20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3912 í B-deild Alþingistíðinda. (3343)

436. mál, snjóflóðavarnir

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram við hæstv. félmrh. svohljóðandi fsp. um snjóflóðavarnir:

1. Hvaða ástæður voru til þess að nefnd, sem hafa átti forustu um að efla varnir gegn snjóflóðum í samræmi við ályktun Alþingis frá 2. apríl 1981, var lögð niður 4. júlí s. 1.?

2. Hvað var gert varðandi snjóflóðavarnir á vegum félmrn. á tímabilinu frá 4. júlí 1983 til 22. febr. 1984 þegar snjóflóð féllu á Ólafsvík?

3. Hvað er fyrirhugað af stjórnvöldum um framhald þessara mála?

þáltill., sem vitnað er til í 1. lið þessarar fsp., var samþykkt á Alþingi þann 2. apríl 1981, en hún varðaði heildarlöggjöf, skipulag og varnir gegn hættu af snjóflóðum og skriðuföllum. 1. flm. þessarar till. var Helgi Seljan en meðflm. þm. úr öðrum þáverandi þingflokkum.

Nokkur hreyfing komst á athuganir vegna snjóflóðahættu eftir snjóflóðin og tjónið mikla vegna snjóflóða í Neskaupstað í des. 1974. Fór mikil vinna fram á vegum sérstakrar nefndar sem bæjarstjórn Neskaupstaðar skipaði í framhaldi af þessum atburði, en nefndin skilaði áliti í okt. 1976 varðandi snjóflóðaathuganir og mögulegar varnir gegn snjóflóðum þar í kaupstað.

Hér á Alþingi var vorið 1975 samþykkt þáltill. frá Tómasi Árnasyni og fleirum um rannsóknir á snjóflóðum og skriðuföllum.

Í febr. 1975 setti Rannsóknaráð ríkisins á fót nefnd til að gera tillögur um fyrirkomulag rannsókna á snjóflóðahættu, en hún skilaði tillögum í maí 1976 sem Rannsóknaráð gaf út í bæklingi í ágúst 1976 undir heitinu Skipulag snjóflóðarannsókna á Íslandi.

Þessar tillögur leiddu til þess nokkrum árum síðar, þ. e. 1978, að Veðurstofu Íslands var falið að fylgjast með og vara við snjóflóðahættu og hefur Veðurstofan unnið gott starf á því sviði og ráðið starfsmann til að sinna þessu verkefni.

Þáttill., sem ég vitnaði til frá 2. apríl 1981, hafði verið flutt á tveimur undanfarandi þingum, en hlaut loks samþykki. Hún er mjög efnismikil og leiðbeinandi um það verkefni sem þar er gert ráð fyrir. Henni var vísað til félmrn. sem hóf undirbúning að málinu m. a. í samráði við Rannsóknaráð ríkisins, en framkvæmdastjóri þess, Vilhjálmur Lúðvíksson, skilaði ábendingum til þáv. félmrh. 30. jan. 1983 um hvernig rétt væri að standa að verki varðandi skipulag og framkvæmd snjóflóðavarna. Gerði félmrh. Svavar Gestsson í framhaldi af því till. um málsmeðferð í ríkisstj. sem þar var samþykkt í febr. 1983.

Í samræmi við þá ríkisstjórnarsamþykkt skipaði Svavar Gestsson félmrh. nefnd þann 3. maí 1983 til að hafa forustu um að efla varnir gegn snjóflóðum í landinu. Í nefndina voru skipaðir skv. tilnefningu 8 menn, svo og formaður nefndarinnar, Magnús Hallgrímsson verkfræðingur sem sérhæft hefur sig í snjóflóðamálum, m. a. á námsferðum og námskeiðum erlendis. Í skipunarbréfi þessarar nefndar sagði m. a.:

„Hlutverk nefndarinnar er að samræma störf opinberra aðila í þeim tilgangi að koma svo sem unnt er í veg fyrir tjón og slys af völdum snjóflóða og skriðufalla. Nefndin skal í starfi sínu leita samráðs við sveitarfélög og aðra aðila sem hagsmuna eiga að gæta eða hlutverki að gegna í þessu efni. Nefndin skal einnig hafa forustu um framkvæmdir á þeim sviðum sem m. a. eru rakin í ályktun Alþingis um heildarlöggjöf, skipulag og varnir gegn hættu af snjóflóðum og skriðuföllum. Nefndin skal gera heildaráætlun um aðgerðir í þessu efni, svo og tillögur um tímamörk til framkvæmda og fjármögnun. Nefndin skili fyrstu yfirlitstillögu fyrir septemberlok 1983.“

Til undirbúnings að starfi nefndarinnar tók formaður hennar, Magnús Hallgrímsson, saman hugmyndir að umfangsmikilli vinnu á tímabilinu frá júní til september 1983, m. a. um að afmarkaðir verði þeir 15–20 þéttbýtisstaðir á landinu þar sem um mesta snjóflóðahættu er að ræða. Til starfa þessarar nefndar kom hins vegar ekki því að með bréfi þann 4. júní 1983 lagði Alexander Stefánsson hæstv. félmrh. nefndina niður með bréfi þar sem segir m. a.:

„Ráðuneytið hefur ákveðið að leysa nefnd þessa frá störfum þar sem ætlunin er að standa öðruvísi að lausn þessa verkefnis en gert var ráð fyrir með skipan umræddrar níu manna nefndar.“

Svo virðist sem sparnaðarsjónarmið hafi ráðið þeirri ákvörðun að leggja snjóflóðanefndina niður því að í sjónvarpsviðtali um líkt leyti tilgreindi hæstv. forsrh. það sérstaklega sem helsta dæmið um árangur af sparnaðarviðleitni ríkisstj. innan ráðuneytanna að ákveðið hafi verið að leggja snjóflóðanefnd félmrn. niður.

Síðan heyrðist ekkert af þessum málum á opinberum vettvangi að ég best veit fyrr en næsta högg af völdum snjóflóða reið yfir, að þessu sinni í Ólafsvík síðkveldis 22. febr. s. l. Þá fréttist af nefnd eða starfshópi sem hæstv. núv. félmrh. virðist hafa komið á fót í kyrrþey eftir að hafa lagt hina fyrri niður. Þar sem hér er um stórt mál að ræða þar sem margir eiga í hlut og miklir hagsmunir eru í húfi hef ég leyft mér að bera fram þessa fsp., sem ég kynnti hér í upphafi, til hæstv. félmrh.