21.03.1984
Neðri deild: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4002 í B-deild Alþingistíðinda. (3431)

196. mál, lausaskuldir bænda

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það hefur löngum verið þannig í okkar þjóðfélagi að bændur hafa miðað sín kjör við kjör launafólks í þéttbýli. Þetta kerfi hefur verið svo fast í skorðum að sérhverjar kjarabætur sem launafólk hefur fengið hafa umsvifalaust verið reiknaðir inn í verðlagsgrundvöll landbúnaðarafurða bændum til tekna. Þannig má segja að samtök bænda og stjórnvöld í landbúnaðarmálum hafi í gegnum tíðina fylgt þeirri meginreglu að kjör launafólks og bænda eigi að vera samtengd. Að vísu er rétt að stundum hafa komið fram till. um breytingar á þessu kerfi. Settar hafa verið fram hugmyndir um beina samninga bænda við ríkisvald um kjör sín og um aðrar aðferðir við útreikninga á verðlagsgrundvelli en beitt hefur verið.

Ég ætla ekki að ræða hér kosti og galla slíkra aðferða. En hitt hlýtur þó að vera meginstefna að meðan launakjör bænda og launafólks eru svo samtengd sem raun ber vitni í þjóðfélagi og verðlagskerfi landbúnaðarins öllu er óhjákvæmilegt að meiri háttar aðgerðir, sem framkvæmdar eru til þess að styrkja kjarastöðu annars hópsins, verði einnig látnar gilda gagnvart hinum. Það er á grundvelli þessarar meginstefnu, sem aldrei hefur verið dregin í efa af meginforsvarsmönnum bændasamtakanna né forsvarsmönnum landbúnaðarnefnda í deildum þingsins, að ég og hv. þm. sem þá var, Sighvatur Björgvinsson, varaþm. Karvels Pálmasonar, fluttum sérstakt frv., hliðstætt því sem hér er til umr., um breytingu á lausaskuldum launafólks í föst og löng lán.

Meginefnisþáttur þessa frv. var kynntur við 1. umr. um þetta mál. Sett var fram sú meginskoðun að kjör launafólks, hvað snertir skuldir vegna húsnæðis og heimilisrekstrar, eru jafnerfiður baggi ef ekki erfiðari baggi á fjölskyldum launafólks allt í kringum landið en lausaskuldir bænda sem þó eru erfiður baggi á bændum. Þegar þetta frv. var til 1. umr. var óskað eftir því að fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar fengi að fjalla um frv. um leið og hv. landbn. Mér er ekki kunnugt um að af þeirri umfjöllun hafi orðið. Málið er nú keyrt út úr n. í krafti þess að það sé svo brýnt að ekki megi eftir því bíða og það m. a. s. tekið fyrir í umræðuáföngum til að hraða afgreiðslu málsins.

Fyrst svo er tel ég óhjákvæmilegt að þær till. sem við fluttum, Sighvatur Björgvinsson og ég, í sérstöku frv. verði einnig tengdar endanlegri afgreiðslu þessa máls svo að þingið geti í heild sinni tekið afstöðu til þess hvort sams konar fyrirgreiðsla, sams konar kjarabætur, eigi að koma launafólki til handa eins og hér er lagt til að eigi að koma bændum til handa.

Ég vænti þess uns annað kemur í ljós að þessar till. njóti eindregins stuðnings hér í deild. Búið er að halda hér margar ræður af fulltrúum ríkisstjórnar flokkanna og stjórnarandstöðuflokkanna um brýna nauðsyn þess að ráða bót á húsnæðisvanda landsmanna. Þess vegna virðist vera eindreginn vilji allra í þinginu til brýnna aðgerða í því efni. Við teljum að með því að fara mjög hliðstæða leið og farin er í þessu frv. sé hægt að ráða bót á mjög brýnum vanda húsbyggjenda. Þessi vandi mundi jafnframt verða til þess að bankakerfi landsins, lífeyrissjóðir og aðrar lánastofnanir, hefðu mun betri aðstöðu til þess að sinna vanda atvinnulífsins og fjármagna framþróun á því sviði með því að flytja fjármagn, sem nú er bundið í lausaskuldum húsbyggjenda og launafólks, yfir í löng lán. Það er nákvæmlega sama röksemdin og beitt er hér til þess að taka upp og framtengja það kerfi sem felst í þessu frv. varðandi lausaskuldir bænda. Upplýst hefur verið við meðferð málsins að þessar lausaskuldir eru að stórum hluta í innlánsdeildum kaupfélaganna og þær muni nota þau bréf sem þessi skuldbreyting verður bundin í til þess að fullnægja bindiskyldu sinni gagnvart Seðlabankanum.

