20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3921 í B-deild Alþingistíðinda. (3351)

437. mál, undirbúningsframkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Vissulega mætti margt um þetta stóra mál ræða. Ég vil aðeins leyfa mér örfáar athugasemdir, enda leyfir tími ekki annað.

Hæstv. ráðh. kvað fyrirhugaða fjárveitingu til áframhaldandi undirbúnings Fljótsdalsvirkjunar vera 13 millj. kr., ef ég hef heyrt rétt. Þetta er ótrúlega lítil upphæð að mínu mati miðað við þörf og þá tímasetningu sem hann tilgreindi að menn héldu sig enn við, að virkjunin gæti komist í gagnið. Ég bendi í því sambandi á það álit verkfræðinga, sem undirbúið hafa virkjunina og flestar stórvirkjanir hér, Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen, sem m. a. kom fram í bréfi í fyrra til iðnrn. frá maí 1983, að sjö ára undirbúningstíma þyrfti frá því að verkhönnun lýkur og þar til að virkjun tekur til starfa, þar af tveggja ára vinna vegna gerðar útboðsgagna.

Sú óverulega fjárveiting sem hér er um að ræða og að meiri hluta á að verja til vegagerðar að því er hæstv. ráðh. sagði nægir ekki til neinnar vinnu svo heitið geti til undirbúnings útboðs sem tekur tvö ár. Ef hæstv. ráðh. ætlar að láta hefja framkvæmdir og halda þeim möguleika opnum 1986 sé ég ekki að það gangi upp miðað við þessa fjárveitingu sem er mjög óveruleg, svo ekki sé dýpra tekið í árinni.

Á síðasta ári var gert ráð fyrir því að til virkjunarrannsókna vegna Fljótsdalsvirkjunar yrði varið 25 millj. kr. Hæstv. núv. iðnrh. heimilaði að ráðstafa helmingi þeirrar upphæðar til annarra verka þannig að á árinu sem leið komu aðeins til virkjunarinnar og vegagerðar 13–14 millj. kr. Hér er sem sagt um mun rýrari fjárveitingu að ræða sem ætlað er til þessa verks á þessu ári.

Varðandi markaðsþróunina kom það fram hér eins og á fundi Félags ísl. iðnrekenda í morgun að hæstv. ráðh. gerir ráð fyrir því að stækkun álversins í Straumsvík geti orðið að veruleika 1988. Hann nefnir kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði í sömu andránni. Hvaðan ætlar hæstv. ráðh. að fá raforku til beggja þessara framkvæmda?

Hann gat þess einnig á fundi Félags ísl. iðnrekenda í morgun að ef samningar yrðu gerðir um stækkun álversins í Straumsvík, væntanlega á fyrri hluta þessa árs eða um mitt ár, gæti orðið þörf á því að hraða framkvæmdum við Blönduvirkjun. (Forseti hringir.) Við vorum í gærkvöld að samþykkja lánsfjárlög hér í Nd. Það virðist ekki vera ýkja merkilegur pappír eftir þessum ummælum að dæma, ef hæstv. ráðh. gerir því skóna nú að hann muni beita sér fyrir að hert verði á framkvæmdum við Blöndu á þessu ári. Ég hef út af fyrir sig ekki á móti því að það mál verði athugað með tilliti til þess að kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði verði reist skv. þeim lögum sem sett hafa verið um verksmiðjuna.