20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3899 í B-deild Alþingistíðinda. (3324)

237. mál, sullaveiki

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Jónsdóttir):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans. Ég er ekki sammála honum í öllum atriðum. Ég tel að hætta á útbreiðslu veikinnar hljóti að vera fyrir hendi ef fleiri þúsund jafnvel tvö, þrjú, fjögur þúsund, hundar eru hér á Íslandi sem ekkert eftirlit er haft með hreinsun á. Þó að þessir hundar séu að jafnaði í þéttbýli gæti nú einhver ferðast með þá austur á land og hleypt þeim þar lausum í sveitinni. Það er ekki loku fyrir það skotið. Ég vonast því til þess að hæstv. ráðh. íhugi þetta mál frekar og a. m. k. hafi samband við borgarstjórn Reykjavíkur og ýti á eftir að hún sinni þessum málefnum og ef það væri víðar á landinu, sérstaklega þá í þéttbýli, sem málum væri háttað eins og í Reykjavík.