Það er því alveg ljóst að um leið og hér er gerð tillaga um að létta undir með bændum er verið að veita innlánsstofnunum kaupfélaganna sem fjármagnsstofnunum í landinu ákveðna fyrirgreiðslu varðandi bindiskylduna. Slíkt gildir ekki síður um aðrar innlánsstofnanir, banka og sparisjóði og aðrar fjármagnsstofnanir, í landinu sem hafa nú þegar bundið verulegan hluta lána sinna í lausaskuldum húsbyggjenda. Sérstaklega eru það sparisjóðirnir og minni bankar sem þetta gildir um. Þeir eru því á sama hátt og innlánsstofnanir kaupfélaganna fyrst og fremst sá aðili sem lánað hefur húsbyggjendum og launafólki.

Röksemdin fyrir því að samþykkja þetta frv. og veita innlánsdeildum kaupfélaganna þessa fyrirgreiðslu og gera þeim kleift að beita þessum bréfum til að fullnægja bindiskyldu sinni í Seðlabankanum er m. a. sú að innlánsstofnanir kaupfélaganna séu veigamikill þáttur í fjármagnskerfi landsbyggðarinnar. Það sama gildir um þá sparisjóði og bankaútibú sem hafa nú bundið mikinn hluta af sínum fjármunum í fyrirgreiðslu gagnvart launafólki. Hér er því enn á ný um hliðstæðu að ræða varðandi þetta atriði.

Ég hef ekki heyrt á Alþingi nein sérstök mótrök gegn því að þessar breytingar verði samþykktar. Að vísu hefur utan þings í einni blaðagrein verið reynt að gera gys að brtt. og því frv. sem við Sighvatur Björgvinsson fluttum en þau gamanmál hafa hljómað fyrir daufum eyrum. Ég get fullvissað hv. alþm. og hæstv. ráðh. um það að þær till. sem við Sighvatur Björgvinsson fluttum um breytingar á lausaskuldum launafólks í löng lán hafa hlotið mikinn hljómgrunn utan þings. Það eru fá mál sem ég hef staðið að á þingi á undanförnum árum sem hafa orsakað að jafnmargir hafi haft samband við mig til þess að láta í ljósi stuðning sinn og áhuga á því að þetta næði fram að ganga.

Þess vegna er alveg ljóst að það eru mjög margir, hundruð ef ekki þúsundir manna utan þings sem fylgjast munu vel með því hvernig þeim brtt., sem ég hef flutt á þskj. 464, reiðir af við atkvæðagreiðslu um þetta mál. Ég vil mælast til þess að þeir þm., ef einhverjir, sem ætla sér að greiða atkvæði gegn þessum till. láti röksemdir sínar í ljósi við umr.

Að vísu er nú aðeins landbrh. hér viðstaddur en að mörgu leyti væri æskilegt að hæstv. félmrh. og hæstv. forsrh. væru hér viðstaddir einnig því að það mál sem ég er hér að flytja heyrir ekki síður undir þá og reyndar hæstv. viðskrh. einnig. Í raun og veru væri eðlilegt ef maður vildi fylgja þingvenjum að maður gerði kröfu til þess að þessir ráðh. allir væru viðstaddir umr. svo að hægt væri að knýja þá til svara um afstöðu til þessara brtt.

Ég vil mælast til þess við hæstv. forseta að áður en þessari 2. umr. lýkur verði séð til þess að þessir ráðh., hæstv. félmrh., hæstv. viðskrh. og hæstv. forsrh., verði viðstaddir þessa umr. svo að hægt sé að ganga eftir því áður en atkvgr. fer fram hver afstaða þeirra og ríkisstj. er gagnvart þeim brtt. sem við höfum flutt.

Í þeim brtt. sem við höfum flutt á þskj. 464 er á ferðinni eitt af brýnustu hagsmunamálum launafólks og húsbyggjenda. Því hefur verið lýst að vandi bændanna sé mikill. Ég dreg ekki í efa að þær lýsingar séu réttar. En ég bið menn að hugleiða nokkra stund að vandi launafólksins, sem bændur hafa kosið að verða samferða í sínum launaviðmiðunum, er ekki minni. Menn þurfa ekki annað en fletta dagblöðunum, Morgunblaðinu, Dagblaðinu og Vísi og Lögbirtingablaðinu, til þess að sjá síðu eftir síðu eftir síðu nauðungaruppboða frá þeim aðilum sem lánað hafa fé fólki, sem við erum hér að fjalla um, og eru að ganga að því. Svo er ekki komið fyrir bændastéttinni enn að nauðungaruppboð á bújörðum fylli síður blaðanna, en svo er komið fyrir þessu fólki. Þess vegna er alveg ljóst að í samanburði um hina brýna nauðsyn kemur af þeim í röðum bænda sem þessum skuldbreytingum er ætlað að ná til. Og dreg ég þó ekki í efa vanda þeirra.

