20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3893 í B-deild Alþingistíðinda. (3319)

224. mál, ráðstöfun gegnismunar

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég tel rétt að upplýsa, fyrst deilt er um höfundarrétt að nefndarskipun vegna öryggismála sjómanna, að fyrir nokkrum vikum óskaði Slysavarnafélagið eftir sérstöku samstarfi við þingflokkana um þessi mál. Þingflokkarnir tilnefndu menn til samráðs og þessi nefnd kom síðan saman á fund með fulltrúum Slysavarnafélagsins. Hin hörmulegu sjóslys, sem átt hafa sér stað í vetur, voru rædd þar og ýmis mál sem lúta að slysavörnum á sjó. Ég tel hins vegar að það sé af hinu góða að sérstök nefnd sé skipuð sem hafi kannske sterkari stöðu en þessi samráðsnefnd. Hins vegar tel ég óþarfa að þar sé hugsað um meiri hl. eða minni hl. stjórnar eða stjórnarandstöðu. Ég tel — og þá hef ég í huga þann fund sem ég sat þar síðast — að menn eigi að ræða þessi hörmulegu mál án flokkaágreinings. Ég vænti þess að þessi nefnd komi til með að starfa vel en ég vil enn ítreka það að óþarfi er fyrir þm. að koma alveg af fjöllum varðandi þessi mál vegna þess að þeir hafa átt þátt í því núna fyrir nokkrum vikum síðan að tilnefna fulltrúa í slíka samráðsnefnd, nefnd sem hafði hugsað sér að koma oft saman og ræða þessi mál og gera þar góða hluti.