20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3918 í B-deild Alþingistíðinda. (3348)

437. mál, undirbúningsframkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun

Fyrirspyrjandi (Sveinn Jónsson):

Herra forseti. Sem kunnugt er var með lögum um raforkuver nr. 60/1981 aflað lagaheimildar fyrir allt að 330 megawatta virkjun Jökulsár í Fljótsdal. Ári síðar eða þann 6. maí 1982 samþykkti Alþingi á grundvelli 2. gr. þessara laga þál. um virkjunarframkvæmdir og orkunýtingu. Þar segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Fljótsdalsvirkjun og síðar Sultartangavirkjun verði næstu meiri háttar vatnsaflsvirkjanir á eftir Blönduvirkjun. Eftir því sem orkuþörf gefur tilefni til skarist annars vegar Blönduvirkjun og Fljótsdalsvirkjun og hins vegar Fljótsdalsvirkjun og Sultartangavirkjun.“

Með samþykkt ofangreindra laga og þál. var gengið frá stærstu samfelldu framkvæmdaáformum um virkjanir hérlendis til þessa og í fyrsta sinn tekin ákvörðun um stórvirkjanir utan Suðurlands og samhliða unnið að undirbúningi vegna orkunýtingar á Norður- og Austurlandi.

Undanfari þessara samþykkta Alþingis var mikið átak í rannsóknum varðandi umræddar vatnsaflsvirkjanir, ekki síst vegna Fljótsdalsvirkjunar, og lausn á viðkvæmum hagsmunadeilum, einkum vegna Blönduvirkjunar. Á síðasta ári lauk að fullu verkkönnunarrannsóknum vegna Fljótsdalsvirkjunar, þannig að ekkert er talið því til fyrirstöðu að unnt sé að koma virkjuninni í gagnið um 1990, eftir því sem nauðsynlegt er talið miðað við markaðsþróun.

Á lánsfjáráætlun s. l. árs var heimild til að verja 25 millj. kr. til undirbúningsframkvæmda í þágu virkjunarinnar, m. a. til vegagerðar frá Egilsstöðum norðan Lagarfljóts og inn í Fljótsdal. Skv. ákvörðun núv. iðnrh. var hins vegar aðeins varið rúmum helmingi þeirrar upphæðar eða 13.6 millj. kr. í þessu skyni. Auk áframhaldandi styrkingar vegar í byggð að virkjunarsvæði í Fljótsdal og annars undirbúnings mun næst liggja fyrir undirbúningur útboðs vegna virkjunarframkvæmdanna og rannsóknir sem tengjast því útboði.

Framkvæmdatími eftir útboð hefur verið áætlaður fimm ár, þannig að miðað við það mætti taka virkjunina í gagnið haustið 1990, og þyrfti þá að halda vel áfram undirbúningi á þessu ári og því næsta.

Auk fyrirhugaðra framkvæmda við kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði hefur fátt verið meira rætt á Austurlandi en væntanlegar virkjunarframkvæmdir. Margar ályktanir hafa verið gerðar eystra um þau efni. Ég læt í því sambandi nægja að vitna til ályktunar síðasta aðalfundar Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi í ágúst s. l., en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Haldið verði fast við samþykkt Alþingis um næstu þrjár stórvirkjanir, þar sem Fljótsdalsvirkjun er sett næst á eftir virkjun Blöndu. Haldið verði áfram undirbúningsframkvæmdum við Fljótsdalsvirkjun svo sem lög og fjáröflun framast leyfa.“

Sami fundur ályktaði einnig um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði með áskorun um að sú könnun, sem nú fer fram á eignaraðild erlendra aðila, verði ekki látin tefja framgang þess máls.

Í frv. til lánsfjárlaga, sem nú er orðið að lögum, fyrir hið yfirstandandi ár er, að ég best veit, gert ráð fyrir 70 millj. kr. til virkjunarrannsókna annars staðar en við Blönduvirkjun. Sundurliðun er hins vegar engin. gefin. Til að fá fram viðhorf hæstv. iðnrh. og tillögur hans varðandi Fljótsdalsvirkjun hef ég leyft mér að leggja fram svohljóðandi fsp.:

„1. Hversu miklu fé er fyrirhugað að verja á árinu 1984 til áframhaldandi undirbúnings Fljótsdalsvirkjunar:

a) heildarfjárveiting,

b) til einstakra þátta,

c) vegna endurbyggingar þjóðvegar inn Fell og Fljótsdal að virkjunarsvæði?

2. Hvenær er talið að framkvæmdir þurfi að hefjast við virkjunina skv. útboði?

3. Hvenær er ráðgert að virkjunin taki til starfa og við hvaða markaðsþróun er miðað í því sambandi?“ Herra forseti. Ég vænti greinargóðra svara hæstv. ráðh. við þessari fsp.