20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3916 í B-deild Alþingistíðinda. (3345)

436. mál, snjóflóðavarnir

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir þær upplýsingar sem hann hefur hér veitt. Það kemur fram í hans máli að hluti af þeim verkefnum a. m. k. sem hinni fyrri snjóflóðavarnanefnd hafði verið ætlaður hefur verið tekinn upp skv. skipunarbréfi sem verkefni hjá nýrri nefnd, sem ekki lágu fyrir neinar upplýsingar um opinberlega. Hæstv. ráðh. greindi heldur ekki frá því og leiðrétti ekki þá staðhæfingu mína að ekkert hefði frést um þetta efni opinberlega eftir að hæstv. forsrh. greindi frá því á liðnu sumri sem sérstakri sparnaðarráðstöfun að leggja þessa nefnd fyrrv. ríkisstj. niður.

Nú er ekki ástæða til að deila um efni sem þetta, þar sem allir ættu að vera sammála um nauðsyn þess að hér verði haldið uppi nauðsynlegum viðvörunar- og varnaraðgerðum gegn þessum náttúruhamförum eftir því sem frekast er kostur. En hitt er vissulega ósmekklegt, að gera aths. við störf fyrrv. ríkisstj. um þetta efni og greina þá ekki frá því sem tekið hefur verið til bragðs af nýrri ríkisstj. Ég vil geta þess í þessu sambandi að það virðist vera feimnismál hjá núv. hæstv. ríkisstj. að greina opinberlega frá þeim nefndum sem sinna ýmsum verkefnum. Maður er svona að frétta af því á skotspónum. Mér finnst það óeðlilegt, þegar um opinberar nefndir er að ræða, að það liggi ekki fyrir þegar þær eru skipaðar svo að menn viti um þær og þeirra verkefni.

Skýringar hæstv. ráðh. á ástæðunum fyrir þessu ætla ég ekki að fjölyrða um hér, en þó gera aths. við það að hann taldi kostnaðinn, sem fyrirhugað var að þyrfti að leggja út í á s. l. sumri upp á 465 þús. kr., vera mikinn og óvíst að það hefði skilað árangri á þeim tíma. Ég held að hér sé mikill misskilningur á ferðinni. Hér var markað af með skilmerkilegum hætti verkefni og verkþættir, sem nauðsynlegt var að ráðast í og vel var hægt að sinna á þessum tíma, og það lá fyrir alveg sérstök ríkisstjórnarsamþykkt um skipun þessarar nefndar og þar með auðvitað trygging fyrir því að greitt yrði fyrir fjármögnun í þessu efni þannig að það átti ekki að vera fótakeflið.

Þá nefndi hæstv. ráðh. það að talið hefði verið að til óeðlilega margra erlendra aðila hefði átt að leita í þessu efni. Ég hafna þeirri skýringu þó að nefnt sé þarna Nordisk Geoteknisk Institut sem hefur sérþekkingu á þessum efnum. Það átti einmitt að styðjast við innlenda aðila, sérfróða aðila sem hafa verið frá því að snjóflóðin féllu í Neskaupstað að sérhæfa sig í þessum efnum. Vegna þessa verð ég að nefna það hér, sem mér kemur nokkuð einkennilega fyrir sjónir, af því að þetta er nefnt sérstaklega af hæstv. ráðh., að þessi nefnd hefur ekki leitað til tveggja sérfróðra manna um þessi efni, Íslendinga, Þórarins Magnússonar verkfræðings og Magnúsar Hallgrímssonar verkfræðings, sem báðir hafa lagt á sig mikið starf til að kynna sér snjóflóðamálefni á liðnum árum og voru skipaðir af fyrrv hæstv. félmrh. í hina fyrri nefnd. Ég spyr hæstv. félmrh.: Af hverju er gengið fram hjá þessum sérfróðu aðilum? Og hverjir eru það þá sem koma með þekkinguna í þeirra stað?

Svo vil ég benda á að það er vissulega brýn nauðsyn að hér verði gengið frá lögum um stjórnarfarslega ábyrgð í þessum efnum. Það má segja að snjóflóðavarnamálaefni heyri nú undir ein sex rn. og allir vita hversu stirt það er og erfitt að tengja málefni, sem eru svo dreifð í stjórnkerfinu, saman með eðlilegum hætti. Því ber að hraða sem frekast er kostur lagasetningu, heildarlagasetningu um þessi mál. Eitt hið brýnasta í þessum efnum er að kveðið verði á um hlutdeild ríkisins og ríkissjóðs eða Viðlagatryggingar í byggingu varnarvirkja gegn snjóflóðum, þar sem byggðasvæðum stafar sannanlega hætta af snjóflóðum, eins og er víða á landinu. Þarna eru engar reglur til staðar, hvað þá lög um hlutdeild ríkissjóðs í slíkum varnarvirkjum. Tillögur um slík varnarvirki voru mótaðar af snjóflóðavarnanefnd Neskaupstaðar 1975–76 með aðstoð Nordisk Geoteknisk Institut og liggja fyrir, en það hefur að sjálfsögðu ekki verið unnt fyrir það bæjarfélag fremur en önnur að leggja út í byggingu svo dýrra mannvirkja án þess að ríkissjóður komi þar til með eðlilegum hætti. Erlendis, t. d. í Noregi, er kostnaðarhlutdeildin í sambandi við byggingu varnarvirkja gegn snjóflóðahættu á bilinu 70–90% að ég best veit. Það er slík regla og lagasetning um það sem hér þarf að koma til.

Hæstv. ráðh. nefndi þá fimm staði þar sem byggð gæti verið í hættu vegna snjóflóða og gat þess að síðan hefði Ólafsvík bæst við eftir að menn fengu þar reynsluna dýrkeyptu nú um daginn þó að sem betur fer kostaði hún ekki mannslíf. En ég held að það séu fleiri staðir þar sem svipað hagar til og nauðsynlegt er að vera á varðbergi. Og fyrir utan þetta sem ég hef nefnt um lagasetningu, þá er afar brýnt að fram fari greining á þessari hættu á öllum þéttbýlisstöðum, sem gætu verið í hættu vegna snjóflóða, og það verði tryggt í skipulagslögum og reglugerðum að ekki verði byggt á þeim svæðum, nema þá skv. alveg sérstöku sérfræðilegu mati og slíkar hömlur verði tengdar inn í tryggingu viðkomandi mannvirkja, því að ég tel að það sé ein tryggasta vörnin til þess að slíkar reglur verði haldnar.