19.03.1984
Efri deild: 66. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3878 í B-deild Alþingistíðinda. (3297)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti: Ég hef áður í umr. um þetta frv. hér í hv. deild gert að umtalsefni hvernig þetta frv. markar í megindráttum óbreytta stefnu í fjárfestingarmálum frá því sem var í tíð fyrri ríkisstjórna þrátt fyrir stór orð núv. ríkisstj. í upphafi ferils síns um nýja stefnu í þessum efnum. Að vísu er heldur dregið úr fjárfestingarhraðanum en fjármagninu er eftir sem áður veitt í sama farveg þannig að hér er engan veginn um breytingu að ræða. Einnig hef ég og aðrir stjórnarandstöðuþm. fjallað um og mælt á móti því sem e. t. v. má segja að séu einu nýmælin í þessu frv., þ. e. niðurskurður á fé til ýmissa brýnna félagslegra mála eins og til Framkvæmdasjóðs fatlaðra og Lánasjóðs ísl. námsmanna.

Ég ætla ekki að endurtaka það sem ég hef þegar sagt um þetta en lýsi því yfir að afstaða mín í þessum efnum hefur vitaskuld ekki breyst eina spönn síðan við afgreiddum þetta frv. héðan úr hv. deild til Nd. Í þessu lánsfjárlagafrv. er í grundvallaratriðum um að ræða, eins og ég sagði, sömu fjárfestingarstefnu og þá sem leitt hefur okkur út í það efnahagsástand sem við nú búum við og launafólk í landinu finnur óþyrmilega fyrir þessa dagana. Ég mun því nú sem áður ekki greiða þessu frv. atkv. mitt.

Síðan fór þetta frv. héðan frá okkur til Nd. Við nánari athugun þar í fjh.- og viðskn. og í ljósi þróunar ýmissa mála í landinu, sem orðið hafa síðan frv. var afgreitt héðan úr Ed., hefur enn betur komið í ljós að þetta lánsfjárlagafrv. er svo þrælgötótt og botnlaust að það er meira og minna ónýtt plagg. Mér er með öllu óskiljanlegt hvernig ríkisstj. ætlar að vinna eftir þessum lögum eftir að hún er búin að hafa þau í gegnum þingið. Menn hafa stungið upp á að e. t. v. eigi að koma til okkar eftir nokkrar vikur og tilkynna að nú sé illt í efni, allt götótt hér líka. Ég læt ekki bjóða mér upp á þvílíkt í tvígang og mun því sitja hjá við afgreiðslu þessa máls.