20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3889 í B-deild Alþingistíðinda. (3309)

224. mál, ráðstöfun gegnismunar

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég tek undir þakkir til hv. 12. þm. Reykv. fyrir að hreyfa þessu máli hér. Hér er vissulega um mikilvægt mál að ræða og það hlýtur að leiða hugann að því hvað hægt er að gera til varnar við því sem verið hefur að gerast á sjónum á undanförnum mánuðum.

Ég vil einnig taka undir það sem hv. 3. þm. Reykv. sagði um lífeyrissjóðina sem snúa að sjómönnum. Það er brýn nauðsyn á að gerðar verði ráðstafanir til að jafna aðstöðu sjómanna innan hvaða lífeyrissjóðs sem þeir eru. En muni ég rétt held ég að það hafi verið í tíð hv. 3. þm. Reykv. sem ráðh. sem vilyrði ef ekki loforð var gefið í sjómannasamningum um að séð skyldi verða fyrir fjármagni af hálfu ríkissjóðs til þess að allir sjómenn í hvaða lífeyrissjóði sem væri gætu notið sömu réttinda og þeir sem eru nú og njóta réttinda í Lífeyrissjóði sjómanna. Þannig er komin full ástæða til þess, þó hv. 3. þm. Reykv. hafi ekki auðnast að koma til framkvæmda því vilyrði eða loforði, að óska sérstaklega eftir því að núverandi valdhafar bæti um betur. Þetta er svo knýjandi mál fyrir sjómannastéttina sem heild að Alþingi getur ekki látið það afskiptalaust.