20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3917 í B-deild Alþingistíðinda. (3346)

436. mál, snjóflóðavarnir

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. 5. þm. Austurl. um þörf á því að sinna þessum málum og hér liggi sem fyrst fyrir frv. að heildarlagasetningu varðandi þessi mikilvægu mál. Að því er nú unnið eins og fram kom í skýrslu nefndarinnar og ég get bætt því við að mér er kunnugt um að það starf gengur mjög vel að mínu mati.

Í sambandi við þá athugasemd sem hann gerði um fyrrv. nefnd sem ekki hafði hafið störf og eins um þá tvo sérfræðinga sem hann nefndi áðan, vil ég geta þess að að allra mati sem ég hef átt tal við eru þeir menn sem eiga sæti í þessari nefnd, Hafliði Helgi Jónsson veðurfræðingur, Helgi Björnsson jöklafræðingur og Helgi Hallgrímsson yfirverkfræðingur, mjög hæfir menn á þessu sviði og ég tel alveg fyllstu ástæðu til að ætla að þeir standi undir því hlutverki sem þeim er falið í þessari nefnd.

Hins vegar vil ég taka fram að gefnu tilefni að ég hef átt viðræður við Magnús Hallgrímsson t. d. og ég hef óskað eftir því að hann yrði til taks til aðstoðar við nefndina í þessum málum þegar eftir væri leitað og það verður áreiðanlega gert í þessu máli.

Ég vil einnig segja það í sambandi við skipulagsmálin að skipulagsstjóri skrifaði eftir ábendingu frá ráðh. öllum sveitarfélögum landsins um þetta mál í sambandi við hættusvæði og varnarorð á því sviði. Ég vil einnig geta þess að núna eru á borði í félmrn. endurskoðuð skipulagslög sem fela í sér vissa áherslupunkta sem þessi mál varða. Að sjálfsögðu tek ég undir það með hv. þm. að margir fleiri staðir í landinu þyrftu að vera með í þessari athugun. Að því er unnið og ég taldi ákaflega mikilvægt að Alþingi skyldi samþykkja rýmkun í gegnum fjárlög að því er varðar eftirgjöf á aðflutningsgjöldum og sölugjaldi í sambandi við ýmis tæki og efni sem hægt er að nota í varnaraðgerðir að margra mati og hefur þegar komið að góðum notum á nokkrum stöðum á landinu.

En ég legg sem sagt áherslu á að þetta er mál sem er mikilvægt og því verður fylgt eftir af eins miklu afli og mögulegt er. En ég tel að þessi skipan mála sé í nokkuð góðum farvegi og ég lýsi ánægju yfir því námskeiði sem er nýlokið um þessi mál og var sótt af mörgum aðilum þannig að áhugi manna almennt er mjög mikill fyrir að koma þessum málum í skynsamlegt horf.