01.11.1983
Sameinað þing: 11. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í B-deild Alþingistíðinda. (340)

20. mál, hjartaskurðlækningar á Landspítalanum

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Ég fagna sérstaklega ummælum hæstv. fjmrh. og hefði gjarnan viljað heyra svipað álit frá hæstv. viðskrh. um þá stöðu sem Seðlabankinn og Seðlabankahúsið er í. Og ekki bara það hús, það liggur fyrir að bankarnir almennt talað — ég skal taka Landsbankann, stórhýsið hans, sem var verið að byggja í Breiðholtinu, það er ekki að sjá annað en að þar séu til nægir peningar. Það er svo til vonlaust verk að telja alþýðu þessa lands trú um það að hvergi sé að finna neina peninga í þjóðfélaginu meðan fyrirtæki á borð við Seðlabankann, Landsbankann og fleiri geta byggt hallir á borð við það sem menn geta gengið að og séð frá degi til dags það er ástæða til að fagna þessum ummælum hæstv. fjmrh. og vonandi hefur hann þau áhrif á sína meðráðherra í hæstv. ríkisstj. að hans sjónarmið nái fram að ganga, að það beri — a.m.k. um sinn, meðan ástandið í þjóðfélaginu er eins og það er — að stöðva þessa byggingu.