19.03.1984
Efri deild: 66. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3880 í B-deild Alþingistíðinda. (3300)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég er búinn að sitja í báðum deildum í allan dag og hlusta á hvern þm. eftir annan tala um að lánsfjárlögin, sem hér liggja frammi, séu marklaus, en enginn hefur málefnalega tætt þau í sundur sem marklaus. Það hefur verið bent á ýmsa punkta sem þm. eru ósammála um, en ekki hefur verið rökstutt að þau séu marklaus nema þá á því sviði sem snertir húsnæðismál. Á því sviði hefur komið fram á tveimur fundum með forustumönnum lífeyrissjóða að þeir telja að innlend fjáröflun geti staðist. Tvíspurðir um sama efni á seinni fundinum fullyrtu þeir að hún gæti staðist. En við erum samt sem áður með allan fyrirvara um það.

Hv. 8. landsk. þm. gat um að hér væri engin tilraun gerð til að minnka gatið á fjárl., þann vanda sem ég skýrði frá að væri fram undan ef ekkert væri að gert. Það er ekki orðinn vandi. Hér eru að því leyti til viðhöfð frábrugðin vinnubrögð að hingað til hefur fjmrh. skýrt frá því í lok ársins að staða ríkissjóðs væri svo og svo slæm (Gripið fram í: Eða svo og svo góð.) eða svo og svo góð. Ég hef ekki orðið var við það — ekki með neinum rétti — að sinni. En ég skal koma að því á eftir.

Við erum að benda á þann vanda sem kann að vera fram undan. Nú getur allt breyst, ef aflabrögð verða betri eða meiri en við gerðum ráð fyrir. Það getur vel verið að fólk fái rífandi vinnu ef veiðist vel, fólk versli mikið og óbeinar tekjur komi inn í miklu meiri mæli en við áttum von á. Það er ekki útilokað.

Enn fremur hefur hv. 8. landsk. þm. misskilið dálítið skatta sem lagðir eru á vegna kjarabóta sem nú hefur um samist. Það var upplýst að það er áætlað að sá kjarasamningur sem BSRB er nýbúinn að gera við ríkið kosti ríkið um 220–240 millj., en það er reiknað með því að aukin velta skili til baka ca. 200 millj. Þannig gæti verið um 20 millj. mismunur þarna, sem væri þá ríkinu í óhag. En ég vona að ekki komi til þess að við fyllum allt þetta mikla gat, sem talað er um, enda hefur það aldrei komið til greina, með nýjum sköttum.

Ríkissjóður hefur ekki ótakmarkað frjálsar hendur um val á aðferðum til að ná í tekjur til að standa undir þeim kostnaði sem á honum hvílir og öllum þeim útgjöldum sem Alþingi hefur skyldað ríkisstj. til að standa undir með lögum. Það eru skattar, það er niðurskurður, það eru innlendar eða erlendar lántökur. Þetta eru leiðirnar. Við munum að sjálfsögðu reyna að skera niður eins og hægt er. M. a. er skerðingarákvæði í frv. sem við erum að ræða, sem margir þm. hafa dæmt ansi hart í umr. í dag. En þetta eru leiðirnar. Og ef ekki er hægt að ná samkomulagi um neinar af þessum leiðum, hvað vilja þm. þá gera? Þeir eru sjálfir búnir að hlaða þannig kostnaðarliðum á ríkissjóð að peningar eru ekki lengur til fyrir útgjöldunum sem Alþingi hefur samt samþykkt að ríkissjóður skuli standa undir án þess að hafa tekjur til þess. Þá er ekki annað eftir en fjáröflunarleiðirnar sem ég gat um.

Hv. 4. þm. Vesturl. sagði að 18 greinar segðu að ekki skuli staðið við lög. Það er einmitt vegna þess sem ég var að segja. Lögin eru það íþyngjandi að Alþingi sér ekki ríkissjóði fyrir þeim tekjum sem þarf til að standa undir þeim. Þess vegna komu skerðingarákvæði.

