21.03.1984
Efri deild: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3967 í B-deild Alþingistíðinda. (3386)

252. mál, fjarskipti

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér hér að mæla fyrir frv. til fjarskiptalaga. Þetta frv. var samið af nefnd sem skipuð var af fyrrv. samgrh. og segir frá í grg. með frv.

Í I kafla er getið um nauðsynlegar orðaskýringar og eru þær samsvarandi því sem var í 1. gr. fjarskiptalaganna frá 1941 að öðru leyti en því að bætt er við orðinu „notendabúnaður“. Hann telst vera þau tæki og búnaður sem notuð eru og tengd hinu opinbera fjarskiptakerfi frá „húskassa“ húsrýmis eða starfsstöðvar notanda. Starfsstöð, svo sem stofnun, fyrirtæki, skólar o. s. frv., telst ein eða fleiri byggingar innan sömu lóðar.

Í lok 1. kafla er tekið fram að fjarskipti, svo sem þau tíðkast innan heimila og starfsstöðva, falli utan ákvæða laganna að því er varðar einkarétt ríkisins til reksturs fjarskipta.

II. kafli frv. fjallar um rétt til reksturs fjarskipta. Í 3. gr. þess kafla felst meginbreyting á núgildandi fjarskiptalögum. Einkaréttur ríkisins til þess að flytja til landsins, selja og setja upp hvers konar fjarskiptavirki eða hluta þeirra nær ekki lengur til notendabúnaðar. Eins og fram kemur í athugasemdum við þá grein er á þá er flytja inn eða smíða og selja notendabúnað einungis lögð sú skylda, hvað varðar fjarskiptalögin, að fyrir fram sé aflað yfirlýsinga Póst- og símamálastofnunarinnar um að þær tegundir eða gerðir notendabúnaðar, sem fluttar eru til landsins og tengja á fjarskiptakerfi ríkisins, uppfylli þær tæknikröfur sem gilda á hverjum tíma um notendabúnað. Til að tryggja viðskiptaaðila jafnrétti um þetta ákvæði frv. er gert ráð fyrir því að með reglugerð verði ákveðið að skipa dómnefnd er skeri úr ágreiningi er upp kynni að koma um samskipti innflutningsaðila vegna úrskurðar Póst- og símamálastofnunarinnar um tæknibúnað. Kostnaður við nefndarstörfin greiðist að jöfnu af deiluaðilum, enda tilnefna þeir hvor sinn mann í nefndina. Jafnframt er lögð sú kvöð á innflytjendur, hverjir sem þeir eru, eða framleiðendur að þeir sjái um að varahlutir og viðhaldsþjónusta sé ætíð fyrir hendi og að þeir hafi jafnan í sinni þjónustu kunnáttumenn til starfa við uppsetningu og við viðhald fjarskiptatækja.

Að sjálfsögðu má Póst- og símamálastofnun eftir sem áður flytja inn og versla með notendabúnað í samkeppni við þá aðila sem vilja sinna þeim viðskiptum.

Í III. kafla, 6. gr., er getið um skyldu til þess að hafa fjarskiptabúnað í farartækjum. Hliðstæð ákvæði í núgildandi fjarskiptalögum frá 1941 eru orðin gersamlega úrelt, fyrst og fremst vegna tækniþróunar og ýmissa lagaákvæða og reglugerða sem sett hafa verið frá setningu þeirra laga.

Um stjórn, rekstur og eftirlit fjarskiptamála er fjallað í IV. kafla frv. Ég vil nefna tvö atriði í þessum kafla. Hið fyrra er að í 7. gr. er gert ráð fyrir því að Póst- og símamálastofnunin hafi eftirlit með fjarskiptum þeirra aðila sem með sérstökum lögum annast fjarskipti á tilteknum sviðum. Þetta ákvæði er ekki í núgildandi lögum. Hið síðara er að í 9. gr. er tekið upp ákvæði um heimild fyrir ráðh. til þess að ákveða að fella niður afnotagjöld af símum elli- og örorkulífeyrisþega sem njóta tekjutryggingar skv. lögum um almannatryggingar, nú 19. gr. laga um almannatryggingar frá 1971. Samsvarandi ákvæði var lögfest á Alþingi á árinu 1975, sbr. lög nr. 24 það ár um breytingu á lögum um fjarskipti frá 1941.

Í V. kafla er greint frá uppsetningu og vernd fjarskiptavirkja o. fl. Tilsvarandi efnisákvæði eru í 13.–17. gr. núgildandi fjarskiptalaga. Orðalagi er þó víða breytt og lagagreinarnar færðar til samræmis við reynslu á framkvæmd þeirra undanfarin ár. Lögð er þó áhersla á eitt atriði því að sérstaklega er tekið fram í 11. gr. frv. að þeir, sem ákveða framkvæmdir er verða til þess að valda tjóni á fjarskiptavirkjum, eða þeir, sem annast þær framkvæmdir, beri skaðabótaábyrgð á tjóni sem af þeim hlýst.

