21.03.1984
Efri deild: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3963 í B-deild Alþingistíðinda. (3378)

42. mál, orkulög

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Það má vera að ég hafi lagt of þröngan skilning í orð hv. þm. Davíðs Aðalsteinssonar við 1. umr. þessa máls, og er raunar ekki viðfelldið að ræða þetta að honum fjarstöddum, en ég skildi hann á þann veg að hann væri að segja álit sitt á þessu frv. þar sem hann sagði orðrétt, með leyfi virðulegs forseta:

„Það var mitt álit sem formanns þessarar hv. nefndar,“ þ. e. á síðasta þingi, „að alls ekki væri þingmeirihluti fyrir því að ganga með þessum hætti á bak orða sinna, eins og þau höfðu verið sögð og lágu til grundvallar þeim samningi um nýja Landsvirkjun sem nú hefur verið lögfestur.“

Þetta voru orð hv. þm. og er of í lagt að segja að hann hafi verið með þessu að lýsa afstöðu sinni þá. En þarna kemur berlega í ljós hversu málsmeðferðin er óeðlileg, að þrátt fyrir það þótt stjórnarsinnum sýnist þá að alls ekki sé þingmeirihluti fyrir máli þá er það tekið upp, þegar þingi hefur lokið, og sett um það brbl. sem eru orði til orðs eins og frv. var sem þeir þó voru sannfærðir um að ekki nyti þingmeirihluta. Það eru þessi vinnubrögð sem náttúrlega hljóta að vera ámælisverð.

Ég hef ekki áhyggjur af Landsvirkjun í þessu sambandi. Hún mun ekki ákveða orkuverð án samráðs við núv. iðnrh. þótt lesa megi það í lögum. Það getur vel verið að öðruvísi hafi staðið á fyrir ári síðan eða svo. Það má vel vera að þeir sem löngum lágu í hernaði við þessa stofnun hafi átt örðugt um vik að hamla gegn þeirri framkvæmd sem lesa má í lögum, að hún hafi, að fengnum tillögum Þjóðhagsstofnunar að vísu, leyfi til að taka ákvörðun um gjaldskrá sína. Það kann vel að vera. En ég kvíði því ekki. Ég kvíði því ekki, enda ef ekki er haft eðlilegt samráð við æðstu stjórnvöld í þessu efni, þá hlytu menn auðvitað að bregða á annað ráð. Ég skil á hinn bóginn fullvel aðstæður hjá hv. þm., ég tala nú ekki um fyrrv. ráðh., sem hafa staðið að lagasetningu þessari. Ég verð að segja það eins og er, að ég tel ekkert óeðlilegt við það þó að þeim sé meira en lítið umhendis að mæta síðan í hv. deild til þess að greiða atkv. gegn lögum sem þeir stóðu að að sett voru.