20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3888 í B-deild Alþingistíðinda. (3307)

224. mál, ráðstöfun gegnismunar

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. 12. þm. Reykv. fyrir það frumkvæði sem hann hefur haft að því að afla þeirra upplýsinga sem hér liggja nú fyrir og hæstv. sjútvrh. fyrir svarið. Ég kvaddi mér hljóðs til að taka undir þá hugmynd sem fram kom í máli hv. þm. Péturs Sigurðssonar varðandi ráðstöfun á vöxtum af gengismunarfé. Ég tel að mjög æskilegt væri að sú till., sem hann gerði grein fyrir munnlega áðan, kæmi fram í þinginu hið allra fyrsta þannig að það þing sem nú situr geti fjallað um málið og afgreitt það.

Þá finnst mér einnig rétt í þessu sambandi að benda á að verulegur vandi steðjar að lífeyrissjóðum sjómanna. Sá vandi stafar af því að þar er um að ræða mjög mismunandi reglur eftir að ákvörðun var tekin um 60 ára lífeyrisrétt sjómanna með tilteknum skilyrðum. Þetta hefur komið þannig út að sjómenn fá lífeyri við 60 ára aldur í Lífeyrissjóði sjómanna og þeir fá þetta líka hjá Tryggingastofnun ríkisins, þ. e. almannatryggingakerfinu, en í mörgum almennum lífeyrissjóðum ná sjómenn ekki þessum rétti. Gera verður ráðstafanir til að samræma þennan rétt svo að sjómenn eigi þennan rétt alls staðar, sama rétt, og koma til móts við sjómenn í þessu efni. Eðlilegt er að gengismunarfé sé hagnýtt í þessu skyni eins og iðulega hefur átt sér stað.

Skv. því svari, sem hér liggur fyrir frá hæstv. sjútvrh., er gert ráð fyrir því að leitað verði samráðs við Farmanna- og fiskimannasamband Íslands og Sjómannasamband Íslands um reglur um endanlega skiptingu þess fjár sem fara á til lífeyrissjóða sjómanna. Í þeim efnum er nauðsynlegt að hafa ekki einasta auga á Lífeyrissjóði sjómanna. Það er ekki nóg að hafa auga á Lífeyrissjóði sjómanna og lífeyrissjóði yfirmanna. Það verður líka að hafa við þá ákvörðun auga á réttindum sjómanna í hinum almennu lífeyrissjóðum sem eru innan Sambands almennra lífeyrissjóða. Ég vil fara þess á leit við hæstv. sjútvrh. að hann taki það mál fyrir. Það hefur áður verið gert í stjórnkerfinu þannig að viss vinna liggur fyrir í því efni. Mér finnst óeðlilegt að ganga fram hjá þeim sjómönnum sem eru utan við Lífeyrissjóð sjómanna þegar verið er að ráðstafa fé í þessu skyni.