19.03.1984
Efri deild: 66. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3879 í B-deild Alþingistíðinda. (3298)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Mér telst að það séu 18 gr. í II. kafla þessa frv. sem mæla fyrir um að ekki skuli vera staðið við lög, heldur að einhverju leyti frá þeim fallið. Það var uppgötvað í Nd. að ein af þessum greinum væri dálítið gölluð. Flestar tilvísanir í greinina voru rangar og þar af leiðandi kemur greinin hingað breytt eins og samþykkt hefur verið í Nd. Greinin er um það að framlag ríkissjóðs til Aflatryggingasjóðs skuli verða skert, eins og hefur reyndar verið gert á undanförnum árum, það skuli ekki vera staðið við lög um framlag ríkisins til Aflatryggingasjóðs. Nú vill svo til að það er annað frv. að þessu lútandi á ferðinni hér á hv. Alþingi og við í sjútvn. Ed. erum að fjalla um það mál. 2. gr. þess frv. hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Á árinu 1984 skal framlag ríkissjóðs samkv. ákvæðum 2. tölul. 1. málsgr. 9. gr. laganna renna til áhafnadeildar sjóðsins til þess að deildin geti aukið greiðslur fæðispeninga og greitt úr fjárhagsörðugleikum sjómanna, sem upp kynnu að koma vegna þess að útgerð skipa stöðvast vegna aflabrests og hinna nýju reglna um stjórn botnfiskveiða á árinu 1984. Sjútvrn. mun setja nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.“

Það hefur verið gert allmikið úr því að þarna muni verða til peningar til að mæta vissum skakkaföllum sem áhafnadeildin hefur orðið fyrir vegna brbl. frá því í vor svo og vegna þess að nauðsynlegt sé að hafa fjármagn milli handanna til að mæta þeim skakkaföllum sem væntanleg eru vegna kvótareglnanna og vegna þess aflabrests sem spáð er.

Í frv. um Aflatryggingasjóð er nefnd sama tala og í lánsfjárlagafrv. Reyndar kemur fram í frv. um Aflatryggingasjóð að það sé frá gengið að upphæðin verði 18.6 millj. Er þá mjög nálægt þeirri upphæð farið sem Óskar Vigfússon formaður Sjómannasambands Íslands segir að áhafnasjóður hafi orðið af frá því í vor vegna aðgerða ríkisstj. í vor, brbl., þannig að 18.6 millj. séu ekki hærri upphæð en sem næmi því að jafna þá upphæð.

Í öðru lagi sagði formaður Sjómannasambandsins við okkur á fundi í sjútvn. að sjómenn mundu ekki una við skertan hlut Aflatryggingasjóðs og þiggja dúsu í formi ríkisstyrks til sjómanna. Mér er því spurn: Er ekki eðlilegra við þær aðstæður sem nú blasa við íslenskum sjávarútvegi að framlag til áhafnadeildar sé ekki skert? Og ég vil líka spyrja hæstv. fjmrh. hve háa upphæð hér hefði verið um að ræða ef framlag ríkissjóðs hefði ekki verið skert. Hve há er sú upphæð sem sjómenn hefðu mátt búast við að hefði runnið til Aflatryggingasjóðs? Hefði þá ekki orðið annað viðhorf sjómanna til framlags ríkissjóðs? E. t. v. hefðu þeir ekki þurft að hafa um það þau orð, sem formaður Sjómannasambandsins viðhafði í sjútvn. Nd., að þessi upphæð væri ekki annað en dúsa upp í sjómenn við þær aðstæður sem nú eru.