Það er rétt, sem hv. 11. þm. Reykv. segir, að stefna þessarar ríkisstj. er að mörgu leyti svipuð og fyrri ríkisstjórna og fjármagninu er beint í sama farveg. Þetta er alveg rétt. Það er ekki hægt að sveifla einum sprota og segja: Nú förum við í allt aðra átt. Það þarf miklu lengri aðlögunartíma til. En hitt er annað mál að það er dregið úr. Í sumum tilfellum þar sem það á við. Það er einmitt verið að framkvæma pennastrikið. Það má segja að skerðingarákvæðin séu pennastrik. Pennastrikið var ekkert annað en skerðingarákvæði. Skerða skal rétt þeirra sem hafa tekið of mikið af þeim sem afla verðmæta fyrir þjóðina, takast á við innlenda vandann. Það er ekkert um annað að ræða en að vinna sig út úr þessum farvegi á löngum tíma.

Hv. 8. þm. Reykv. minntist á Kristnisjóð. Það er rétt að hann tekur stökk á milli umr. úr 2.5 millj. í 3.6, en það er þó skerðing á því sem honum ber skv. lögum. Þjóðkirkjan færði rök að því að hún kæmist ekki af með minna. Hún á tilkall til hærri upphæðar en hér segir. Við ákváðum samt að fara ekki hærra en í 3.6 millj. Biskup heldur að hann komist af með þessa upphæð með því að fara mjög gætilega í þann kostnað sem hefðbundinn er á herðum kirkjunnar. En þetta er skv. lögum eins og margt annað.

Hv. 8. þm. Reykv. talar um Flugleiðir. Ég er honum alveg sammála á sama hátt og ég er sammála hv. 3. þm. Norðurl. v. um að það er ansi erfitt að þurfa að standa undir þessum útlátum, má segja, eða tekjumissi frá Keflavíkurflugvelli vegna Flugleiða. Þó að Ísland sé ekki stærra en 20 sinnum stærra en Flugleiðir, þá er ljóst öllum sem eitthvað þekkja til erlendis, að Ísland, þetta litla þjóðfélag, hefur skyldur og kvaðir, sem á okkar herðum hvíla, sem eru fyllilega sambærilegar og í sumum tilfellum miklu, miklu erfiðari og dýrari en mörgum sinnum stærri þjóðfélög bera. Við skulum bara hugsa um hina löngu strandlengju hjá okkur, sem er óvíða annars staðar, — óvíða ef ferðast er um Evrópu t. d. og hvergi, sem ég man eftir, í svo litlu samfélagi sem við höfum. Við höfum höfuðborgarskyldu og höfuðborgarskyldan er afskaplega lík hvar sem er. Hún er hér langt, langt umfram það sem hún er annars staðar vegna þess að höfuðborgin hér er miðpunktur þjóðfélagsins og þjóðlífsins í aðdrætti og á margan annan hátt. Hlutfallslega er höfuðborgarskylda okkar meiri og þjóðfélag okkar mörgum sinnum dýrara í rekstri en stærri þjóðfélög. Ég er ekki að tala þar um höfðatölu. Það er því ekki lítill vandi að reka þjóðfélag eins og hið íslenska og land eins og Ísland á.tekjum sem aðeins 200 þús. manns eða kannske ekki helmingurinn af því vinna fyrir. Ef frá eru dregin börn og gamalmenni er það ekki svo ýkjastór hópur. Ég segi ca. 100 þús., en held að það nái því ekki. Ég var einhvern tíma með tölur sem eru þó nokkuð lægri en 100 þús. — En þetta er nú staðan hjá okkur.

Ég tek líka undir með hv. 8. þm. Reykv. að það væri æskilegt að gera hér kerfisbreytingar, en ég held að við séum ekki með það sama í huga þegar við tölum um kerfisbreytingar.

