21.03.1984
Efri deild: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3969 í B-deild Alþingistíðinda. (3388)

248. mál, iðnfræðsla

Flm. (Jón Sveinsson):

Virðulegi forseti. Á þskj. 449 hef ég leyft mér að flytja frv. til l. um breyting á lögum nr. 68 frá 11. maí 1966, um iðnfræðslu, sbr. breyt. á lögum nr. 18 frá 1971.

Í núgildandi lögum um iðnfræðslu, nr. 68 frá 11. maí 1966, 2. mgr. 45. gr., er gert ráð fyrir því að sveitarfélög sem ekki standa að iðnfræðsluskóla greiði námsvistargjald til þeirra skóla sem nemendur úr sveitarfélaginu sækja. Þá ber sveitarfélagi skv. 3. mgr. sömu greinar núgildandi laga að greiða námsvistargjald ef nemendur úr sveitarfélaginu verða að sækja skóla annars skólaumdæmis vegna þess að iðngreinin er ekki kennd í skólaumdæmi sveitarfélagsins. Gerir frv. það sem hér um ræðir ráð fyrir þeirri breytingu að námsvistargjaldið svonefnda verði skv. 2. og 3. mgr. 45. gr. framvegis greitt úr ríkissjóði en ekki af sveitarfélagi nemenda í þeim tilvikum er sveitarfélag stendur ekki að iðnfræðsluskóla eða ef nemendur sveitarfélags verða að sækja skóla annars skólaumdæmis vegna þess að iðngreinin er ekki kennd í skólaumdæmi sveitarfélagsins. Frv. er því í raun mjög einfalt, en jafnframt þýðingarmikið fyrir mörg sveitarfélög.

Í 129. gr. reglugerðar um iðnfræðslu, nr. 554 frá 1. okt. 1975, var að finna sams konar ákvæði og þau er nefnd voru í 45. gr. iðnfræðslulaganna. Sú reglugerð var hins vegar úr gildi felld með nýrri reglugerð, nr. 558 frá 25. ágúst 1981, um sams konar efni. Þar er ekki sérstaklega vikið að námsvistargjaldinu, en segir aðeins í 122. gr. að um stofnkostnað og rekstrarkostnað einstakra iðnfræðsluskóla fari eftir lagaákvæðum viðkomandi skóla.

Með iðnfræðsluskóla á reglugerðin m. a. við iðnskóla og samsvarandi iðnbrautir fjölbrautaskóla. Í lögum um fjölbrautaskóla er hins vegar alls ekki að finna sams konar ákvæði um námsvistargjaldið og í lögum um iðnfræðslu, en síðast nefndu lögunum virðist hafa verið beitt með lögjöfnun til þessa þar sem sömu reglu hefur verið fylgt hvað verknám snertir. M. a. vegna þessa hafa mörg sveitarfélög, sérstaklega hin smærri og fámennari, alfarið neitað greiðsluskyldu sinni, en viðurkenning greiðsluskyldu er skilyrði þess að uppgjör námsvistargjalds geti farið fram í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, svo sem ætlast er til skv. 5. mgr. 45. gr. Telja ýmis stærri sveitarfélög sig því eiga inni nokkrar fjárhæðir hjá öðrum sveitarfélögum vegna þessa. Skv. upplýsingum frá fjármáladeild Reykjavíkurborgar námu námsvistargjöld, sem til innheimtu voru hjá innheimtudeild Reykjavíkurborgar í mars s. l., 13 millj. 608 þús. 914 kr. Eru þessar kröfur frá síðustu árum og elstu ógreiddu kröfurnar frá árinu 1977.

Kröfugerðir af þessu tagi, sérstaklega af hálfu hinna stærri sveitarfélaga þar sem iðn- og verknámsskólar eru, á hendur hinum smærri hafa oftar en einu sinni leitt til deilna milli sveitarfélaga, m. a. og kannske fyrst og fremst vegna óljósra lagaákvæða, einkum hvað fjölbrautaskóla varðar.

