21.03.1984
Efri deild: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3972 í B-deild Alþingistíðinda. (3389)

248. mál, iðnfræðsla

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð og ég vona að ég þurfi ekki að tefja þennan virðulega fund miklu lengur.

Ég vil lýsa yfir stuðningi mínum við það að þessi mál verði könnuð, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., vegna þess að okkur, sem höfum unnið mikið að sveitarstjórnarmálum, er vel kunnugt hvern vanda er þarna víða við að etja. Er full þörf á því að þarna sé gerð breyting á.

Eins og kom fram hjá flm. er þetta tengt skólakostnaðarlögunum sem við bíðum alltaf eftir. Þau sjást ekki enn þá.

Þetta er orðið mikið vandamál í þeim byggðarlögum sem reka t. d. fjölbrautaskólana og þar sem iðnfræðslan er komin inn. Það er ákaflega leiðinlegt verk, og ég hef verið á móti því, að senda reikninga til þeirra sveitarfélaga, sem eiga nemendur í þessum skólum, vegna námsvistargjaldanna. Þetta gengur ekki upp í okkar þjóðfélagi þar sem það liggur fyrir að önnur menntastig, t. d. menntaskólastigið, skuli kostað að fullu af ríkinu en svo eru sveitarfélög neydd til þess að senda reikninga fyrir námsvistargjöldum vegna annars náms. Þarna þarf að verða bót á.

Ég vildi aðeins láta heyra í mér vegna þessa fram komna frv. og koma því að að ég er meðmæltur því að málið sé skoðað mjög rækilega og gerð verði þarna leiðrétting á.