21.03.1984
Neðri deild: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3987 í B-deild Alþingistíðinda. (3414)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Umr. sem hefur orðið hér í vetur um skattamál kennir okkur eitt. Það er í fyrsta lagi alveg forkastanlegt að vera með eftiráskattheimtu sem þarf að byggja ár frá ári á einhvers konar meðaltalsútreikningum, þar sem reynt er að meta að meðaltali hvernig nýjar skattreglur mundu hugsanlega koma við einhvers konar meðaltalsfjölskyldur og meðaltalslaunþega. Þetta ætti að kenna okkur þá lexíu, að því fyrr sem við komum á staðgreiðslukerfi skatta því betra. Það er algerlega forkastanlegt að þurfa að standa svona að skattheimtumálunum ár eftir ár.

En hvað sem því liður keyrir um þverbak að koma svo, eftir alla eftirááætlunina, og taka aftur hluta af launagreiðslum sem nýlega er búið að semja um. Koma fram mótmæli við því í bréfi frá ASÍ og BSRB. Forsetar þeirra samtaka lýsa því þar yfir að það hafi alls ekki verið hluti af þeim samningum sem þeir gengust undir. Hv. þm. Þorsteinn Pálsson og hæstv. forsrh. segja að þetta álit þeirra sé á misskilningi byggt. Það skyldi þó ekki vera að það ætti eftir að koma upp meiri misskilningur í sambandi við þá samningsnefnu sem gerð var hérna um daginn?

En það er aldeilis ótrúlegt að staðið skuli vera svona að hlutum. Maður getur spurt sig þá í framhaldi af þessu: Hvað verður þá gert ef samningum verður sagt upp í sumar og samið verður kannske um nýja kauphækkun? Verður þá skattakerfið tekið upp til nýrrar endurskoðunar? Hvenær lýkur þessum meðaltalsútreikningi fyrir árið í ár? Úr því menn ætluðu sér á annað borð að standa svona að þessu og reikna þetta eftir á, eins og gert hefur verið á undanförnum árum, kom ekki annað til greina en miðað væri við þær forsendur sem þekktar voru um áramótin, vegna þess að ef á að standa svona að þessu er hægt að endurskoða skattheimtu með kannske þriggja mánaða millibili. Og eigum við þá ekki bara að bíða til vors með að samþykkja þetta ágæta frv.? Okkur er ekkert að vanbúnaði. Við erum þegar búin að taka þátt í sjö umræðum um þessi mál í deildum. Við getum alveg beðið með eina umræðu, sem ætti þá líklega skv. þingsköpum að fara fram í Sþ. einhvern tíma þegar enn frekari og betri upplýsingar liggja fyrir um meðallaun fólksins í þessu landi á þessu ári.

Það hefur að öðru leyti verið gerð grein efnislega fyrir áliti stjórnarandstöðunnar í ræðu hv. þm. Svavars Gestssonar, en ég álít síðasta útspil stjórnarinnar í þessu máli algjörlega forkastanleg vinnubrögð og skora á hana að taka þetta aftur vegna þess að þetta fyrirgerir öllu trausti sem fólkið í þessu landi getur borið bæði til ríkisstj. og Alþingis.