20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3907 í B-deild Alþingistíðinda. (3337)

215. mál, kafarar Landhelgisgæslunnar

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. S. l. haust, á fundi í svokallaðri landhelgisgæslunefnd, en það er nefnd sem þingið hefur kjörið til að endurskoða lög um Landhelgisgæsluna og gera tillögur um búnað hennar í framtíðinni, vakti ég máls á því að þá hefði vitnast um, og reyndar hafði ég vakið athygli á því utan dagskrár í Sþ., að látist hefði maður af slysförum um borð í síldveiðiskipi sem var að veiðum norður í Íshafi. Skipið hafði fengið nót sína í skrúfuna og enga aðstoð var að fá frá Landhelgisgæslunni eða öðrum aðilum, sem gátu komið þar til aðstoðar, nema þá að draga skipið eins og það var á sig komið í skjól eða til næstu hafnar en á því voru miklir örðugleikar vegna veðurhams.

Í þessari umr. utan dagskrá benti ég á að fyrr á árum hefði það verið fyrir forgöngu sjómannasamtaka og reyndar útgerðarmanna líka og með samþykki þáv. ríkisstj. að landhelgisgæsluskipin voru þannig búin að þau gátu haft um borð bæði lækna og kafara og fylgdu nótaveiðiflotanum, bæði á fjarlæg mið og flotanum erfið á vissum árstímum þegar veður voru vond. Ég vakti athygli á þessu síðar í nefndinni sem ég vitnaði til í byrjun ræðu minnar, og spurðist fyrir um það þar og bað um skýringu á því frá Landhelgisgæslunni af hverju ekki væri starfandi kafarar um borð í varðskipunum lengur. Ég spurðist líka fyrir um hvernig stæði á því að skip Landhelgisgæslunnar gætu ekki fylgt flotanum lengur eftir, en væru í stað þess bundin inni á fjörðum og fengju skammtaða olíu til að fara frá Reykjavík og á þann fjörð sem þau væru látin liggja á og hefðu kannske takmarkaða olíu til þess að komast til heimahafnar og bjarga sjálfum sér og hefðu þess vegna ekki möguleika til að grípa inn í ef skip sem væru á miðum lentu í háska.

Ég fékk enga skýringu á þessu, þótt mér hafi borist ýmis plögg frá starfsmönnum Landhelgisgæslunnar, og bæði til sjós og lands, sem hafa nokkuð rakið aðdragandann, sem sé þá launadeilu sem í sjálfu sér virðist afskaplega smávægileg hafandi í huga að möguleikar eru á að spara í mannahaldi á öðrum sviðum, sem þó virðist ekki hafa verið ástundað að koma á.

Nú fyrir skömmu kom þetta enn betur í ljós. Sjómenn og reyndar fleiri aðila í þjóðfélaginu undraði að þegar hörmulegt slys varð hér uppi í Hvalfirði og fjórir menn af áhöfn eins verslunarskipsins, skips sem var að koma til landsins, fórust milli skips og bryggju, að öllum líkindum sína fyrstu nótt hér við land, og þegar leitað var aðstoðar til að leita líka þessara manna, þá komu kafarar Landhelgisgæslunnar næstum því sem sjálfboðaliðar til starfa þarna, en voru þar ekki sem starfsmenn hennar.

Í lögum um Landhelgisgæslu Íslands segir í 1. gr., í upptalningu um störf gæslunnar, að m. a. sem hún á að leitast við að veita er hjálp við björgun manna úr sjávarháska eða á landi og enn fremur að aðstoða eða bjarga bátum eða skipum sem kunna að vera strönduð eða eiga í erfiðleikum og að sjálfsögðu að hafa löggæslu á hafinu o. s. frv., en hlutverk þessarar stofnunar er ákaflega víðtækt og þýðingarmikið.

Nú hef ég leyft mér að leggja fram spurningu til hæstv. dómsmrh., sem er æðsti maður Landhelgisgæslunnar, þótt svo virðist ekki vera þegar á döfinni eru launadeilur. Þá er eins og oft og tíðum komi inn sem fulltrúar hins opinbera einhverjir strákar sem eiga að taka upp samninga við þessa menn um einstök viðkvæm atriði, hættulega vinnu. Hún hefur kannske verið framkvæmd fyrr á árum á þann veg að meira hefur verið af hugsjónum og fórnarlund, án þess að full skynsemi hafi verið þar á bak við, einfaldlega vegna þess að í stað þess að einn maður væri að verki hafa átt að vera þar tveir, eins og þekkist alls staðar í nágrannalöndum okkar undir skyldum skilyrðum.

Ég hef leyft mér að bera fram þessa fsp., herra forseti, til dómsmrh. og hún hljóðar svo:

„1. Hafa kafarar starfað á skipum Landhelgisgæslunnar á liðnum árum:

a) ráðnir sem kafarar?

b) ráðnir til annarra starfa samhliða?

2. Eru kafarar nú að störfum á skipum Landhelgisgæslunnar?

3. Ef svo er ekki, af hverju?“

Ég hef ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri að sinni, en að sjálfsögðu væri hægt að tala lengi um þetta. Ég óska svara við þessum spurningum frá hæstv. ráðh.