Helstu röksemdir þeirra sem neitað hafa greiðsluskyldu hafa verið þær í fyrsta lagi, að ekki sé til of mikils mælst að þau sveitarfélög sem hafi skóla sem hér um ræðir veiti nemendum annarra sveitarfélaga aðgang að þeim án greiðslu kostnaðar þar sem ótvíræður hagnaður sé af því að þurfa ekki að senda nemendur sína á brott úr byggðarlaginu, auk þess sem sveitarfélag sem hefur á að skipa framhaldsskóla hafi af því bæði beinar og óbeinar tekjur.

Í öðru lagi eigi öll sveitarfélög að geta notið þess framhaldsnáms sem boðið er upp á í helstu menntasetrum landsins, einkum í Reykjavík, án þess að til þess þurfi að koma sérstakt gjald sveitarfélags fyrir hvern nemanda.

Í þriðja lagi hljóti að vera ríkisvaldinu hagstæðara að byggja upp öflugar menntastofnanir á þéttbýlustu stöðum landsins en að dreifa þeim um of. Hagstæðara hljóti að vera fjárhagslega að greiða fyrir nemendur úr sveitarfélögum sem ekki eru þátttakendur í iðnfræðsluskólum en að leggja í kostnað við stofnun slíkra skóla víðar. Hefur oft verið fjallað um þessi mál í sveitarstjórnum og meðal samtaka sveitarfélaga og ályktað. Þannig var t. d. þann 12. jan. s. l. samþykkt svohljóðandi ályktun á fundi stjórnar Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, með leyfi forseta:

„Stjórn SSA mótmælir harðlega innheimtu námsvistargjalda. Í meira en 100 ár hefur öll íslenska þjóðin lagst á eitt um að byggja upp og efla hjá sér stönduga og myndarlega höfuðborg. Vegna stöðu sinnar nýtur hún ýmissa sérréttinda, svo sem í skólamálum. Á liðnum áratugum hafa landsmenn allir staðið að öflugri uppbyggingu skóla og annarra menntastofnana í höfuðborg sinni, sem ekki síst á þátt í vexti og viðgangi hennar. Nemendur landsbyggðarinnar hafa því eðlilega sótt skóla til höfuðborgarinnar á vetrum þar sem viðkomandi stofnanir eru ekki til í þeirra heimabyggð. Á sumrin hafa þeir sótt í sín heimahéruð að afla tekna til að standa straum af kostnaðarsömu skólahaldi vetrarlangt í höfuðborginni. Stór hluti þessara landsbyggðarnemenda sest síðan að í höfuðborginni og gerist þar fullgildur skattþegn borgarinnar. Það er því augljóst að Reykjavíkurborg hefur margvíslegan hag af þeim utanbæjarnemendum sem þar stunda framhaldsnám. Nemendur úr höfuðborginni, sem stunda framhaldsnám úti á landi, þurfa ekki að greiða námsvistargjöld þessi. Stjórn SSA telur því að námsvistargjöldin eigi ekki rétt á sér og þar að auki styðjist þau við ótraustan lagalegan grundvöll.“

Nú er ég ekki talsmaður þess að rétt sé að leggja á hin stærri sveitarfélög aukakostnað sem þau hafa af því að þangað sækja nemendur úr öðrum byggðarlögum. Þau verða auðvitað að fá sitt til að geta haldið eðlilegum rekstri gangandi. Segja má hins vegar að miðað við núgildandi lög sé það sveitarfélögum sem ekki hafa þeim skólum eða námsbrautum á að skipa sem hér um ræðir viss byrði ef nemendur úr sveitarfélaginu leita sér menntunar í öðrum sveitarfélögum, þar sem hún býðst, því að þau verða að greiða gjald fyrir hvern og einn nemanda.

Það er yfirlýst stefna stjórnvalda að allir eigi að njóta sömu möguleika til náms, án tillits til búsetu. Ekki er því óeðlilegt að ríkissjóður komi hér til sem greiðsluaðili þeirra sveitarfélaga sem ekki geta boðið upp á það verknám sem nemandi hyggst stunda. Eiga öll sveitarfélög að geta haft jafna möguleika að þessu leyti til að senda nemendur sína til náms.

