19.03.1984
Neðri deild: 59. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3858 í B-deild Alþingistíðinda. (3268)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég skal ekki þreyta þolinmæði forseta mjög lengi. Það er hins vegar alveg ljóst að ráðh. hafa ítrekað gert í því hér í kvöld að tefja umr. með skætingi í garð stjórnarandstöðunnar og útúrsnúningum. Það er ekki nýtt. Þeir gera þetta iðulega þegar þeir eru orðnir rökþrota, og einkum er það hæstv. fjmrh. sem beitir sér mjög í þessu efni og sýnir þann drengilega svip sinnar þingmennsku. (Fjmrh.: Þetta er ekkert annað en málþóf.) Ætli ég hafi orðið núna um þingsköp eða hæstv. fjmrh. sé að ráðast að talsmönnum stjórnarandstöðunnar þegar þeir eru búnir að tala sig dauða, eins og það heitir, og geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér öðruvísi en í aths. um þingsköp?

Hæstv. fjmrh. er rökþrota. Hann er rökþrotabú. Það er eitt sem alltaf er hægt að hafa til marks um að hann sé kominn á botn í rökrænum málflutningi. Það er þegar hann fer að tala um neyðaráætlun Alþb. Hann lýkur yfirleitt öllum umr. hér á því að tala um neyðaráætlun Alþb., sem ég hafi lagt til að gera yrði til fimm ára á vegum þjóðstjórnar. Ég fagna því mjög að hæstv. fjmrh. skuli sýna með svo óyggjandi hætti hvenær hann stendur á gati. En í rauninni er núv. hæstv. fjmrh. sá fjmrh. sem staðið hefur á gati fremur en nokkur annar maður sem sögur fara af í því embætti í margföldum skilningi þess orðs. Neyðaráætlun Alþb. hafði hins vegar þann megintilgang að afstýra þeirri neyð frá íslenskum alþýðuheimilum sem stefna hans hefur innleitt í landinu að undanförnu. Það er ekki von að hann átti sig á því (Gripið fram í.) og geri sér grein fyrir því.

Hvað var hæstv. ráðh. að segja? (Fjmrh.: Ég skal lesa þetta fyrir þig.) Ég hef lesið þetta og kann þetta mjög rækilega. (Gripið fram í.) Í þessu stendur, hæstv. ráðh., að það sé nauðsynlegt að gera áætlun til að afstýra þeirri neyð sem ella blasir við þjóðarbúinu á Íslandi. (Fjmrh.: Hverjir voru þá í stjórn?) M. a. var það ég, hæstv. ráðh., — í stjórn sem þú innleiddir hér á Íslandi fremur en ýmsir aðrir menn, og er það eitt af því sem þú getur hrósað þér fyrir á þínum stjórnmálaferli (Fjmrh.: Það eru ósannindi.) og þingmennskuferli á liðnum árum. Eru það ósannindi, hæstv. ráðh., að þú hafir beitt þér mjög fyrir því að ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens var mynduð? (Fjmrh.: Ég tók engan þátt í því.) Hvers lags eiginlega? (Gripið fram í.) Hvernig var með bréfið (Forseti: Ekki samræður.) til hæstv. forseta Íslands sem lýsti því yfir að þáv. hv. þm. Gunnar Thoroddsen mætti gjarnan fá leyfi til þess að reyna að mynda ríkisstj.? (Fjmrh.: Það er ekki stjórnarmyndun.) Hvað er þetta? Ætlar hæstv. fjmrh. ekki að kannast við handaverk sín? (Gripið fram í.) Hverjum á að kenna um þetta? Er kannske einhver sem hægt er að kenna um þetta? (Gripið fram í.) Er verið að klaga? Ja, hvílík hetjudáð og hetjuskapur hér! Það er athyglisvert að þessi hæstv. ráðh. skuli taka að sér að kenna hv. þm. Guðmundi Einarssyni þingmennsku. Ég held nú að það færi flestum öðrum betur að reyna að hafa yfir lexíur í þeirri grein.

Herra forseti. Því miður hefur þessi umr. ekki leitt til þeirra lykta, sem eðlilegt hefði verið, að stjórnin hefði svarað fyrir þau mál sem hér hafa verið borin fram af fullum heilindum og með málefnalegum hætti af stjórnarandstöðunni í dag. Ég harma málefnafátækt ríkisstj. og ég tel að henni hefði verið fyrir bestu að taka þeim leiðbeiningum stjórnarandstöðunnar að lesa heimastílinn sinn betur og koma með lánsfjárlögin í betri búningi hingað til þingsins til meðferðar.