13.10.1983
Sameinað þing: 3. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í B-deild Alþingistíðinda. (33)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. fyrirspyrjanda að það er vissulega orðið tímabært að endurskoða reglur um störf Alþingis og stjórnarskrárákvæði í því sambandi. En ég vek athygli á því, að stjórnarskrárnefnd er starfandi og var kjörin fyrir allmörgum árum einmitt í þessu skyni, og hv. þm. hafa allir fengið skýrslu stjskrn. um endurskoðun stjórnarskrárinnar frá því í janúar 1983.

Það er athyglisvert að í 32. gr. þeirra laga sem nefndin sendir frá sér verða flokkar ekki sammála um það atriði sem hér er til umræðu, samkomudag Alþingis. Í núgildandi stjskr. segir reyndar: „Reglulegt Alþingi skal koma saman ár hvert hinn 15. dag febrúarmánaðar,“ en því var breytt með lögum nr. 3 frá 1967. Meiri hl. stjskrn. leggur til að þetta ákvæði verði svohljóðandi með leyfi forseta:

„Reglulegt Alþingi skal koma saman ár hvert hinn 10. okt. eða næstan virkan dag, ef helgidagur er, hafi forseti að tillögu forsrh. ekki tiltekið annan samkomudag fyrr á árinu.“

Það er m.ö.o. opið að kalla Alþingi saman fyrr, en meginreglan — að tillögu meiri hl. stjskrn. — er að 10 okt. verði hinn reglulegi samkomudagur Alþingis. Fulltrúar Alþfl. gera hins vegar aðra tillögu í þessari nefnd. Þeir leggja til að reglulegt Alþingi skuli koma saman ár hvert hinn 10. dag októbermánaðar eða næsta virkan dag, ef helgidagur er, og skuli hvert þing standa þar til næsta reglulegt Alþingi kemur saman — þ.e. Alþingi sitji allt árið. Ekki varð samkomulag í stjskrn. um þetta atriði. Skal ég út af fyrir sig ekki fjalla um það mörgum orðum. Ég sætti mig vel við tillögu meiri hl. stjskrn., en tek það fram að þetta er allt til athugunar. Stjskrn. mun starfa áfram og ljúka því verkefni sem henni var með þál. falið.

Þetta tengist auðvitað — eins og kom fram í orðum hv. fyrirspyrjanda — útgáfu brbl. sem hafa verið töluvert mikið gagnrýnd. Fróðlegt er að rifja aðeins upp sögu brbl. Þá kemur t.d. í ljós að 374 sinnum hafa brbl. verið gefin út frá 1874. Þetta skiptist að vísu mjög á tímabil. Því mun hafa verið haldið fram að brbl.-heimild hafi sérstaklega verið nauðsynleg á meðan fara varð með lög til Danmerkur til undirskriftar, meðan danskur ráðherra fór með málefni Íslands. En það er athyglisvert að aðeins átta brbl. voru gefin út á þeim tíma. Fyrstu brbl., sem íslenskur ráðherra undirritar, eru frá 4. mars 1904. Frá 1874 og fram að stríðsbyrjun 1939 eru gefin út 90 brbl. Frá 1939 til 1955 eru gefin út 135 brbl. og frá 1955 til dagsins í dag 149 — eða alls, eins og ég sagði áðan, 374 brbl. Af þessu má sjá að þetta er mjög breytilegt eftir tímabilum og það er rétt hjá hv. þm. að þetta hefur heldur farið vaxandi á síðari árum, en virðist ekki tengt því út af fyrir sig hve lengi þing hefur ekki setið. Enda má það rétt vera, sem hann sagði, að það er meiri hraði og meiri þrýstingur á útgáfu ýmissa laga nú en áður var.

Allir stjórnmálaflokkar hafa að sjálfsögðu gripið til útgáfu brbl. þegar þeir hafa verið í ríkisstj. Sömu flokkar hafa yfirleitt gagnrýnt það þegar þeir hafa verið í stjórnarandstöðu svo að það virðist nú vera dálítill tvískinnungur í þessu, ef ég má orða það svo. Það er líka athyglisvert að Alþingi hefur m.a. s. ályktað að ríkisstj. skuli gefa út brbl., eða gefið það til kynna. Svo mun hafa verið 1920 í lögum sem þá voru sett á Alþingi.

