20.03.1984
Sameinað þing: 68. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3949 í B-deild Alþingistíðinda. (3367)

238. mál, hvalveiðar við Ísland

Flm. (Jón Sveinsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um framhald hvalveiða við Ísland, sem er 238. mál Sþ. á þskj. 418. Till. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að feta ríkisstj. að sækja nú þegar um undanþágu frá samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins um takmörkun hvalveiða, sem gildi á að taka árið 1986, með það fyrir augum að hvalveiðar haldi áfram við Ísland undir vísindalegu eftirliti og með skynsamlegri stjórn.“

Forsaga þessa máls er sú, að á 34. ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í júlí 1982 var samþykkt algert bann við hvalveiðum tengdum iðnaði, commercial whaling, frá og með árinu 1986. Er samþykkt ráðsins á þessa leið í lauslegri þýðingu, með leyfi forseta:

„Aflakvóti vegna hvalveiða tengdum iðnaði af öllum stofnum fyrir strandvertíðina 1986 og úthafsvertíðina 1985, 1986 og þar eftir skal ekki vera neinn. Þetta ákvæði verður í endurskoðun byggðri á vísindalegum tillögum og mun ráðið fyrir árið 1990 í síðasta lagi láta gera allsherjarkönnun á áhrifum þessarar ákvörðunar á hvalastofnana og meta breytingar af þessu ákvæði og setningu annarra veiðikvóta.“

Með ályktun Alþingis þann 2. febr. 1983 var samþykkt að mótmæla ekki af Íslands hálfu þessari samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins um bann eða takmörkun hvalveiða, sem kunngerð hafði verið með bréfi til ríkisstj., dags. 2. sept. 1982, og taka skal gildi frá og með árinu 1986. Með þeirri afstöðu hlítum við banni Alþjóðahvalveiðiráðsins.

Á 35. ársþingi Alþjóðahvalveiðiráðsins s. l. sumar kom fram að fjórar þjóðir höfðu lagt fram mótmæli við samþykkt ráðsins um algert bann við hvatveiðum tengdum iðnaði, en þær eru Noregur, Sovétríkin, Japan og Perú. Jafnframt viðurkenndi Alþjóðahvalveiðiráðið nauðsyn þess að komist yrði sem fyrst að samkomulagi um könnun og mat á einstökum hvalastofnum sem nú eru stundaðar veiðar á.

Till. sú sem ég mæli hér fyrir gerir ráð fyrir að sótt verði nú þegar af Íslands hálfu um undanþágu frá samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins um takmörkun eða bann við hvalveiðum, sem gildi á að taka árið 1986. Útiloka þær samþykktir, sem Alþjóðahvalveiðiráðið hefur þegar gert, alls ekki slíka undanþágu, enda beinlínis tekið fram í samþykktinni frá 1982 að endurskoða megi ákvæðin um bann í síðasta lagi árið 1990, eins og það er orðað.

Skv. upplýsingum Hafrannsóknastofnunar er veiði stórhvala frá landstöðvum hér við land skipt í þrjú tímabit.

Fyrsta tímabilið, tímabil norsku veiðanna, stóð frá 1883 til 1915, er Alþingi setti bann við öllum veiðum vegna greinilegrar ofnýtingar stofnanna. Fram undir aldamót var steypireyður mest veidd, en strax upp úr aldamótum var langreyðurin langmikilvægasta tegundin fyrir hérlendar landstöðvar. Á þessu tímabili var allnokkuð veitt af hnúfubak, en aðeins óverulegt magn sandreyðar og búrhvals. Fjöldi hvalbáta við veiðar komst í 32, en veiðarnar voru stundaðar frá nokkrum landstöðvum á Vestfjörðum og Austfjörðum.

Veiðar hófust á ný frá landstöðinni í Tálknafirði, sem starfrækt var árin 1935 til 1939, og voru flest þrír bátar við veiðarnar. Alls veiddust 469 hvalir þessi ár.

Þriðja tímabilið hófst með starfsemi hvalstöðvar Hvals hf. árið 1948. Með því tímabili hefjast veiðar á sandreyði í allnokkrum mæli og búrhveli. Steypireyður var veidd í aðeins litlum mæli fram til ársins 1960, er hún var friðuð, og aðeins sex hnúfubakar veiddust árin 1948–1954, er tegundin var alfriðuð í Norður-Atlantshafi. Langreyður hefur verið langmikilvægasta tegundin þetta tímabil, en afurðir af hverri langreyði eru mun meiri en af bæði sandreyði og búrhval.

