20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3902 í B-deild Alþingistíðinda. (3329)

427. mál, endurgreiðsla söluskatts af snjómokstri

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég hef þó nokkuð hugleitt þessi mál frá þeim tíma að sú fsp. var borin fram sem hæstv. fjmrh. vitnaði hér í áðan. Og mér þykir að það gæti of mikils vantrausts á bókhald sveitarfélaga. Ef ekki er hægt að greiða til baka söluskattinn af snjómokstrinum, þá er það yfirlýsing um það að bókhald sveitarfélaganna sé ekki marktækt. Það er mjög alvarlegt mál að mínu viti.

Ég vil minna á það, að skattheimta almennt í landinu byggist á því að menn taki mark á bókhaldi fyrirtækja og einstaklinga. Hvað hefur gerst sem verðskuldar það að sveitarfélögin séu ekki marktæk með sitt bókhald hvað þetta snertir? Auðvitað er hægt að svindla. Það er hárrétt hjá hæstv. fjmrh. Það er hægt. En ég vil undirstrika það, að það væri nú orðið alvarlegt mál ef Vegagerðin stæði að svindlinu á annan veginn og sveifarfélögin á hinn. Þá væri nú komið dálítið illa fyrir embættismönnum vorrar þjóðar. Ég vænti þess að ráðh. ræði þessi mál við sína undirmenn, og hann er nú þekktur fyrir það að geta tekið af skarið, og ég vænti þess að hann endurskoði afstöðu rn. í þessu máli og mark verði tekið á bókhaldi sveitarfélaga.