21.03.1984
Neðri deild: 60. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3977 í B-deild Alþingistíðinda. (3401)

210. mál, vísitala framfærslukostnaðar

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég skrifaði undir nál. fjh.- og viðskn. með fyrirvara vegna væntanlegrar yfirlýsingar ráðherra Hagstofu Íslands. Ég vil líka taka undir þá skoðun að það þarf í raun og veru að láta fara fram sífellda og samfellda skoðun á neyslugrunninum í landinu, bæði hjá meðallaunþegahjónunum svo og einstökum hópum, sem ástæða er til að kanna sérstaklega, svo sem eins og komið hefur fram um lífeyrisþega eða fólk á einstökum landsvæðum. Ég tel að Hagstofan eigi að annast þessa hluti og hafa forgöngu um þá og hún eigi að starfa í samráði við hlutaðeigandi aðila, t. d. ASÍ og VSÍ. Það er svolítil áherslubreyting frá því sem er í 1. gr. þar sem Kauplagsnefnd á að starfa í samráði við Hagstofu. Ég tel að Hagstofa eigi að hafa um þetta frumkvæði og forgang og starfa síðan í samráði við þá aðila sem málið varðar. Að því leyti tel ég raunar Kauplagsnefnd sjálfa óþarfa, enda er hún kannske, eins og nafnið bendir til, arfur frá eldri tíma.