21.03.1984
Neðri deild: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3985 í B-deild Alþingistíðinda. (3412)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. las hér bréf frá ASÍ og BSRB. Mér barst þetta bréf rétt fyrir hádegið á skrifstofu mína og ég hafði ætlað mér að gera grein fyrir því hér. Því vil ég leiðrétta þá fullyrðingu hans að ætlunin hafi verið að fela þetta bréf. Svo var ekki. Ætlun mín var að ræða það og jafnframt fara nokkrum orðum um þann misskilning sem mér finnst koma fram bæði í þessu bréfi, í umræðum hér og ekki síður í umræðum í Ed.

Eins og allir hv. þm. þekkja er reglan sú að við greiðum skatta eftir á, þ. e. ári eftir að tekna er aflað, og er þá venjulega reiknuð út svokölluð skattvísitala á milli ára, þannig að skattbyrði sé nokkuð svipuð miðað við tekjuár. Ef þessi leið hefði verið farin nú og því fylgt að greiðslubyrði af tekjum ársins í fyrra hefði verið sú sama og þá var af tekjuárinu 1982 hefði átt að innheimta 600 millj, kr. hærri tekjuskatt.

Þegar ríkisstj. fjallaði um skattamálin taldi hún þetta ekki fært vegna þess samdráttar sem orðið hefur í kaupmætti vegna minni þjóðartekna og þjóðarframleiðslu. Því var ákveðið að miða við að greiðslubyrði af tekjuskatti á þessu greiðsluári yrði ekki meiri en á því síðasta. Þetta var margyfirlýst. Þetta lá fyrir þegar frv. var lagt fram s. l. haust og við þessa stefnu hefur ríkisstj. staðið. Það hefur aldrei verið um annað að ræða fyrst horfið var frá því, sem áður hefur verið gert, að halda greiðslubyrðinni fastri miðað við tekjuár. Þarna er því um mjög mikla skattalækkun að ræða, miðað við fyrri venjur á þessu sviði. Ég vildi leggja áherslu á þetta þegar það er gagnrýnt að byggt skuli vera á tekjum yfirstandandi árs og sagt að venja sé að skattleggja tekjur eftir á. Hér er sem sagt í mjög veigamiklu atriði horfið frá því og þar með létt af skattgreiðendum miklum sköttum.

Mér sýnist jafnframt að í því bréfi sem kemur frá ASÍ og BSRB sé mikill misskilningur. Ég kannast ekki við að í neinum samningum hafi verið samið um að hverfa frá því að greiðslubyrði af tekjum ársins í ár yrði óbreytt. Ég hef skoðað það. Slíkt kemur hvergi fram. Í sambandi við láglaunabætur er lögð áhersla á að tekna verði ekki aflað til þeirra með nýjum sköttum.

Ég skal, herra forseti, ekki lengja umr. um þetta mál, en ég hafði hugsað mér að gera grein fyrir umræddu bréfi og leggja áherslu á þau atriði sem ég hef nú nefnt um stefnu ríkisstj. í skattamálum.