Virðulegur 3. þm. Norðurl. v. talar um gatið í fjárl. Þá er ekki verið að tala um þann vanda sem búið er að semja um og tilheyrir kannske liðinni tíð. Við erum að tala um ca. 2000 millj., sem eru um 10% af gjaldahlið fjárl. Það þýðir þá að ef ég hefði sem fjmrh. gert nákvæmlega sama og fjmrh. hingað til og ekki gefið upp neina vöntun, neitt fyrirsjáanlegt gat, hefði ég gefið út aukafjárveitingar. Aukafjárveitingar við fjárlögin 1983, sem voru gerð í 42% verðbólgu, en verðbólgan var við yfirtöku núv. ríkisstj. að nálgast 100%, fóru upp í 25% af fjárlögum. Við erum að tala um vanda, sem er fyrirsjáanlegur ef við gerum ekki neitt upp og aukafjárveitingar sem svara til 10% af fjárl. Sá vandi er því vel undir helmingi af því sem var afgreitt bak við tjöldin af einum þm., þ. e. fjmrh., á s. l. ári. Það er það sem ég er að reyna að koma í veg fyrir, en ég er farinn að efast um að slíkar upplýsingar, sem ég gef sem fjmrh., borgi sig að gefa. Ég er farinn að halda að ég hafi fallið í þá gryfju að reyna að vera hreinskilinn við þm., upplýsa þá vel, og hafi gert rangt. Þess vegna hefði ég bara átt að sitja með þá aukafjárveitingavinnu sem hingað til hefur verið unnin. Þá hefði enginn talað meira um fjárlög og enginn gert svona harðar aths. við lánsfjárlögin, eins og fram hefur komið.

Nú spyr hv. 3. þm. Norðurl. v., eftir harða ádeilu á væntanlegar styrkveitingar til Flugleiða, hvort ég sem fjmrh. muni nota heimildina. Vill fyrrv. fjmrh. virkilega fá svar við þessu? Úr því að spurt er ætla ég að leyfa mér að lesa grg. sem ég bað um frá gjaldadeild. Ég vildi helst komast hjá því að þurfa að nota þessa heimild. En heimildina verður m. a. að nota við niðurfellinguna á lendingargjöldunum vegna þess að það tengist niðurfellingu af lendingargjöldum í Luxemborg að við fellum niður af Norður-Atlantshafsflugi Flugleiða lendingargjöldin hér líka. Í þessu tilfelli, — ég veit ekki hvort það er í fyrsta sinn eða ekki, ég held nú samt að það sé í fyrsta sinn, — gerir ríkisstjórn Lúxemborgar, eða Grand Duchy of Luxembourg eins og það heitir, kröfu til þess að lendingargjöld verði líka felld niður, sem er ekki stór upphæð, af Cargolux á vesturleið. Hér eru bréf, sem ég get lánað hv. 3. þm. Norðurl. v., sem staðfesta það, þannig að þetta tengist saman. Lendingargjöldin og lántökurnar sem áttu sér stað sem nú eru að falla á ríkisábyrgðasjóð og ríkissjóð þar með, eru skv. samningi sem er undirritaður af allt öðrum en mér. Hv. 3. þm. Norðurl. v. vill kannske upplýsa sjálfur hver gerði þann samning. En grg. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í fjárlögum fyrir árið 1982 er heimild í 6. gr. sem veitir fjmrh. heimild til sjálfskuldarábyrgðar til handa Flugleiðum sem nemur 1.6 milljörðum Bandaríkjadala. Enn fremur segir við uppgjör lánsins:

„Lendingargjöld, leigugjöld vegna aðstöðu á Keflavíkurflugvelli svo og tekju- og eignarskatt, launaskatt og önnur gjöld ber fétaginu að greiða á réttum gjalddögum, en þann hluta þeirra gjalda sem rekja má til Norður-Atlantshafsflugs félagsins fær félagið endurgreiddan við skuldauppgjör.“

Þá segir enn fremur að í fjárlagafrv. fyrir árið 1983 skuli tillaga gerð um hlutdeild ríkissjóðs í uppgjöri þessa láns með hliðsjón af rekstrarafkomu fyrirtækisins á ofangreindri flugleið umrætt tímabil, að teknu tilliti til þeirrar endurgreiðslu sem um ræðir í 2. mgr. og miðað við þær tekjur sem telja má að ríkissjóður hafi haft undanfarin ár af flugi á umræddri flugleið. Ákvæði þessi eru tvíþætt. Annars vegar skulu Flugleiðir — ég undirstrika — „skulu Flugleiðir fá öll gjöld tengd nefndu flugi frádregin frá lántöku og hins vegar ef rekstrarafkoma er neikvæð skal hafa hliðsjón af því við uppgjör lánsins“ þ. e. ef rekstrarafkoma er neikvæð skal hafa það til hliðsjónar við uppgjör lánsins.

