19.03.1984
Neðri deild: 59. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3865 í B-deild Alþingistíðinda. (3279)

196. mál, lausaskuldir bænda

Frsm. minni hl. (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. í nál. minni hl. landbn., en minni hl. leggur til að málið verði afgreitt með svofelldri rökstuddri dagskrá:

„Þar sem verðdeild Búnaðarbanka Íslands er lögum skv. heimilt að gefa út bankavaxtabréf og veita lán gegn veði í fasteignum, þar með talið að breyta í föst lán lausaskuldum bænda ef næg veð eru fyrir og um semst um lánstíma og greiðslukjör milli lánadrottna og skuldunauta, og sérstakar lagaheimildir af þessu tilefni eru þar af leiðandi óþarfar, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Það kom m. ö. o. á daginn í umfjöllun nefndar um þetta frv., sem kallað er frv. til l. um breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán, að frv. er óþarft með öllu. Skv. lögum um veðdeild Búnaðarbankans er hlutverk veðdeildarinnar útgáfa bankavaxtabréfa og veiting lána gegn veði í fasteignum. Veðdeildin hefur því lögum skv. ótvíræða heimild til útgáfu nýs flokks bankavaxtabréfa og þar með til þess að breyta í föst lán lausaskuldum bænda ef næg veð eru fyrir og lánadrottnar sætta sig við lánstíma og greiðslukjör og fjármunir eru fyrir hendi. Sérstök lög til að heimila þessa breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán eru þess vegna óþörf. Þess vegna leggur minni hl. til að frv. verði vísað frá.

Til þess að færa frekari sönnur á þetta eru birt í þskj. með nál. minni hl. gildandi lög um veðdeild Búnaðarbanka Íslands þar sem það kemur skilmerkilega fram hvert hlutverk deildarinnar er, að henni er þetta með öllu heimilt. Skv. 4. gr. þeirra laga kemur m. a. s. á daginn að þar er um að ræða ábyrgð ríkissjóðs, en ekki einfalda bankaábyrgð, þannig að það fer ekki milli mála og hefur ekki verið vefengt og reyndar staðfest í viðræðum við einn af bankastjórum Búnaðarbankans að að hans mati væri það alveg ótvírætt að nægar lagaheimildir væru fyrir hendi í gildandi lögum um veðdeild Búnaðarbankans. Það fer því ekkert á milli mála að þetta frv. sem slíkt er ónauðsynlegt til þess að framkvæma skuldabreytinguna, hér er ekki þörf neinna nýrra lagaheimilda. Það sem aftur á móti skortir og það sem Alþingi þarf að taka afstöðu til er auðvitað fyrst og fremst fjárútvegunin sjálf og það sem því fylgir.

Eins og fram kom í máli frsm. meiri hl. þá er aðdragandinn að þessu máli sá, að hæstv. fyrrv. landbrh. skipaði nefnd til þess að fjalla um málið og skila till. og grg., sem hún gerði með skilum þann 9. sept. s. l. Í nál. kemur það fram að nefndin mælir mjög með því að málinu sé hraðað og telur óhjákvæmilegt annað en að standa þannig að málum að þetta geti orðið að lögum fyrir s. l. áramót. Þeim mun meiri furðu hlýtur það að vekja að aðgangsharka hæstv. landbrh. er ekki meiri í þessu máli en raun ber vitni. Nefndin skilar áliti þann 9. sept. og síðan er liðinn hver mánuðurinn á fætur öðrum. Þing sest á rökstóla í október og ekki bólar á þessu frv., þó að nál. liggi fyrir skilmerkilega í okt., og nú er kominn mars. Bendir það nú vægast sagt ekki til þess að mikill hugur fylgi máli. Sú skýring var nefnd á þessum drætti í umfjöllun nefndarinnar að þarna hefði komið til andstaða af hálfu fjmrn. við því að veita ríkisábyrgð f. h. fjmrh. Því er til að svara að ef sú leið hefði verið farin sem ég er hér að benda á, þ. e. ef menn hefðu áttað sig á því að lagaheimildir voru fyrir hendi skv. lögum um veðdeild Búnaðarbankans, þar sem ríkisábyrgðin er fyrir hendi skv. lögunum þá þurfti ekki að tefja málið af þeim sökum.