Samkvæmt samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins á ársfundi þess 1981 gekk í gildi árið 1982 allsherjarbann við búrhvalaveiðum í Norður-Atlantshafi.

Þá er rétt að geta veiða norskra móðurskipa hér við land árin 1929–1934 og árið 1937, en a. m. k. 560 langreyðar voru veiddar frá þessum skipum á hefðbundinni hvalaslóð vestur af Íslandi. Einungis var því um algjöra friðun hvalastofnanna hér við land að ræða árin 1915–1929 og árin 1940–1947.

Hrefnuveiðar hér við land hófust árið 1914, en voru í litlum mæli allt fram yfir 1960 eða undir 100 dýrum á ári. Upp frá því jókst áhugi á veiðunum og er meðalársveiði Íslendinga talin hafa verið 105 hvalir árin 1966–1970, 137 hvalir árin 1971–1975 og um 200 hvalir 1976–1980. Að meðtalinni veiði Norðmanna hér við land á liðnum áratugum er veiðin s. l. 20 ár í kringum 200 dýr á ári. Aðalveiðisvæðin eru Norðanlands og vestan.

Um hvalveiðar hafa á seinni árum verið mjög skiptar skoðanir manna á meðal. Hafa umhverfisverndarsinnar haft sig mjög í frammi um vernd hvalastofna og algjöra stöðvun veiða. Hefur barátta þeirra í þessum efnum borið greinilegan árangur sem m. a. kemur fram í samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins frá 1982. Á öðrum sviðum hefur barátta þeirra og borið árangur, svo sem við verndun og takmörkun veiða á selum. Hafa afleiðingar þessa bitnað á þjóðum sem að mismiklu leyti hafa átt afkomu sína undir þessum veiðum. Að mínu mati hafa sjónarmið umhverfisverndarmanna þó oft fremur mótast af tilfinningum en markvissum rökum og vísindalegum athugunum.

Helstu röksemdir þeirra sem lagst hafa gegn áframhaldandi hvalveiðum eru í fyrsta lagi þær, að hvalastofnar séu í útrýmingarhættu um heim allan vegna ofveiði og algjör stöðvun veiða geti ein komið í veg fyrir þá hættu. Er fullyrt í þessu efni að núverandi aðferðir við mat á hvalastofnum séu ekki nægilega góðar til þess að þær réttlæti veiðar. Því sé allsherjarbann eini kosturinn til að komast hjá útrýmingu.

Víst er að oft hefur fyrr á tíð verið um grófa ofveiði á hvölum að ræða hérlendis og erlendis. Með auknu eftirliti og rannsóknum á seinni árum hefur hætta á slíku þó minnkað verulega. Má segja að aðeins einn hvalastofn, sem veiddur er í dag, sé í hættu vegna núverandi veiða, en það er Norðurhvalurinn svokallaði, sem Alaska-Eskimóar veiða. Tegundin er þar með einnig í hættu, því þau 2–3000 dýr, sem stofninn er talinn vera, eru nær allt sem til er af í heiminum af þessari tegund. Eru ekki líkur á að Alþjóðahvalveiðiráðið banni þessar veiðar Alaska-Eskimóa þar sem þær flokkast undir frumbyggjaveiðar, svo furðulegt sem það nú er.

Í öðru lagi er því haldið fram að hvalveiðar séu stundaðar á ómannúðlegan hátt með seindeyðandi veiðitækjum sem séu dýrunum kvalafull. Veiðarnar séu m. ö. o. stundaðar af siðleysi. Það sæmir því í þriðja lagi ekki þjóðum sem telja sig siðaðar og á háu menningarstigi að stunda veiðar af þessu tagi.

Í fjórða og síðasta lagi er því haldið blákalt fram að framhald hvatveiða muni geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir fiskmarkaði okkar í Bandaríkjunum því að umhverfisverndarsinnar séu mjög öflugir þar og neyti allra tiltækra ráða til að ná sér niðri á þeim þjóðum sem stunda hvalveiðar. Hefur þessi hræðslukenning hrifið einkar vel hérlendis, einkum á alþm., og í raun orðið meginröksemdin gegn hvalveiðum.

