20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3891 í B-deild Alþingistíðinda. (3313)

224. mál, ráðstöfun gegnismunar

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Út af umr. um lífeyrissjóðsmál sjómanna tel ég óþarft að vera að leita uppi sökudólga í þeim efnum. Það er öllum ljóst, sem til þekkja, að lífeyrissjóðamál sjómanna hafa ekki verið í góðu horfi, en þeir greiða af kauptryggingu nánar sagt til lífeyrissjóðs og fá þar af leiðandi tiltölulega lítil réttindi. Það var ákveðið á sínum tíma að þeir fengju lífeyri við 60 ára aldur. Lífeyrissjóðir sjómanna hafa átt í miklum vandræðum með að standa við þá skuldbindingu eða a. m. k. liggur fyrir að verða mun mjög erfitt að standa við hana í framtíðinni. M. a. þess vegna hefur verið ákveðið, þegar gengismunarfé hefur verið ráðstafað, að verja fjárhæðum til lífeyrissjóða sjómanna. Þess vegna var sú ákvörðun tekin við gengisbreytinguna á s. l. vori á sama hátt og það hafði verið við fyrri gengisbreytingar.

Hins vegar er rétt að upplýsa að til lífeyrissjóða sjómanna renna árlega um 130–150 millj. Ef hins vegar væri greitt á árinu 1984 af öllum aflahlut sjómanna væri það upphæð á bilinu 230–250 millj. Ef greitt væri í lífeyrissjóð af öllum þeim tekjum sem sjómenn hafa mundu þar koma til 100 millj. til viðbótar. Eins og vitað er er samkvæmt öllum reglum venjan sú að 4% séu greidd af launþegum og 6% af vinnuveitendum.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um að þetta er eitt af þeim stóru málum sem sjómenn berjast fyrir og hafa barist fyrir. Þessi mál verða áfram á borðinu eins og þau hafa verið á undanförnum árum.

Ég vildi aðeins upplýsa þetta, en tel ekki til mikils sóma að vera að kenna fyrrv. ráðh. eða núv. ráðh. um þá stöðu.