Menn spyrja kannske um fordæmi. Úr því að þessi lög eru greinilega óþörf, hvernig stendur þá á því að við fyrri tilvik, þegar um hefur verið að ræða breytingar á lausaskuldum bænda í föst lán, sem eru orðin ekki undantekning heldur föst regla á undanförnum árum og hefur þannig verið samfellt allt tímabilið frá 1970 til dagsins í dag, að þá hefur verið farið eins að? Því er til að svara að jafnvel þó slík frv. hafi verið lögð fram þá voru þau engu að síður óþörf. Vegna þess að t. d. 1979 var framkvæmdin sú að skv. tilmælum ríkisstj. var það Byggðasjóður sem fjármagnaði þessa skuldbreytingu, en þá mun, eftir því sem nm. voru upplýstir um, í fyrsta sinn hafa komið til þess að um sérstaka útgreiðslu nýrra lána hafi verið að ræða til þess að losa um vanskil, sem myndast höfðu áður hjá viðskiptafyrirtækjum bænda, innlánsdeildum kaupfélaga aðallega og öðrum slíkum.

Því má svo bæta við að þrátt fyrir það að málið hefur dregist svo mjög, og það að óþörfu að mínu mati, þá verður nú ekki sagt að meðgöngutíminn, þetta hálfa ár sem síðan er liðið, hafi verið notaður til þess að hægt sé að segja að málið sé undirbúið með fullnægjandi hætti. Þannig liggur raunverulega ekkert fyrir um það hvaða upphæð er verið að ræða um. Enn er mjög á reiki hver verður endanlega fjöldi umsækjenda úr hópi bænda um þessa skuldbreytingu. Þar af leiðandi liggur ekkert fyrir um hver heildarupphæð fyrirhugaðrar skuldbreytingar verður, þaðan af síður um það hlutfall af þeirri óþekktu heildarupphæð sem meiningin er að afla í formi nýrra lána til þess að greiða upp vanskil, þannig að skuldunautar verði lánshæfir. Að vísu liggur nú fyrir till. um það hvaða kjör verði á þessum reiðufjárhluta, en ýmislegt hins vegar enn í óvissu þrátt fyrir allt um það, þ. e. afstöðu lánadrottnanna sjálfra, hvort þau kjör eru ásættanleg af þeirra hálfu.

Niðurstaða míns máls er þess vegna sú í fyrsta lagi, að þessi dráttur er óeðlilegur. Í annan stað það að þetta frv. leysir ekkert vanda bænda. Jafnvel þó að þetta frv., sem ég tel mig hafa sýnt fram á með rökum að er óþarft, væri samþykkt hér og nú, þá eru bændur að engu bættari, því að eftir er að skila vörunum, þ. e. að tryggja það lánsfjármagn sem þarf til að koma þessu á í framkvæmd, en flm. og allir sem um málið hafa fjallað leggja á það höfuðáherslu að skuldbreytingin sé óframkvæmanleg í verki ef ekki kemur til hið nýja fjármagn. M. ö. o., það er þá fyrst sem kemur til kasta Alþingis. Alþingi þarf ekki að endurnýja lagaheimildir, þær eru fyrir hendi.

Það sem leiðir af samþykkt þessa frv. er því nánast ekki neitt annað en viljayfirlýsing sem er þó þörf. Bændur eru að engu bættari og ríkisstj. hefur enn ekki, þrátt fyrir þennan langa aðdraganda málsins, lagt fram till. um það með hvaða hætti hún vilji fjármagna þetta. Rétt er hins vegar að það komi fram að þann 28. febr. mun hafa verið samþykkt í hæstv. ríkisstj. að tillögu landbrh. svohljóðandi till.:

Ríkisstj. fellst á þá till. nefndar, sem kannaði fjárhagsvanda bænda, að veðdeild Búnaðarbanka Íslands verði útvegað lánsfé, er nemi allt að 40% skuldbreytingar á lausaskuldum bænda, enda verði séð um að röð ábyrgðaraðila á lánum þessum verði sú sama og í frv. til l. um breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán“ o. s. frv.

