21.03.1984
Neðri deild: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3998 í B-deild Alþingistíðinda. (3426)

Um þingsköp

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það er misskilningur hjá hæstv. forseta að ég hafi verið í ræðustól þegar fundi var frestað. Ég hafði lokið ræðu minni og ég hafði gert það sérstaklega vegna þess að hæstv. fjmrh. kom að máli við mig hér í þingsalnum fyrr í dag og óskaði eftir því að stuðlað yrði að því að ljúka þessari umr. nú síðdegis. Ég hafði sérstaklega stytt ræðu mína til að verða við þessari ósk hæstv. fjmrh. Nú upplýsir hæstv. forseti að hæstv. fjmrh. sé farinn eitthvað burt og þess vegna geti þessi umr. ekki haldið áfram. (Forseti: Fyrr en síðar á fundinum.) Fyrr en síðar, já, einhvern tíma í kvöld. Ég verð að segja að ég er alveg hættur að botna í þessum hringlandahætti. Maður er beðinn um að stytta mál sitt til að hægt sé að ljúka umr. hér síðdegis og síðan er sá aðili sem um það biður farinn veg allrar veraldar og það er ekki hægt að halda umr. áfram. Ég vil biðja forsvarsmenn ríkisstj. að hafa betri stjórn á sínum ráðh. en hér er greinilega reyndin.

Herra forseti. Ég hafði sérstaklega stytt ræðu mína og lokið henni fyrir fundarhlé skv. sérstakri ósk hæstv. fjmrh., sem mér er nú tjáð að sé farinn eitthvað á brott og því sé ekki hægt að halda umr. áfram með eðlilegum hætti.