19.03.1984
Neðri deild: 59. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3857 í B-deild Alþingistíðinda. (3266)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það hefur komið hér fram oftar en einu sinni við þessa umr.hæstv. ríkisstj. óskar eftir því að fá þetta frv. afgreitt í dag vegna þess að ríkisstj. þurfi að taka erlent lán og frestur til þess renni út á miðnætti. Þannig er nú teflt á hin tæpustu vöð í efnahagsstjórn ríkisins. Ríkisstj. á það undir stjórnarandstöðunni hvort henni tekst að ná hinu erlenda láni.

Nú er alveg ljóst að þau deiluatriði sem hér hafa aðallega verið til umr. snerta fyrst og fremst innlenda þætti fjármála ríkisins, húsnæðismál, stöðuna gagnvart Seðlabanka og aðra slíka þætti. Þess vegna vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. hvort þeir vilja ekki í fundarhléi hugleiða á ný það tilboð sem hv. þm. Svavar Gestsson gerði ríkisstj., og að ég held stjórnarandstaðan öll, að afgreiða sérstaklega í þessu frv. þann þáttinn sem brýnt er að afgreiða, þ. e. greinina sem veitir ríkisstj. heimild til að taka þetta erlenda lán, en gefa síðan þingheimi tækifæri til að komast til botns í öðrum deilumálum. Ég vil taka hér dæmi um nauðsyn þess. Hæstv. fjmrh. var að enda við það í ræðustól að bera mér á brýn mjög ómerkilega talnafölsun og vara hv. þm. Guðmund Einarsson við að taka sér til fyrirmyndar slík vinnubrögð, vegna þess að ég hefði eingöngu fjallað í töflunni um stöðuna í lok mánaðarins, en hefði svo lesið hér upp úr ræðustól . . . (Fjmrh.: Tölur frá 15. mars.) Já, já, alveg hárrétt fjmrh., alveg hárrétt. Ástæðan fyrir því að ég las upp þessar tölur var sú að hæstv. ráðh. gaf út yfirlýsingu 15. febrúar um að ekki yrði aukið við skuldastöðuna gagnvart Seðlabanka frá því sem verið hefði. Ástæðan fyrir því að ég tók 15. mars var að þegar ég hringdi í Seðlabankann í morgun var síðasta talan sem þeir höfðu handbæra frá 15. mars. Ég spurði auðvitað að því, vegna þess að ég hef kannske aðeins meiri þingreynslu en Guðmundur Einarsson, en ekki alveg eins mikla og hæstv. fjmrh., ég spurði auðvitað seðlabankann líka að því: Mun þetta breytast mjög það sem eftir er mánaðarins? Ég taldi hins vegar ekki ástæðu til að vera að rekja það hér vegna þess að þar var á ferðinni álit viðkomandi starfsmanns Seðlabankans, en ekki beinharðar tölulegar upplýsingar sem liggja fyrir í skýrslum Seðlabankans. Mér fannst ekki ástæða til þess að ég væri að blanda inn í umr. í þinginu skoðun starfsmanns Seðlabankans. En fyrst hæstv. fjmrh. knýr mig nú til þess í vörn gagnvart þeim ásökunum sem hann hefur hér á mig borið um að beita ómerkilegum aðferðum í mínum málflutningi, þá get ég upplýst að þessi starfsmaður Seðlabankans taldi að þessir 2 milljarðar og rúmlega 700 millj. kr., sem skuldirnar væru nú, 15. mars, gætu kannske minnkað um tæpar 200 millj. það sem eftir væri mánaðarins, en ekki miklu meira. Það er nú allt og sumt.

Herra forseti. Ég vildi aðeins nefna þetta dæmi hér vegna þess að það voru síðustu orð hæstv. fjmrh., þegar hann fór hér úr ræðustólnum, að bera á mig talnafals. Ég er til knúinn að sýna hvernig í málunum liggur. Það er alveg brýn nauðsyn á að þingið fái við umr. í fjh.- og viðskn. eða hér í deild aðstöðu til að fara ofan í þessar tölur og fá umr. um innlendu þættina sem hér hefur verið deilt um í dag, en málið sé ekki skilið eftir í fullkominni óvissu og í umræðustíl sem hæstv. fjmrh. lét sér sæma áðan.

Þess vegna, herra forseti, hef ég kvatt mér hljóðs um þingsköp til að óska eftir því, að þótt ekki séu fleiri á mælendaskrá ákveði hæstv. forseti að fresta umr. til klukkan níu og slíta henni þá ef enginn kveður sér hljóðs. Ég reikna ekki með að neinn í stjórnarandstöðunni muni gera það í millitíðinni. Þetta væri eingöngu til að gefa hæstv. ríkisstj. færi á því í matartímanum að hugsa sig um og kanna hvort hún er ekki reiðubúin að samþykkja þá ósk og það tilboð að við afgreiðum hér erlenda þáttinn, sem brýnt er að afgreiða, en vísum öðrum þáttum á ný til skoðunar í n. og umr. Þá geta menn hafið hana á nýjan leik þegar fjh.- og viðskn. hefur skoðað þá innlendu þætti sem hér hefur verið deilt um. Það er ósk mín, herra forseti, að þannig verði á málum tekið hér í trausti þess að menn muni í stjórnarandstöðunni ekki kveða sér hljóðs í millitíðinni, heldur sé eingöngu verið að nota þennan frest til þess að hæstv. ríkisstj. geti hugsað sig um.