20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3902 í B-deild Alþingistíðinda. (3330)

427. mál, endurgreiðsla söluskatts af snjómokstri

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Sem svar við 1. lið fsp. hv. 2. þm. Austurl. vil ég taka fram að ákveðið er að verja 13 millj. kr. til undirbúningsframkvæmda. Skipting milli einstakra verkþátta hefur ekki verið ákveðin, en meiri hluta fjármagnsins mun verða varið til vegagerðar í Fljótsdal að virkjunarsvæði.

Svar við 2. fsp., hvenær talið sé að framkvæmdir þurfi að hefjast: Árið 1986. Að sjálfsögðu ræðst upphaf framkvæmda af markaðsástæðum, en gert er ráð fyrir fimm ára byggingartíma virkjunarinnar.

Sem svar við 3. lið fsp., um hvenær ráðgert sé að virkjunin taki til starfa og við hvaða markaðsþróun er miðað í því sambandi, skal fram tekið að menn reikna með árinu 1991. Sem dæmi um markaðsástæður má nefna að samið verði um 50% stækkun álversins í Straumsvík, þar sem rekstur yrði hafinn 1988, og byggingu kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði. Stækkun álversins ein út af fyrir sig er ærin markaðsástæða, að ekki sé minnst á samninga um byggingu nýs álvers við Eyjafjörð. Engu verður að vísu slegið föstu nú í þessu sambandi, en nauðsynlegt er að gefa sér líklegustu forsendurnar.