ákvarðanir þegar til þess eru aðstæður. Ég hef þess vegna enga ástæðu til þess að svara spurningum, sem hér hafa komið fram, um hvernig félmrh. ætlar að skera niður eitt eða annað. Ég mun taka tillögur stjórnarinnar til meðferðar þegar þær koma og við munum sameiginlega, félmrn. og stjórn stofnunarinnar, reyna að vinna úr þeim tölum, sem liggja til grundvallar, eftir því sem við teljum skynsamlegast og stofnunin gerir ákveðnar tillögur um.

Ég vil einnig benda hv. þm. á að tölur hafa ekki breyst. Í lánsfjáráætlun er reiknað með 1160 millj. kr. til útlána árið 1984 úr Byggingarsjóði ríkisins. Sú tala mun standast. Ég hef þegar lýst því að viðskrh. og félmrh. standa í viðræðum við bankakerfið um sérstaka fyrirgreiðslu til framkvæmdaaðila í byggingariðnaði og þessi tala, 1160 millj., mun standast.

Ég tel einnig ástæðu til að segja það hér, að undarlegt er að hlusta á hv. 3. þm. Reykv. vera að halda hér hrokaræður um að verið sé að svíkja hitt og þetta í sambandi við þessi mál og sífellt sé verið að gefa út áætlanir sem ekki standist. Hafi nokkur félmrh. þurft að láta gera nýjar og nýjar áætlanir á ári hverju, þá er það hv. 3. þm. Reykv. þegar hann var félmrh. Það er ósköp einfalt að sýna fram á það með því að fletta bókum stjórnar Húsnæðisstofnunar ríkisins. (Gripið fram í.) Það er ástæða til að gera það við tækifæri, hv. þm.

Ég tel að ég hafi engu við það að bæta sem ég hef áður sagt. Miðað við þessa áætlun mun takast að framfylgja þessum málum. Ég vil geta þess hér að í lok þessarar viku hefst úthlutun húsnæðislána fyrir árið 1984 með 50% hækkun lána til húsbyggjenda, sem er náttúrlega aðalatriðið í þessu öllu saman. Og ég vil bæta því við, sem virðist oft gleymast, að í desember- og janúarmánuði hafa verið greiddar tæpar 300 millj. í viðbótarlán til húsbyggjenda sem fengu lán 1981–1983. Það er hrein viðbót við það sem áður var búið að lána og sérstakt afrek þessarar ríkisstj., sem húsbyggjendur í landinu kunna áreiðanlega að meta.