Fulls samræmis virðist ekki heldur gæta við innheimtu námsvistargjaldsins svonefnda, máske vegna óljósra lagaákvæða. Bæði Reykjavíkurborg og Hafnarfjarðarkaupstaður senda út reikninga vegna þessara gjalda meðan önnur sveitarfélög hafa ekki farið þá leið. Þannig hafa t. d. aldrei verið innheimt námsvistargjöld vegna nema úr öðrum sveitarfélögum í fjölbrautaskólanum á Akranesi, en þangað sækir ætíð nokkur fjöldi nemenda bæði af Austurlandi og Norðurlandi.

Ekki er óeðlilegt að reynt sé að gera sér grein fyrir hversu mikinn kostnað hér er um að ræða fyrir ríkissjóð, ef breytingin næði fram að ganga. Reiknar Reykjavíkurborg með því að tekjur vegna námsvistargjalda 1984 nemi 7 millj. 880 þús. 225 kr. skv. fjárhagsáætlun, en þangað sækja langflestir nemendur úr öðrum sveitarfélögum. Í Hafnarfirði námu tekjur vegna námsvistargjalda 1983 577 þús. 350 kr. og eru áætlaðar nema 850–860 þús. kr. á þessu ári, en þangað sækir einnig nokkur fjöldi nemenda. Gerir Kópavogsbær ráð fyrir að gjöld vegna nema sem sækja til Reykjavíkur og Hafnarfjarðar verði 2.8 millj. kr. á árinu 1984. Skv. fjárhagsáætlun Mosfellshrepps er reiknað með 716 þús. kr. í námsvistargöld á þessu ári, en gjöldin námu á síðasta ári 550 þús. kr. skv. reikningum. Garðakaupstaður reiknar með að námsvistargjöld vegna nema frá þeim nemi 500 þús. kr. á þessu ári og Seltjarnarnesbær 800 þús. kr.

Sú breyting sem hér er lagt til að gera kostar því óhjákvæmilega nokkurt fé úr ríkissjóði, þó að ekki sé hér um verulegar fjárhæðir að ræða. Það sem meginmáli skiptir er hins vegar að komið er til móts við sveitarfélög og öll tvímæli tekin af. Þá jafnast vonandi með breytingunni óánægja og ágreiningur sem uppi hefur verið milli sveitarfélaga og komið verður í veg fyrir enn frekari árekstra þéttbýlis og dreifbýlis, sem óæskilegir eru í hvaða mynd sem er.

Á því máli sem hér um ræðir hefði vissulega verið þörf á að taka í lögum um skólakostnað, enda hefur til þessa ekki verið til að dreifa neinni heildarlöggjöf um fjármál framhaldsskólanna. Meðan svo hefur ekki verið gert er ekki önnur leið fær en breyting á núgildandi lögum, eigi að taka af allan efa í þessu efni. Fróðlegt hefði hins vegar verið að fá upplýst af hálfu hæstv. menntmrh. hvort til standi að leggja fram á þessu þingi nýtt frv. um skólakostnað eða óbreytt frv. fyrrv. menntmrh. Ingvars Gíslasonar. Af því getur víst ekki orðið sökum fjarveru ráðh.

Svo sem fram kemur í aths. með frv. eru meginbreytingarnar á 2. og 3. mgr. núgildandi 45. gr. iðnfræðslulaga. 1. mgr. 45. gr. núgildandi laga er hins vegar haldið óbreyttri svo og 6. mgr. 45. gr. sem með frv. verður 5. mgr.

Í 4. mgr. er lagt til að iðnfræðsluráð ákveði námsvistargjald í stað menntmrn., þar sem ríkissjóður er greiðandi þess.

Loks er lagt til að 5. mgr. núgildandi 45. gr. falli brott, enda millifærsluhlutverk Jöfnunarsjóðs óþarft ef greiðslur námsvistargjalda koma úr ríkissjóði.

Að svo mættu legg ég til að þessu frv. verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.