Helstu rök fyrir áframhaldandi hvalveiðum hér við land eru aftur á móti þau í fyrsta lagi, að vísindalegar rannsóknir gefi ekki tilefni til að ætla að hvalastofnar við Ísland séu í hættu vegna ofveiði, þó að þeir kunni að vera það annars staðar í heiminum, sem enginn dómur skal þó á lagður. Rannsóknir bendi fremur til þess að veiðarnar hafi á seinni árum verið stundaðar af fyrirhyggju og skynsemi hérlendis. Haldi veiðar áfram ætti því ekki að vera hætta á að breyting verði á þessu. — Á undanförnum árum hefur Hafrannsóknastofnun annast rannsóknir nýttra hvalastofna hér við land. Þessar rannsóknir hafa m. a. verið gerðar í samvinnu við breska og norska rannsóknaraðila, en eru nú nær eingöngu í höndum stofnunarinnar. Komist hefur á samstarf stofnunarinnar og nokkurra stofnana Háskóla Íslands um afmörkuð verkefni. Rannsóknirnar hafa einkum verið þríþættar: rannsóknir á sambandi sóknar og veiða, rannsóknir á almennri líffræði viðkomandi hvalategunda, einkum er varðar aldur, vöxt og viðkomu þeirra, og merking og talning hvala hér við land. Þá hefur stofnunin á undanförnum árum átt fulltrúa í vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins. Gefa rannsóknir á þeim tegundum, sem eru nú veiddar hér við land, langreyði, sem er langafurðamesta tegundin, sandreyði og hrefnu, síður en svo til kynna að um ofveiði sé að ræða.

Í öðru lagi hefur verið bent á hugsanlega röskun á lífkerfi hafsins vaxi hvalstofnar óheftir. Mjög er hins vegar erfitt, að sögn fræðimanna, að meta áhrif hvalveiða á lífríki sjávar í heild. Ekki leikur vafi á að ofveiði á hvalastofnum hefur raskað mjög lífkerfinu í hafinu, en hvalir eru stór blóðheit dýr sem þurfa mikla og næringarríka fæðu á degi hverjum. Sem dæmi má nefna að eftir að skíðishvölum fækkaði í suðurhöfum nýttu selstofnar og fuglar á sama fæðuþrepi tækifærið og hefur fjölgað gífurlega. Hrefna, sem ekki var veidd að nokkru ráði í Suður-Íshafi fyrr en um 1970, er einnig talin hafa notfært sér aukið fæðuframboð á sama hátt. Telja ýmsir að stöðvun hrefnuveiða á suðurhveli kunni að valda því að stórhvatastofnarnir nái sér seint eða aldrei á strik, en auk þess að éta sömu fæðu og þeir fjölgar hrefnu mun hraðar en stórhvelum ef skilyrði eru hagstæð. Er vert að gefa gaum hugsanlegum áhrifum hvalsins á afkomu annarra nytjastofna því ljóst er að bæði tann- og skíðishvalir hér við land éta verulegt magn átu og fiskmetis, svo sem síld, loðnu, þorsk, karfa o. fl. Þótt samband hvala og annarra dýra í lífkerfi hafsins sé lítt rannsakað er ekki ólíklegt, að mati fræðimanna, að til aukinna árekstra þeirra og annarra dýra komi, þar á meðal nytjastofna okkar, ef stofnarnir fá að vaxa óheftir.

Í þriðja lagi er þess að geta að þjóðir sem hætt hafa þátttöku sinni í hvalveiðum í dag hafa mjög dregið úr öllum rannsóknum sínum á hvalastofnum. Þar á móti kemur að aukinn áhugi almennings á hvölum hefur ýtt undir rannsóknir á ýmsum sviðum hvalafræðinnar. Með aukinni tækni verður í framtíðinni hægt að rannsaka hvali án þess að veiðar fari fram, ef nægilega miklu fjármagni er veitt til slíkra rannsókna. Hætt er þó við að erfitt mundi að afla stuðnings til slíkra rannsókna ef hagnýtur tilgangur þeirra er ekki fyrir hendi. Í dag er því nauðsynlegt að veiða hvalina til að afla mikilvægrar vitneskju um aldur og viðkomuhraða þeirra, sem m. a. er lögð til grundvallar við útreikning á veiðiþoli og afkastagetu stofnanna.