Við skutum gera okkur fyllilega grein fyrir því að þegar þjóðin á við mikla efnahagslega erfiðleika að stríða veldur miklu að almenningur hafi sannfæringu fyrir því að réttsýni og sanngirni sé gætt og einn hópur manna fái ekki fyrirgreiðslu eða forréttindi umfram annan sem hinn hópurinn hefur engu að síður miðað sig við í gegnum tíðina. Ljóst er að ef niðurstaða þessa máls verður að eingöngu lausaskuldum bænda verður breytt í föst lán og felldar þær brtt. sem ég hef flutt og það frv. sem ég og Sighvatur Björgvinsson höfum flutt nær ekki fram að ganga, þá er verið að reka fleyg milli launafólks og bænda í þessu efni. Þá er verið að segja: Það á eingöngu að veita einum hópi í þessu þjóðfélagi fyrirgreiðslu af þessu tagi. Annar hópur, þótt eignir hans séu komnar á nauðungaruppboð, á ekki að fá hliðstæða fyrirgreiðslu.

Vel kann að vera að menn komi og segi: Þetta hefur ekki verið gert áður. Lausaskuldum bænda var breytt yfir í föst lán í áratug áður en sú breyting, sem hér er verið að fjalla um, kom á dagskrá. Það er alveg rétt. Menn kunna að spyrja: Hvernig stendur á því að þá vildu menn ekki tengja þetta saman? Á því er mjög einföld skýring. Hún er sú að í verðbólguþjóðfélagi og verðtryggingarleysisþjóðfélagi sem við bjuggum þá við var það eðli lánanna og verðbólgunnar sem var í raun og veru sú skuldbinding sem almenningur fékk án þess að þurfa að leita annað. Lánin voru borguð með mun verðminni peningum og vandinn var þess vegna ekki fyrir hendi. Það er mál sem við höfum farið oft í gegnum í þinginu og er algjörlega óþarfi að útskýra nánar fyrir hv. þm.

En eins og allir vita hefur nú orðið breyting á. Nú eru þessi lán verðtryggð og sú kynslóð sem kemur inn á húsnæðismarkaðinn í kjölfar verðtryggingarstefnunnar býr við allt önnur og þrengri greiðslukjör en við eða fyrirrennarar okkar sem komum okkur upp húsnæði áður en þessi breyting varð. Þess vegna er brýnt að hefjast nú handa um að breyta lausaskuldum launafólks yfir í löng lán með nákvæmlega sama hætti og talið er brýnt að breyta lausaskuldum bænda yfir í föst lán.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég skil ekki á hvaða grundvelli menn ætla að mótmæla því að þetta tvennt verði samferða nema eingöngu á þeim grundvelli að hér eigi bændastéttin að njóta forréttinda sem ekki séu veitt launafólkinu í landinu og með því að vísa til þess að bændur standi í rekstri og það geri launafólk ekki. En ég nefni á móti að bændur hafa kosið að tengja sitt kjarakerfi við lífskjör launafólksins og hafa fest í sessi verðmyndunargrundvöll þar sem kjör launafólksins eru meginþátturinn. Það knýr fram kjarabreytingar í verðtagsgrundvelli bændastéttarinnar. Það er hvorki hægt né er það siðlegt að ætla sér nú að rjúfa þetta í sundur með því að segja: Af því að bændur eru atvinnurekendur og standa í rekstri á launafólkið ekki kröfu á þessu — en koma svo næsta dag og segja: Bændur eru launamenn og þess vegna eiga þeir sjálfkrafa kröfu á því að fá allt það sem launafólkið fær í kjarasamningum.

