21.03.1984
Neðri deild: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3985 í B-deild Alþingistíðinda. (3413)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Þorsteinn Pálsson:

Herra forseti. Það er furðulegur misskilningur sem hefur komið fram í umr. um þetta mál. Ljóst er, eins og kom fram í máli hæstv. forsrh., að það var yfirlýst stefna ríkisstj. að tryggja að á þessu ári yrði greiðslubyrði tekjuskatta að meðaltali ekki meiri en hún var á síðasta ári.

Auðvitað hefði verið hægt að búa við skattalögin óbreytt eins og þau voru og breyta skattvísitölu í hátt við það sem venjulega hefur átt sér stað. Það hefði þýtt verulega aukningu á skattheimtu af öllum almenningi í landinu. Ef hér hefði verið beitt þeirri aðferð, sem hv. 3. þm. Reykv. var að leggja til að gert hefði verið, að leggja á skatta s. l. árs með óbreyttum hætti, þá hefðu væntanlega verið teknar hér — (Gripið fram í.) Hún kom fram í máli hv. þm. fyrr í þessari umr. — þá hefðu verið teknar hér a. m. k. 600 millj. kr. til viðbótar af skattgreiðendum í landinu. Það er það sem fram kemur í málflutningi hv. 3. þm. Reykv.

Það var ákvörðun stjórnarflokkanna að breyta skattalögunum á þann veg að tryggt yrði að greiðslubyrðin yrði að meðaltali óbreytt. Þær ákvarðanir eru auðvitað teknar út frá þeim forsendum sem best eru þekktar hverju sinni. Þegar frv. kom fram á haustdögum lá fyrir áætlun um hversu laun mundu að öllum líkindum hækka á þessu ári. Á þeim grundvelli var frv. byggt þegar það var lagt fram í upphafi. síðar gerist það að nýjar forsendur koma upp í efnahagsmálum, þegar ljóst var að við mundum ekki geta veitt á þessu ári jafnmikinn fisk og við höfum ráðgert. Þá var frv. eðlilega breytt í samræmi við þær forsendur. Menn reiknuðu ekki með að svigrúm til launabreytinga gæti eftir það verið meira en sem nemur 4% frá desemberlaunum yfir til meðaltals ársins 1984.

Þegar niðurstöður kjarasamninga liggja fyrir er ljóst að þessar forsendur breytast. Það er í fullu samræmi við það sem áður hafði verið ákveðið að breyta þá á nýjan leik tölum í þessu frv. í því skyni að tryggja að greiðslubyrða verði áfram að meðaltali sú sama og hún var á síðasta ári. Það hafa engir samningar verið gerðir um það við einn eða neinn hóp í þjóðfélaginu. Auðvitað hefði verið hægt að halda skattalögunum óbreyttum og taka hér miklu meiri skatta af þeim sökum, en það fólst ekki í stefnu ríkisstj. Hún vildi koma til móts við fólkið í landinu og koma í veg fyrir að sú mikla skattahækkun hlytist af sem orðið hefði ef skattalögin hefðu verið óbreytt og því var til þessa ráðs gripið. Hér hefur einungis verið fylgt fram markaðri stefnu. Henni hefur verið breytt í samræmi við þær forsendur sem hafa breyst í okkar efnahagskerfi. Auðvitað var alveg fráleitt að líta fram hjá þeim með öllu.

Það var pólitísk ákvörðun að framkvæma þessa skattabreytingu með þeim hætti að greiðslubyrði lækkaði nokkuð hjá þeim sem hafa lægstar tekjur, en þá auðvitað með því að hún hækkaði lítið eitt hjá hinum sem hafa hærri tekjurnar. Úrtaksathuganir sýna að greiðslubyrði tekjuskatts muni lækka um u. þ. b. 2% hjá tæplega 24 þús. gjaldenda, um 1–2% hjá 27 þúsund gjaldendum og um 1/2–1% hjá rúmlega 30 þúsund gjaldendum. Og það er þetta sem hér er verið að framkvæma.

Því var haldið fram í máli hv. 3. þm. Reykv.ríkisstj. væri að rifta af sinni hálfu þeim kjarasamningum sem nýlega voru gerðir. Er það furðulegt af hálfu þess manns sem mest hefur beitt sér fyrir því að þessir kjarasamningar væru felldir og harðast hefur gengið gegn þeim ábyrgu niðurstöðum sem fengust í þeim samningum. Þegar kjarasamningarnir lágu fyrir gengu fulltrúar Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins á fund formanna stjórnarflokkanna og gerðu þar grein fyrir ákveðnum till. um ráðstafanir í þágu þess fólks sem við verst kjör býr í þjóðfélaginu. Það var samþykkt af hálfu ríkisstj. að beita sér fyrir þeim úrbótum sem þar var greint frá. Það var ósk forustumanna Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins að sá útgjaldaauki kæmi til framkvæmda án þess að skattar yrðu af þeim sökum hækkaðir á launþega eða atvinnufyrirtæki, að fjármagns til þessara tilfærslna yrði ekki aflað með skattheimtu á launþega eða atvinnufyrirtæki. Það var skýrt tekið fram af hálfu fulltrúa stjórnarflokkanna, að þó að að þessu skilyrði yrði gengið mundi ríkisstj. á engan hátt binda hendur sínar til stjórnunar ríkisfjármála og annarra aðgerða á því sviði tekjuöflunar eða breytinga á útgjaldaáformum. Hún getur aldrei og ekki undir neinum kringumstæðum bundið hendur sínar með þeim hætti í samningum við hagsmunasamtök í þjóðfélaginu. Það var alveg skýrt tekið fram við fulltrúa þessara aðila. Að því leyti og af þeim sökum er það á misskilningi byggt, sem fram kemur í bréfi Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, sem sent hefur verið þingflokkum hér í dag og vitnað hefur verið til fyrr í þessum umr., en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í þessu sambandi skal vísað til þess, er skýrt kom fram í viðræðum um kjarasamning ASÍ og VSÍ, að ekki væri gert ráð fyrir aukinni skattheimtu.“

Þessi tilvísun á einungis við tekjuöflun til þeirra tilfærslna í þágu þess fólks sem við verst kjör býr sem þar voru til umræðu. Það var alveg skýrt tekið fram að ríkisstj. mundi ekki binda hendur sínar að öðru leyti.

Það er þar að auki alveg ljóst að frv., eins og það hefur verið samþykkt frá Ed., felur ekki í sér neina breytingu á skattheimtu frá því sem þá lá fyrir. Það er m. ö. o. nú eins og þá verið að tryggja að greiðslubyrði tekjuskatta verði að meðaltali sú sama á þessu ári og hinu síðasta.