20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3890 í B-deild Alþingistíðinda. (3311)

224. mál, ráðstöfun gegnismunar

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég skal upplýsa að á ríkisstjórnarfundi í morgun var samþykkt að tillögu frá mér sem samgrh. að skipuð verði nefnd níu alþm. sem fjallaði um öryggismál sjómanna og sú nefnd hefði náið samstarf við Siglingamálastofnun, rannsóknarnefnd sjóslysa, Slysavarnafélag Íslands og hagsmunasamtök sjómanna og útvegsmanna. Í nefndinni yrðu fimm fulltrúar frá stjórnarflokkunum og fjórir fulltrúar frá stjórnarandstöðu. Ég er þegar búinn að.tala við formenn tveggja þingflokka stjórnarandstöðu um að tilnefna eins fljótt og hægt er í þessa nefnd, en hafði ekki unnist tími til að tala við tvo flokka þegar þessi fyrirspurn kom skyndilega.

Ég held að um þetta mál geti myndast breið samstaða og góð samstaða því að það er full þörf á því, eins og fram hefur komið bæði hér á Alþingi og víðar, að gera verulegt átak í öryggismálum sjómanna. Við skulum játa að rannsóknarnefnd sjóslysa hefur svo að segja frá byrjun haft ákaflega lítið svigrúm hvað fjárhag varðar til sinnar starfsemi. En nauðsyn er á að gera verulega bragarbót í þessum efnum. Ég hygg að nú ætti að nást sú samstaða sem nauðsynleg er, þannig að allir þingflokkar eigi fulltrúa í nefndinni.

Eðlilegt er að stjórnarflokkar eigi fimm fulltrúa af níu. Það mun vafalaust fara þannig að annar stjórnarflokkurinn, miðað við þingstyrk, mundi gefa eftir einn fulltrúa til þess að allir stjórnarandstöðuflokkar fái fulltrúa í nefndinni. Eftir þessu verður óskað. En ég á eftir að tala við tvo af stjórnarandstöðuflokkunum af því mér vannst ekki tími til þess fyrr.