20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3925 í B-deild Alþingistíðinda. (3356)

437. mál, undirbúningsframkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það væri nú ástæða til þess að þm. Austurl., og einnig þótt landskjörnir séu, leituðust við að snúa bökum saman um það stóra hagsmunamál sem hér til umræðu frekar en að vera að bera menn sökum í þeim efnum. Ég vil mælast til þess að þessir hv. þingbræður mínir reyni að vera á verði gegn þeim sterku öflum sem í þá toga til að fá hnekkt þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið hér á Alþingi. En það vekur svolítinn óhug þegar menn ganga fram með þeim hætti sem hér er gert í umr. og ég ætla sannarlega að vona að það viti ekki á neitt illt.

Hæstv. iðnrh. kom hér og sagði, til réttlætingar þeirri óverulegu fjárhæð og allsendis ófullnægjandi sem gert er ráð fyrir að verja til áframhaldandi undirbúnings Fljótsdalsvirkjunar á þessu ári, að ég hefði ekki gert aths. við hugmyndir og tillögur frá verkfræðistofu í fyrra um þetta efni, og gaf í skyn að ég hefði haft erindi frá verkfræðistofunni í heila viku áður en ég fór úr rn. Ég verð að upplýsa hæstv. ráðh. og líka hv. 11. landsk. þm. um að á lánsfjáráætlun í fyrra var liðurinn Virkjunarrannsóknir til orðinn vegna undirbúnings Fljótsdalsvirkjunar einvörðungu. Hann var myndaður árið 1979 til að geta hraðað undirbúningi virkjana utan Suðurlands og það var aðeins Fljótsdalsvirkjun sem kom inn í þessa mynd. Landsvirkjun hafði sitt fjármagn til rannsókna á sínu svæði, Blanda hafði sitt rannsóknafé og undirbúningsfé sér merkt. Ekki var um annað en Fljótsdalsvirkjun að ræða undir þessum lið enda ritaði rn. 6. apríl 1983, varðandi lánsfé til rannsókna við Fljótsdalsvirkjun, svohljóðandi bréf til Landsvirkjunar:

„Skv. lánsfjárlögum 1983 er fyrirhugað að verja 25 millj. kr. til virkjunarrannsókna. Till. iðnrn. um þennan lið miðast við að haldið verði áfram rannsóknum og undirbúningi vegna Fljótsdalsvirkjunar á árinu 1983 miðað við að virkjunin gæti hafið rekstur árið 1990. Með hliðsjón af að Landsvirkjun hefur yfirtekið rannsóknir, hönnun og undirbúningsframkvæmdir Fljótsdalsvirkjunar felur rn. Landsvirkjun að taka fé þetta að láni til rannsókna og áframhaldandi undirbúnings vegna virkjunarinnar, þar með talin vegagerð. Þess er óskað að Landsvirkjun geri rn. grein fyrir hvernig áformað verði að nýta féð áður en framkvæmdir hefjast.“

Þetta bréf er frá 6. apríl 1983. Þegar ég fór úr rn. voru engar till. komnar í mínar hendur um skiptingu. En þann 16. maí tekur Landsvirkjun á móti erindi frá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen um nýtingu til rannsókna vegna Fljótsdalsvirkjunar, þar sem tekið er sérstaklega fram að ekki sé þar um að ræða till. vegna lífríkisrannsókna. Kostnaður við samninga, ræktun o. fl. ásamt endurbótum á vegakerfi í byggð er ekki meðtalið, segir í þessu bréfi. Þannig að það kom til viðbótar þeirri upphæð sem hér var áformuð. En hæstv. núv. iðnrh. ráðstafaði um helmingi þessarar fjárveitingar í annað á liðnu sumri. Þetta liggur fyrir. Málflutning eins og hér er uppi hafður ættu menn ekki að stunda á Alþingi þegar allt annað er skjalfest.