Ríkisstj. hefur m. ö. o. samþykkt að útvega slík lán. Af því tilefni má nú rifja upp að við höfum í allan dag rætt hér á hv. Alþingi í þessari deild frv. til lánsfjárlaga. Í þeirri umr. hafa stjórnarandstæðingar leitt talið mjög að efnahagsstefnu ríkisstj. Sjálfir hafa stjórnarsinnar lagt til eldiviðinn í þær heitu umr. með því að upplýsa að fjárlög ríkisins nýsamþykkt eru nú með ógnarstóru gati, þannig að þeim saumaskap þarf að spretta upp og endurnýja fjárlögin. Ríkissjóður er rekinn með seðlaprentun í Seðlabankanum eða sívaxandi yfirdrætti í seðlabankanum. Það er talað um gaf í fjárlögum upp á tvo milljarða, það er talað um að á fyrstu þremur mánuðum þessa árs sé yfirdráttur ríkissjóðs við Seðlabanka um miðjan þennan mánuð kominn upp í 2.7 milljarða. Stjórnarandstæðingar telja sig hafa fært rök að því að lánsfjárlögin, nýsamþykkt, séu óraunsæ með öllu og vitna þar í gefnar yfirlýsingar stjórnarsinna sjálfra, sem viðurkenna að áætlun um innlenda lánsfjáröflun hafi brugðist. Þar að auki eru talin upp ótal verkefni sem ríkisstj. er með á prjónunum og verða ekki fjármögnuð nema með erlendum lánum, þannig að við teljum að þar standi út af um 1–1.5 milljarður. Þessu til viðbótar er það staðfest af hæstv forsrh. að peningamálastefna ríkisstj. er öll í molum. Nægir þar að nefna útlánaaukningu bankanna fyrstu tvo mánuði þessa árs sem samsvarar því að aukning peningamagns í umferð væri á einu ári 61.2%, sem er náttúrlega í engu samræmi við yfirlýst verðbólgumarkmið ríkisstj. Mjög hefur gengið á gjaldeyrisforðann af sömu ástæðum og engu munar nú þessa dagana að seinasta hálmstrá hæstv. fjmrh., sem er það að hann muni taka pokann sinn ef svo fer að hlutfall erlendra lána af vergri þjóðarframleiðslu fari yfir 60%, er nokkurn veginn að gerast þessa dagana, fyrirsjáanlegt að yfir þau mörk verður farið.

Ekki er þetta glæsileg lýsing. Ríkisstj. hefur náð takmörkuðum árangri á einu takmörkuðu sviði, en nú er allur sá takmarkaði og tímabundni árangur í hættu vegna þess að aðhaldsaðgerðir á öðrum sviðum hafa ekki fylgt á eftir. M. ö. o., það er stórkostleg hætta á því að verðbólguhringekjan fari að snúast með sívaxandi hraða og hvert viðnámsvígið á fætur öðru, sem ríkisstj. hefur lýst yfir.að hún staðnæmist í á flóttanum, er hrunið.

Það vakti að sjálfsögðu athygli okkar nm. í landbn. að engar till. voru gerðar um nýja fjármögnun að því er varðar lausaskuldir bænda í lánsfjárlögum. Þess vegna er niðurstaðan sú, að við vitum ekkert hvaðan ríkisstj. hugsar sér að taka þetta fé. Það kom fram í umræðu nefndarinnar að bankastjóri Búnaðarbankans, sem kom til viðræðu, taldi með öllu óraunhæfa þá hugmynd sem fram kemur í niðurlagsorðum samþykktar ríkisstj.: „Viðskrh. er falið að kanna hvort lenging erlendra lána Framkvæmdasjóðs ásamt aðstoð Seðlabanka Íslands nægi til fjáröflunar í þessu skyni.“ Á það var bent að lán veðdeildar, það er aðeins um að ræða eitt erlent lán, er til mjög langs tíma, lán Stofnlánadeildar munu vera einnig til langs tíma, og það framkallast ekkert nýtt fjármagn með þessum hætti. Niðurstaða okkar hlýtur því að vera sú, að ekki sé um aðra útvegi að ræða fyrir hæstv. ríkisstj. en að leita eftir heimild Alþingis til að afla þessara fjármuna með erlendri lántöku þegar að því kemur að ríkisstj. viti um hvaða fjármuni er að tefla.