Í VI. kafla frv. eru ákvæði um leynd og vernd fjarskipta. Áhersla er lögð á að leynd og vernd fjarskipta gildi jafnt hjá einstaklingum og fyrirtækjum sem og á vegum ríkisins og Póst- og símamálastofnunarinnar. Sömu viðurlög gilda um brot á þessum lagaákvæðum varðandi starfsmenn þeirra aðila sem réttindi fá til uppsetningar og tengingar fjarskiptavirkja og lögð eru á starfsmenn fjarskiptavirkja ríkisins.

Mér finnst rétt að taka það skýrt fram þegar rætt er um þessi mál að vegna breyttrar tækni er ekki unnt að banna óviðkomandi aðilum að taka við fjarskiptum eða hlusta á fjarskiptasamtöl en í þessum kafla er lagt bann við að menn notfæri sér slíkt á nokkurn hátt.

Í næstu þremur köflum frv. eru engin sérstök nýmæli, en þeir fjalla um stöðvun fjarskipta, fjarskiptavirki á hættutímum og um milliríkjasamninga. Samsvarandi ákvæði eru í núgildandi lögum. Þó er rétt að geta þess að í kaflanum um fjarskiptavirki á hættutímum er tekið inn ákvæði þess efnis að mat á endurgjaldi fyrir fjarskiptavirki eða tæki, sem afhent eru póst- og símamálastofnuninni skv. fyrirmælum stjórnvalda, skuli framkvæmt af dómkvöddum mönnum í stað stofnunarinnar sjálfrar eins og nú er.

Að venju fjallar síðasti kafli frv. um viðurlög við brotum á lögunum og gildistöku þeirra.

Ég vil láta það koma hér fram að sú nefnd sem skipuð var 20. nóv. 1981 til þess að vinna að endurskoðun fjarskiptalaganna tók sér nokkuð langan tíma. En ég tel að niðurstaða af störfum nefndarinnar sé góð og henni hafi tekist vel til og það vill svo til að í þessari nefnd eiga sæti þm. í þessari hv. deild og það hvorki meira né minna en þrír þegar varamenn eru taldir með.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég leggja áherslu á nokkur atriði sem fram koma í grg. þessa frv. og nefnd sú, sem samdi frv. og ég gat um, gerði að umtalsefni. Í fyrsta lagi vil ég nefna það að framfarir á sviði allrar fjarskiptatækni eru afar örar um þessar mundir. Símtæknin breytist svo hratt að því hefur verið spáð t. d. að um næstu aldamót verði um helmingur allra Evrópubúa með símtæki á sér. Tölvur og tölvunotkun mun færast í vaxandi mæli inn á heimili landsmanna. Talað er um það í fullri alvöru að á næstu árum þróist síminn, tölvan og sjónvarpið, sem nú eru þrjú aðskilin tæki, í það að vera eitt og sama tækið og það verði í notkun á sem næst öllum heimilum. Þessar öru framfarir leiða til þess að fjarskiptalög og reglur þar um þurfa stöðugrar endurskoðunar við til aðlögunar síbreyttum aðstæðum.

Í öðru lagi vil ég geta þess að fjarskiptalaganefndin ræddi á fundum sínum nokkuð um svokölluð kaplakerfi sem rutt hafa sér til rúms hér á landi í nokkrum mæli utan marka laga og réttar að því er best verður séð. Ljóst er að slík kaplakerfi eða boðveitur muni verða tekin upp a. m. k. í þéttbýli á næstu árum, en þessi kerfi munu geta flutt upplýsingar og myndefni til og frá heimilum. Mér er það jafnframt ljóst að fyrr eða síðar muni koma til kasta Alþingis að fjalla um það að setja um það reglur hvaða aðilar ættu að eiga og reka slík kerfi. Ég vil í þessu sambandi minna á að nú er til meðferðar á hinu háa Alþingi frv. til útvarpslaga um breytingar á núgildandi útvarpslögum sem hugsanlega kunna að leiða til breytinga á fjarskiptalögum. Þetta frv. er mjög í frjálsræðisátt og ég vænti þess að hv. alþm. taki þessu frv. vel og er að gera mér vonir um að menn komi sér saman um að afgreiða það á yfirstandandi þingi.

Skal ég svo ekki hafa fleiri orð um þetta að sinni en legg til að frv. verði vísað til hv. samgn. að lokinni þessari umr.