Í fjórða lagi hefur fjöldi manns atvinnu af hvalveiðum hérlendis þann tíma sem hvalveiðar standa, sem aðeins er hluta úr ári. Í fyrirtæki Hvals hf. starfa til að mynda um það bil 200 manns meðan á hvalvertíð stendur, 45 manns á bátum og 155 manns í hvalstöðinni í Hvalfirði og fyrirtæki Hvals hf. í Hafnarfirði. Dregið hefur þó verið úr veiðum og voru á síðasta ári aðeins gerðir út þrír bátar í stað fjögurra árið áður, enda kvóti okkar minnkaður úr 194 dýrum árið 1982 í 167 dýr árið 1983. Þessu til viðbótar stunda 9–10 smábátar hrefnuveiðar frá Vestfjörðum og Norðurlandi. Hrefnuveiðikvóti Íslendinga er nú 182 hrefnur á ári, en var 192 hrefnur árið 1983.

Í fimmta lagi er á það að líta að hlutur hvalafurða í útflutningstekjum þjóðarinnar er allnokkuð, nam tæpum 1.6% árið 1983. Er illt að verða af slíkum tekjum fyrir þjóðarbúið með minnkandi atvinnu, sjósókn og aflamagni að öðru leyti.

Sem flm. þeirrar till., sem hér um ræðir, hlýt ég að taka undir öll þau rök, sem nefnd eru hér að framan, með framhaldi hvalveiða.

Um rökin gegn hvalveiðum er þess fyrst að geta að rannsóknir hérlendis gefa ekki tilefni til að ætla að nýttir hvalastofnar séu ofveiddir, eins og áður er rakið. Enginn talsmaður rányrkju vil ég þó vera í þessu efni og tel jafnbrýnt og aðrir umhverfisverndarsinnar, sem unnið hafa gott starf á ýmsum sviðum, að við höldum vöku okkar í þessum efnum, eflum vísindalegar rannsóknir og eftirlit með veiðum. Stjórnun veiða og ákvörðun veiðikvóta taki síðan við af slíku eftirlits- og rannsóknastarfi. Sjálfsagt, rétt og eðlilegt er hins vegar að reyna að stunda veiðarnar þannig, að mannúðar sé gætt svo sem framast er kostur. Um tilfinningarök, sem höfða til mannúðar og menningar þjóða, er hins vegar ekki mikið að segja.

Það sjónarmið að áhrif hvalveiða á fiskmarkaði okkar í Bandaríkjunum séu neikvæð er vert að kanna nánar. Norðmenn, sem veiða hvali og mótmæltu hvalveiðibanninu á sínum tíma, eru í svipaðri stöðu og við sem fiskútflytjendur, heldur lakari þó væntanlega vegna mótmæla sinna. Því er hins vegar haldið fram af þeirra hálfu að mótmælin hafi ekki haft eins mikil áhrif á fiskmarkaði þeirra, einkum Bandaríkjamarkað, og menn óttuðust í fyrstu. Hef ég fengið staðfestingu þessa í nýlegri blaðagrein í Norges Handels- og sjöfartstidende frá 2. febr. 1984, bls. 12, þar sem rætt er við framkvæmdastjóra norska fisksölufyrirtækisins í New Bedford í Bandaríkjunum. Í fyrirsögn greinarinnar segir að fjölmargar aðgerðir Greenpeace hafi ekki einu sinni náð að stöðva vaxandi framgang norskra fiskafurða á Bandaríkjamarkaði. Reiknar fyrirtækið með að selja fyrir 75 millj. dollara á 12 mánaða tímabili frá miðju ári 1983 til miðsumars 1984, en fyrirtækið ræður yfir um það bil 10% af freðfiskmarkaðnum innan stórkaupendageirans skv. upplýsingum framkvæmdastjórans. Þá hefur innflutningur á laxi frá Noregi til Bandaríkjanna sjaldan eða aldrei verið meiri en á síðasta ári og allt útlit er fyrir og jafnvel búist við aukningu á sölu á laxi á Bandaríkjamarkaði. Framkvæmdastjórinn viðurkennir þó að aðgerðir Greenpeace hafi minnkað söluna lítils háttar fyrst, en nýir hópar kaupenda hafi bætt það upp. Ef marka má þessa umsögn virðist hræðsla Íslendinga við neikvæð áhrif hvalveiða á fiskmarkaði okkar í Bandaríkjunum ekki á rökum reist.