Þeir kjarasamningar sem ASÍ og VSÍ gerðu verða reiknaðir inn í verðlagsgrundvöllinn sjálfkrafa. Þeir kjarasamningar sem Dagsbrún gerir, kannske eftir verkföll og erfiða baráttu og fórnir, m. a. þær fórnir að hafa ekki tekið kauphækkun 1. mars, verða einnig reiknaðir inn í verðlagsgrundvöllinn. M. a. s. lítilfjörlegar launahækkanir og launaflokkabreytingar sem járniðnaðarmenn verða sér úti um í sínum samningum eru reiknaðir sjálfkrafa inn í verðlagsgrundvöllinn. Þannig má lengi telja. Það er hvorki hægt né er það siðlegt að halda því fram að einn daginn eigi að meðhöndla bændur sem launafólk þegar það er bændum hagkvæmt en næsta dag eigi ekki að gera það vegna þess að þá kunni einhverjir aðrir að njóta góðs af því sem bændur eru að berjast fyrir.

Ég hef þess vegna á þskj. 464 flutt fjórar brtt. Þær eru að meginefni tilgreindar í 3. brtt. á því þskj. Þess vegna vildi ég óska eftir því við hæstv. forseta að þótt það fylgi ekki eðlilegri greinaröð í frv. verði brtt. nr. 3 á þskj 464 borin upp fyrst því að verði hún felld fatla hinar brtt. allar um sjálft sig. Í raun og veru eru bæði brtt. nr. 1, 2 og 4 formbreytingar í samræmi við brtt. nr. 3. Þess vegna væri mjög óeðlilegt að bera fyrst upp brtt. 1 og 2, sem eru orðalagsbreytingar og formbreytingar, áður en komið er að sjálfum efniskjarna málsins. Það eru því liðir a, b, c og d í 3. brtt. á þskj. 464 sem skipta höfuðmáli.

Í a-lið er lagt til að í frv. komi ný grein sem kveður á um það að veðdeild Landsbanka Íslands skuli gefa út nýjan flokk bankavaxtabréfa skv. ákvörðun Húsnæðisstofnunar ríkisins. Stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins skuli undirrita þessi bankavaxtabréf og þau skuli notuð til að breyta í föst lán lausaskuldum launafólks vegna fjárfestinga í íbúðarhúsnæði, svo sem íbúðarbyggingar, íbúðarkaupa, endurbóta og breytinga á árunum 1979–1983, að báðum árum meðtöldum, svo og lausaskuldum vegna heimilisstofnunar, innbúskaupa og kaupa á búnaði, verkfærum og tækjum sem launafólk hefur þarfnast vegna vinnu sinnar á sama tíma. Það á einkum við þá hópa launafólks sem þurfa að leggja í mikinn kostnað vegna vinnu sinnar, bæði verkfæri, tæki og annan búnað á líkan hátt og bændur þurfa að leggja í ýmsan tækjakostnað og kostnað vegna búnaðar til þess að geta stundað búskap á sínum jörðum. Síðan er kveðið á um sérstakar tryggingar vegna þessara bankavaxtabréfa.

Í b-lið er tilgreint að ákvörðun um lánskjörin skuli tekin af veðdeild Landsbanka Íslands ásamt fulltrúum Alþýðusambands Íslands í stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins og einum fulltrúa frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, einum frá Bandalagi háskólamanna og einum frá Sambandi bankamanna. Kveðið er á um að

leita skuli samþykkis félmrh. áður en ákvörðunin öðlast gildi.

Í c-lið er sams konar heimildarákvæði gagnvart launafólki sem býr í leiguhúsnæði á vegum ríkisins eins og er gagnvart bændum sem búa á ríkisjörðum.

Í d-lið er kveðið á um að í reglugerð, sem byggð er á umsögn stjórnar Húsnæðisstofnunar ríkisins, Alþýðusambands Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bandalagi háskólamanna og Sambands bankamanna, skuti sett um framkvæmd þessara lagagreina.

Herra forseti. Ég gæti flutt langt mál um þann mikla vanda sem þúsundir launafólks og húsbyggjenda standa í. Ég gæti lýst því með ítarlegum gögnum og greinargerðum hvernig þessi vandi verður algjörlega óleystur ef þessar till. sem við höfum flutt verða ekki samþykktar. Það liggur ljóst fyrir að í þinginu eru ekki neinar aðrar till. uppi til þess að leysa þennan vanda. Þingheimur stendur þess vegna frammi fyrir því að taka skýra og afdráttarlausa afstöðu til þess hvort menn vilja annaðhvort láta það sama gilda fyrir launafólk og bændur eða hvort menn ætla að skilja þúsundir launafólks eftir í köldum klaka nauðungaruppboðanna á sama tíma og bændum er bjargað í land. Ég spyr þá hv. þm. sem hefur tilhneigingu til þess að hafa slíka afstöðu: Er það þjóðfélagslegt réttlæti? Er það þjóðfélagslegt réttlæti að skilja þúsundir launafólks eftir á köldum klaka nauðungaruppboðanna, láta það missa eignir sínar og húsnæði sem það hefur reynt að vinna fyrir árum saman og bundið miklar vonir við á sama tíma og bændum er bjargað í land? Halda menn að þetta þjóðfélag verði betur í stakk búið til þess að takast á við sameiginleg vandamál ef Alþingi og ríkisstj. beita sér fyrir því að einum hópi sé bjargað í land með skuldbreytingum en annar skilinn eftir á köldum klaka og látinn verða nauðungaruppboðunum að bráð?

