19.03.1984
Efri deild: 66. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3880 í B-deild Alþingistíðinda. (3299)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér ræðum við um fjármál einu sinni enn í dag, en hér er til umr. frv. til lánsfjárlaga. Mig langar í því sambandi að bera upp nokkrar spurningar til hæstv. fjmrh.

Við urðum þess vitni í þessari hv. deild í dag að það á að hækka skatta um 70–75 millj., en sé litið á frv. sést hvergi gerð nein tilraun til að fylla upp í það gat í fjárl. sem hæstv. fjmrh. lýsti yfir fyrir um hálfum mánuði að væri um 1800 millj. kr. Mér reiknast til að skattahækkunin frá því í dag nemi um 50 til 55 millj. upp í þetta fyrrnefnda gat, séu dregnar frá þær 20 millj. sem ríkissjóður leggur út vegna kjarasamninga, þar sem kjarasamningar kosta ríkissjóð um 220 millj., en 200 millj. endurheimtast í auknum sköttum vegna hækkandi tekna annarra landsmanna. Og þá langar mig til að spyrja hæstv. fjmrh.: Eigum við von á að á næstu dögum verði ákveðnar skattahækkanir sem nema þeim 1750 millj. sem vantar í viðbót upp í þetta gat eða verður frv. til annarra lánsfjárlaga lagt fram á Alþingi? Ég held að það þurfi að skýra þetta aðeins betur. Ég get ekki séð að hægt sé að koma þessum lögum í gegnum þingið án þess að fáist a. m. k. nasasjón af fyrirætlunum hæstv. ráðh. í þessum efnum.

Það er annað atriði sem mig langar líka til að spyrja um og það er í sambandi við útgerðina. Það hefur verið rætt um skuldbreytingar sem næmu um 1.6 milljörðum eða meira og hvort ekki eigi að fara þá leið að taka erlend lán sem því nemur. Megum við eiga von á að það komi fram lánsfjárlög sem hljóða þá upp á jafnvel um 3 milljarða kr.?

Ég ætla ekki að bæta miklu við það sem áður hefur komið fram því að eins og aðrir stjórnarandstöðuþm. hafa mælt hér eru það marklaus plögg sem við erum að fjalla um og ekki ástæða til að eyða miklu fleiri orðum á þau.