20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3928 í B-deild Alþingistíðinda. (3360)

440. mál, endurnýjun bræðslukera

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. spyr hvort ég muni beita mér fyrir því að endurnýjun bræðslukera álversins fari fram innanlands. Þessari spurningu svara ég játandi. Ég veitti þessu málefni athygli í fjölmiðlum eigi alls fyrir löngu. Ég hafði þá samband við forstjóra ÍSALs, Ragnar Halldórsson. Kom fram áhugi hjá honum að beina viðskiptum þessum til innlendra aðila, en gera má ráð fyrir miklum verkefnum á þessu sviði á næstu árum, að sögn Ragnars.

Á síðasta ári smíðaði Stálvík fimm ker af gömlu gerðinni fyrir álverið. Dróst afhending nokkuð vegna seinkunar á efni erlendis frá. Af þeirri ástæðu og vegna nýrrar tækni og enn fremur vegna verðmunar, þótt lítill væri, ákvað ÍSAL að taka finnsku tilboði í smíði 16 kera af 20 af nýrri gerð, en ákvað einnig að semja við Stálvík um smíði fjögurra kera. Er mjög mikilvægt að Stálvík skyldi fá færi á smíði keranna fjögurra og öðlast þannig þekkingu á verkefninu.

Ég bind vonir við að verkefni í Straumsvík verði fyrir fleiri stórar smiðjur í framtíðinni og tel enda ástæðu til að taka slík mál upp í samningaviðræðum við eigendur ÍSALs, sem halda munu áfram á næstunni, og mun beita mér fyrir því. Að sjálfsögðu þurfa innlendu aðilarnir að reynast samkeppnisfærir í verði og gæðum, en fyrirtæki við bæjardyr kaupanda ætti að öðru jöfnu að hafa gott forskot.

Ég vil svo í sambandi við aukaspurningu, sem hv. þm. beindi til mín, taka það fram að ég hef raunar aldrei sjálfur verið þeirrar skoðunar að skynsamlegt væri að leggja nýsmíði fiskiskipa alveg af. Ég þykist sjá með fullri vissu að innan tveggja, þriggja ára a. m. k. muni taka við mikil endurnýjunarþörf í fiskveiðiflota Íslendinga. Að slaka þann veg á klónni hjá fyrirtækjum, sem þá, þegar þar að kemur, verða ekki í neinum færum um að sinna endurnýjunarþörfinni, væri ákaflega mikil óforsjálni nú. Að missa til annarra verka frá skipasmíðastöðvunum þjálfað starfsfólk mundi ekki verða bætt — slíkt óhapp — nema á mjög löngum tíma. Þess vegna er þetta skammsýni og komin til af því að menn mæta hver upp í annan að fiskstofnar séu að hverfa af Íslandsmiðum, sem er auðvitað líka enn ein vitleysan búin til af fræðingum sem ekkert vita meir en ég um þessi mál, svo ég taki nú ekki stórt upp í mig.

Af þessari afstöðu til þessara mála helgaðist það að tekin var ákvörðun um á síðasta ári að leyfa ekki frekari nýsmíðar og að menn hafa nú beint sjónum sínum að því að halda uppi atvinnu í skipasmíðastöðvunum, þar sem eitt þúsund manns, hvorki meira né minna, njóta atvinnu, með því að beina verkefnum stöðvanna að viðhaldi flotans. Við vitum um geysistór verkefni á því sviði, til að mynda hjá 10 japönskum togurum af minni gerð, sem liggur fyrir á þessu og næsta ári stór klössun hjá, og margt, margt annað mætti telja og tína til. Þörfin er geysimikil. Fjármagnið skortir að vísu, en það hefur verið í undirbúningi hjá ríkisstj. að leita, þó síðar verði, til Alþingis um fjárútvegun í þessu skyni.

Þetta er það sem ég vil segja um skipasmíðina sjálfa. Við megum ekki missa niður neitt sem við höfum yfir að búa í skipasmíðastöðvum okkar. Við þurfum miklu frekar að bæta og auka við það.