Á Alþingi hefur yfirleitt verið reynt að stuðla að því að atvinnustarfsemi sem fyrir er eflist og styrkist, en ekki að úr henni sé dregið og hún jafnvel af lögð. Er samþykkt Alþingis frá 2. febr. 1983 sérstök að þessu leyti, því komi til algjörs hvalveiðibanns leggst niður starfsemi fyrirtækis sem rekið hefur verið með ágætum frá 1948. Hefur fyrirtækið m. a. stigið afgerandi skref til eflingar rannsókna á hvölum hér við land, aðstoðað við gagnaöflun í því efni og tekið þátt í fjármögnun stórhvalamerkinga. Verður Alþingi að svara því hvað skuli koma í stað þessarar atvinnustarfsemi, sé það ásetningur þess að atvinnugreinin verði lögð niður. Stefnumörkun er hér öll ákaflega óskýr.

Í landhelgisdeilu Íslendinga tókst ágætlega að halda uppi sjónarmiðum og skoðunum okkar á erlendum vettvangi. Í jafnmiklu hagsmunamáli og hér um ræðir ætti slíkt jafnframt að vera hægt, enda vísindalegar rannsóknir Íslendingum hliðhollari en mörgum öðrum þjóðum. Hálf er það aumt hlutskipti að sitja með hendur í skauti í máli sem þessu og fylgjast með viðræðum og fundahöldum Norðmanna og annarra þjóða úr fjarlægð.

Hér þurfa íslensk stjórnvöld að taka ótvíræðari afstöðu og marka sér ákveðna stefnu. Er því ekki að treysta að Norðmenn semji fyrir okkur jafnhliða eða okkur takist að feta í fótspor þeirra síðar. Yfir vinnubrögðum af þessu tagi af okkar hálfu er ekki mikil reisn og vottur sjálfstæði þjóðar.

Till. sú, sem hér er flutt um að sækja nú þegar um undanþágu frá samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins um takmörkun eða bann við hvatveiðum, er fyrsta skrefið á nýrri braut. Með þetta að leiðarljósi og þar sem bannið á að taka gildi árið 1986, sem ekki er svo langt undan, og ljóst er að allar undanþágur þarf að sækja með viðræðum og fundahöldum, sem óhjákvæmilega taka sinn tíma, er till. þessi flutt nú. Er með henni vænst að tekið verði á þessum málum nú þegar, enda miklir hagsmunir í húfi, ekki aðeins fyrir þá einstaklinga sem eiga atvinnu sína undir þessum veiðum, heldur einnig sveitarfélög þau sem hlut eiga að máli og síðast en ekki síst ríkissjóð vegna útflutningstekna.

Að endingu vil ég taka fram að ég hef haft undir höndum skýrslu vegna fyrirhugaðs banns við hvalveiðum, sem Jóhann Sigurjónsson líffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun og fulltrúi Íslands í vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins hefur samið. Hef ég notað ýmsar upplýsingar úr skýrslu hans í máli mínu. Kann ég Jóhanni bestu þakkir fyrir þær upplýsingar sem hann hefur látið mér í té sem fræðimaður á þessu sviði.

Í skýrslu Jóhanns segir að lokum m. a., með leyfi forseta: „Til þess að tryggja hæfilega nýtingu hvalastofna heims er mikilvægt að haga veiðum með tilliti til ástands hvers einstaks stofns. Allsherjarbann við hvatveiðum getur ekki skoðast sem vísindaleg nauðsyn, eins og nú er háttað veiðum í heiminum, þótt deila megi um réttmæti einstakra veiðikvóta. Þetta á við um veiðar Íslendinga jafnt sem flestra annarra þjóða heims. Þótt þörf sé á auknum hvalarannsóknum hér á landi virðist engan veginn vera vísindaleg réttlæting fyrir stöðvun veiðanna hér.“

Herra forseti. Ég legg til að till. verði vísað til hæstv. allshn.umr. þessari lokinni.