Það er athyglisvert í þessu sambandi að rifja það upp, að þótt þessi lagasetning sé óþörf og komi bændum að engu gagni á þessu stigi málsins og spurningin snúist þess vegna um nýja fjármögnun, þá mætti spyrja sem svo: Er þetta þá ekki þegar á valdi veðdeildarinnar? En á fundum nefndarinnar kom það fram að veðdeildin er meira en á hausnum og ekki aflögufær til að leysa þennan vanda, þó hún hafi haft heimildir til, eins og segir í nál. minni hl.:

„Á fundum nefndarinnar var upplýst að höfuðstóll veðdeildar er neikvæður um ca. 20 millj. kr. Ástæðurnar fyrir þessu fjárhagshruni veðdeildarinnar eru einkum þrjár að sögn forráðamanna hennar:

1. Á árunum 1972–1977 var henni gert að taka erlend gengistryggð lán og verðtryggð innlend lán.

2. Útlán deildarinnar, m. a. til jarðakaupa, voru hins vegar óverðtryggð allan tímann.

3. Lögboðin framlög ríkissjóðs til deildarinnar voru skert.“

Þetta rennir enn stoðum undir það, að það virðist ekki vera annar útvegur, ef meiningin er að standa við þetta í reynd, ef þetta á að vera annað og meira en sýndartillaga, en að útvega nýtt fjármagn. Það er varða á þeirri leið að mjaka hinu ginnhelga hlutfalli erlendra lána enn upp fyrir 60% markið og ýta þar með undir það að hæstv. fjmrh. standi við stóru orðin um að standa upp úr stólnum.

Herra forseti. Frsm. meiri hl., hv. 3. þm. Norðurl. e. Stefán Valgeirsson, vék nokkuð að öðrum brtt. sem fram eru komnar í þessu máli. Þar á meðal vék hann að fordæmum um skuldbreytingu annarra aðila og þó einkum húsbyggjenda og aðila í sjávarútvegi. Af því tilefni vil ég taka það fram að samkv. upplýsingum sem ég fékk frá hagfræðingi LÍÚ og varða skuldbreytingu í sjávarútvegi árið 1982, voru skilyrði fyrir þeirri skuldbreytingu þau að hér væri eingöngu um að ræða vanskilaskuldir og undir því hámarki, að skuldbreytingin mætti ekki nema hærra hlutfalli en 7% af matsverði eigna viðkomandi fyrirtækja. Í sambandi við þá skuldbreytingu hefði skilmerkilega verið tekið fram að ekki hefði verið veitt heimild til að afla nýrra lánsfjármuna.

Herra forseti. Að svo stöddu sé ég ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta, en dreg aðeins saman niðurstöðurnar. Það er álit minni hl. að ótímabært sé fyrir Alþingi að taka endanlega afstöðu til málsins fyrr en nauðsynlegar upplýsingar liggja fyrir. En þær teljum við vera þessar:

1. Hver er áætluð heildarupphæð skuldbreytingarinnar?

2. Hvernig hyggst ríkisstj. útvega nýtt lánsfé til að standa undir áætluðu útgreiðsluhlutfalli og hver verður heildarupphæð þessara lána?

3. Hvaða kjör á reiðufjárhluta lánanna geta lánadrottnar sætt sig við til þess að taka við nýjum skuldabréfum í stað verðtryggðra vanskilalána með hæstu vöxtum?

Það kom fram í máli frsm. meiri hl. að algengt vaxtastig á bréfum af þessu tagi, þegar um er að ræða fjárfestingarlán og veðlán, væri nú um 5–51/2%. Niðurstaðan er því þessi: Þrátt fyrir langan aðdraganda, þrátt fyrir að langt er síðan, hálft ár frá því að nefndin, sem undirbjó málið, skilaði áliti þá er málið ekki lengra komið en svo, að það reynir fyrst á efnislega afstöðu Alþingis til málsins þegar ríkisstj. stendur við samþykkt sína um að útvega þá fjármuni, sem allir sem um þetta hafa fjallað eru sammála um að skeri úr um það, hvort hér verði um að ræða annað en nafnið tómt eða hvort af framkvæmdinni verður.