19.03.1984
Neðri deild: 59. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3853 í B-deild Alþingistíðinda. (3263)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. iðkar það mjög að koma upp í ræðustólinn og hafa eftir ræðumönnum það sem hann segir að þeir hafi sagt, en þá fer hann gjarnan með rangt mál. Hv. ræðumaður hefur nú tvisvar sinnum komið hingað upp og fullyrt að ég hafi sagst vera sammála bæði hæstv. fjmrh. og félmrh. um það sem þeir sögðu um 1050 millj. kr. til húsnæðismála. Það sem ég sagði, og hv. þm. getur flett því upp í því sem ritað verður eftir mér, það kemur í Alþt., var að bæði fjmrh. hefðu lýst því hvernig leitast væri við að tryggja þetta fjármagn í fyrsta lagi með samningum við lífeyrissjóðina. Ég lýsti þeirri skoðun minni að þetta væri tryggt eins vel og frekast er kostur. Ég hygg að þetta séu nokkurn veginn óbreytt orð mín.

Ef þetta tekst ekki vil ég vekja athygli á að húsnæðismálin eru forgangsverkefni stjórnarflokkanna og munu ríkisstj. og stjórnarflokkar fjalla um hvernig það fjármagn verður útvegað sem ekki næst með því móti sem lánsfjárlögin gera ráð fyrir. En ég endurtek, og vísa enn til þess sem kom fram í ræðu fjmrh. og félmrh., ég vísa til þess sem þeir sögðu um fundi sína með lánasjóðnum, að það er mín skoðun að eins vel hafi verið frá þessu gengið og frekast er kostur og miklu betur en tókst í tíð fyrri ríkisstj.

Það er ekkert undarlegt þótt hv. þm. sárni að nú skuli verða aukið fjármagn til húsnæðismála úr rúmlega 700 millj. í yfir 1600 millj. í lánsfjáráætlun og lánsfjárlögum og í fjárlögum. Hv. þm. var að bauka við það í allmörg ár að auka útlán til húsbyggjenda, en því miður — okkur þótti það öllum leitt sem með honum voru í ríkisstj. — tókst það ekki.