Og ég verð að segja það, að þegar ég leit yfir þetta yfirlit þá þótti mér brbl.-útgáfa hins merka manns, Haralds Guðmundssonar Alþfl.-manns, um Síldarverksmiðju ríkisins einna athyglisverðust, því hann gefur lögin út 12. maí 1936, þremur dögum eftir að Alþingi fer heim, og þau brbl. eru ekki samþykkt fyrr en 81/2 mánuði síðar. Jafnvel hinir merkustu menn, m.a. úr röðum Alþfl.-manna, hafa því talið ástæðu til þess að gefa út brbl. Og þarna hefur eflaust verið knýjandi nauðsyn, ekki er ég að draga það í efa.

En þetta er nú frekar sagt hér til fróðleiks um útgáfu brbl., sem ég fyrir mitt leyti tel ekki óeðlilega heimild, þó að ég fallist á og leggi á það áherslu að við útgáfu brbl. þarf að gæta þess vandlega að grundvallarákvæði, eða það sem liggur til grundvallar í stjórnarskrá, sé ekki brotið. T.d. lít ég svo á að tryggt þurfi að vera að nægur meiri hluti sé á Alþingi og ríkisstj. sannfæri sig um það. Að vísu eru um það nokkuð skiptar skoðanir hvort þetta sé nauðsynlegt. En ég tel persónulega að ríkisstj. beri siðferðisleg skylda til að ganga út frá slíku. Og við útgáfu þeirra brbl. sem núv. ríkisstj. hefur sett var dyggilega frá þessu gengið og gengið úr skugga um að svo væri.

Það er líka athyglisvert að eftir því sem ég fæ séð hefur Alþingi aldrei verið kvatt saman beinlínis til þess að afgreiða brbl. Ég finn þess hvergi nokkurs staðar dæmi. Og ekki sé ég þess heldur nokkurs staðar dæmi frá upphafi að Alþingi hafi verið kvatt saman til þess að kjósa embættismenn þingsins. Vitanlega hefur þó oft staðið svipað á og nú. Það má t.d. geta þess að um kosningu forseta Sþ. hefur ekki skapast nein ákveðin regla. T.d. gegndi Jón Sigurðsson samtímis störfum forseta Sþ. og Nd. 1875. Og það hefur oft komið fyrir að fyrrv. forseti hefur ekki átt sæti á þingi eftir alþingiskosningar og samt gegnt því starfi áfram og þá má kannske spyrja hvort það sé eitthvað eðlilegra en að ráðh., sem þó á sæti á þingi, gegni áfram slíku starfi.

Árið 1956 hætti Jörundur Brynjólfsson þingmennsku. Hann hafði verið forseti Sþ. og gegndi því áfram. Emil Jónsson var kjörinn forseti Sþ. um haustið. Sama er að segja um Birgi Finnsson. Hann sat ekki á þingi eftir kosningarnar 1971. Eysteinn Jónsson var kjörinn um haustið. Eysteinn hætti síðan í kosningunum 1974 og Gylfi Þ. Gíslason var kjörinn, en ekki fyrr en á aukaþingi hátíðahaldanna á Þingvöllum, og Eysteinn gegndi störfum forseta þangað til, en sat ekki á þingi. Árið 1974 hætti Ásgeir Bjarnason þingmennsku um vorið, en Gils Guðmundsson var ekki kjörinn forseti fyrr en um haustið. Sama á að sjálfsögðu við um formenn nefnda sem hafa starfað á milli þinga. Þing hefur ekki verið kvatt saman til þess að kjósa þá embættismenn.

En þó mér þætti rétt að gefa þetta yfirlit þá tek ég undir það með hv. þm. að nauðsynlegt er að skoða þessi ákvæði öll — og til þess var, eins og ég sagði í upphafi, stjskrn. skipuð. Ég vænti þess að hún ljúki fljótlega störfum og hið háa Alþingi fái tækifæri til að ræða um þessi atriði.