„Hjálagt er bréf frá Ríkisendurskoðun, dags. 7. 11. 1983, þar sem segir að tap félagsins á umræddu tímabili nemi 4.5 millj. Bandaríkjadala af starfsemi félagsins á Norður-Atlantshafsflugleið.

Miðað við framansagt er ljóst að þau skilyrði, sem kveðið er á um í heimildagrein um að ríkissjóður taki á sig umrætt lán að fjárhæð 1.6 millj. Bandaríkjadala vegna rekstrartímabils 1. okt. 1981 til 30. sept. 1982, eru fyrir hendi og ætti því að gjaldfæra lánin, miðað við framkvæmd þessa máls árið 1982, sem framlag ríkissjóðs á árinu 1983. Í fjárl. 1983 var gert ráð fyrir framtagi að fjárhæð 33 millj. kr., en greiðsla nam 47 millj. kr. og hefur ríkissjóður greitt þá fjárhæð.

Í fjárlögum 1983 er samsvarandi heimildagrein fyrir lántöku að fjárhæð 1.9 millj. Bandaríkjadala vegna rekstrartímabils 1. okt. 1982 til 30. sept. 1983. Lán þetta fellur í gjalddaga á árinu 1984 í þrennu lagi, 1. mars, 1. júní og 1. sept. Má ætla að greiðsluþörfin sé um 82 millj. kr.

Í fjárl. á árinu 1984 er ekki gert ráð fyrir neinum fjármunum til að mæta þessum greiðslum. Haft var samband við Flugleiðir hf. og þær upplýstu að ekki lægi fyrir endanlegt rekstraruppgjör fyrir árið 1983 fyrr en í apríl-maí n. k., en fram kom að talið er að rekstrarhalli mundi verða á því ári. Þá upplýstu þeir enn fremur að þeir mundu ekki geta borgað af lánum og því er ljóst að til greiðslu kæmi úr ríkissjóði nú 1. mars vegna þessa máls. Við áritun framangreinds skuldabréfs hefur viðkomandi fjmrh. notað heimild í 6. gr. fjárlaga með þeim ákvæðum, sem þar um getur og árituð eru á skuldabréfið, og því ljóst að ef þau skilyrði séu fyrir hendi um afkomu o. fl. er þetta varðar verður ríkissjóður að standa skil á greiðslu vegna þessarar sjálfskuldarábyrgðar.“ Ég hef ekki frjálsar hendur til að ákveða þetta sjálfur. Það er búið að ganga frá þessu. Ég er með skuldabréf í höndunum sem segir til um hvernig á að afgreiða þessi mál. (Gripið fram í: Þetta er allt annað mál.) Þetta er ekkert allt annað mál. Ég hóf lesturinn með því að lesa um niðurfellingu á lendingargjöldunum og síðan kemur meira sem fellur á skv. skuldabréfi sem þegar er skuldbindandi fyrir ríkissjóð og er að falla á þremur gjalddögum. Þetta er einn hluti af því gati sem er á ríkissjóði. Ég hef því ekki farið eftir bráðabirgðauppgjörinu sem ríkisendurskoðandi hefur þegar gefið umsögn um, heldur hef ég tekið þá ákvörðun að bíða þangað til aðalfundur Flugleiða hefur farið fram, en hann mun fara fram, ef ég man rétt, 29. þ. m. Þá hljóta reikningar að liggja frammi og mun þá Ríkisendurskoðun að sjálfsögðu fara yfir þá reikninga og sjá hvort hægt er að komast hjá því að fullnægja þeim ákvæðum, sem segir frá í nefndu skuldabréfi, sem fyrrv. fjmrh. undirritaði.