21.03.1984
Neðri deild: 60. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3979 í B-deild Alþingistíðinda. (3404)

210. mál, vísitala framfærslukostnaðar

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. viðskrh. fyrir þá viðbótaryfirlýsingu sem hann gaf. Ég vænti þess að það megi treysta því að hann ljái þessari ósk, sem hann lýsti nú í síðustu ræðu, stuðning síns ráðherraembættis og beiti sér fyrir því að á þessu ári fari fram slík bráðabirgðaathugun. Ég vil taka það alveg skýrt fram að óskir um slíka athugun eru settar fram til þess að afla upplýsinga um neysluskiptinguna og útgjaldaskiptinguna eftir tekjuhópum og landshlutum. Mér er ljóst að sú könnun getur ekki orðið það 100% nákvæm að hana megi leggja til grundvallar í vísitöluútreikningum. Til þess þarf lengri og ítarlegri könnun.

En óskin um þessa könnun er sett fram vegna þess að slíkar neyslukannanir eru notaðar bæði af ríkisstj. og Alþingi og fleiri aðilum í þjóðfélaginu til að vega og meta áhrifin af ýmsum stjórnvaldsaðgerðum gagnvart hinum ýmsu tekjuhópum í þjóðfélaginu. Ég tel að hægt sé að afla með slíkri könnun, sem tæki til nokkurra mánaða, upplýsinga sem væru nægilega nákvæmar til þess að verða umræðugrundvöllur í þinginu og annars staðar í þjóðfélaginu. Mér er fyllilega ljóst að á því verða ekki byggðir vísitöluútreikningar. Ég vildi ítreka það sérstaklega því ég veit að Hagstofan telur það eingöngu vera sitt hlutverk að framkvæma kannanir sem liggja til grundvallar vísitöluútreikningum. Vel má vera að Hagstofan telji óeðlilegt að hún fari að framkvæma kannanir sem ekki eiga beinlínis að leggjast til grundvallar vísitöluútreikningum. Þess vegna vil ég við lok þessarar umr. ítreka þá ósk, sem sett var fram til hæstv. viðskrh. við 1. umr., að ef Hagstofan telur sér þetta ekki kleift vegna hins sérstaka hlutverks sem hún gegnir í þessu þjóðfélagi sem mælingarstofnun á vísitölu eingöngu þá verði öðrum rannsóknaraðilum, sem hafa sérhæfni til að framkvæma slíkar bráðabirgðakannanir, falið að gera þá athugun. Málið verði ekki látið stranda á því að Hagstofan telji slíka athugun vera brot á þeirri hefð sem hún hefur lagt til grundvallar undanfarna áratugi, að framkvæma eingöngu hárnákvæmar kannanir sem eigi að leggjast til grundvallar einstökum vísitöluútreikningum.