Þeir sem þekkja til allt í kringum landið vita að þúsundir af fólki eru komnar á algjört örvæntingarstig vegna þeirra fjárhagsbyrða sem það ber og sér ekki fram á neitt annað en að missa eigur sínar.

Ég vil enn fremur spyrja þá fulltrúa í þingsalnum, sem gera sér sérstakt far um það að vera talsmenn bænda, hvort þeir telji það ekki mikilvægt skref til þess að styrkja samstöðu launafólks og bænda, fólksins í þéttbýli og fólksins í dreifbýli, að styðja þessar till. Ef menn hafna þeim, slíta þær í sundur, eru menn í raun og veru að gefa þessum þúsundum í þéttbýlinu skýrt til kynna að þar eigi ekki að eiga sér samleið þegar kreppir heldur séu það bændurnir einir sem sendur sé björgunarhringurinn. Ég tel það ekki vera skynsamlega stefnu til þess að stuðla að samstöðu launafólks og bænda. Ljóst er að það eru bændurnir sem þurfa á þeirri samstöðu að halda fyrst og fremst.

Við vitum ósköp vel að launafólk ber miklar byrðar vegna landbúnaðarins í landinu. Við getum deilt um það hvort þær byrðar séu æskilegar eða óæskilegar. Við getum deilt um það hvernig þær eru til komnar. En ljóst er að verulegum hluta þeirrar skattheimtu sem aflað er er varið til þess að greiða útflutningsuppbætur til margvíslegra styrkja og fyrirgreiðslu gagnvart landbúnaðinum. Við vitum ósköp vel að það eru öfl í landinu sem vilja efla til fjandskapar við bændur. Ekki þarf að lesa mikið í dagblöðum þessa lands þangað til menn finna áberandi skrif, jafnvel leiðara, þar sem alið er á tortryggni og andstöðu launafólks í þéttbýli gagnvart bændum. Ég er þess fullviss að verði þær brtt. sem ég hef flutt felldar verður það mikilvægt vopn í höndum þeirra sem vilja ala á tortryggni launafólks í þéttbýli gagnvart bændum þá mun blasa við þúsundum af fólki í þéttbýlisstöðunum allt í kringum landið að á sama tíma og þeim er vísað á kaldan klaka nauðungaruppboðanna samþykkir Alþingi og ríkisstj. að bjarga bændunum í land. Þessi skuldbreyting mun gera það að verkum að bændur þurfa ekki um nokkurt árabil að hafa neinar áhyggjur af því að missa eigur sínar. Það verður alveg á hreinu. Þeir geta átt við ýmsa erfiðleika að etja, kjör þeirra geta út af fyrir sig verið kröpp, en þeir þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur af því að missa eigur sínar. En hins vegar eru þúsundir í þéttbýlinu allt í kringum landið sem eru komin á það stig að næsta skrefið, ef ekkert verður aðhafst, verður að þær missa eigur sínar.

Herra forseti. Ég varpaði fram við 1. umr. þessa máls óskum um upplýsingar. Því miður er það svo að í þeim skjölum sem koma frá n. er ekki þessar upplýsingar að finna. Ég hef hins vegar kynnt mér það að í n. munu hafa komið fram nokkur gögn þessa efnis en n. hefur af einhverjum ástæðum ekki kynnt þau fyrir þingheimi. Ég vil spyrja hvernig standi á því að það hefur ekki verið gert því að oftast nær er það venja að láta slík skjöl fylgja prentuð með og þá útreikninga og tölulegar upplýsingar sem fram koma.

Skv. þeim upplýsingum sem ég hef hins vegar fengið í hendur úr n. skortir töluvert mikið á að nægilegar tölulegar upplýsingar séu fyrir hendi. Hvernig skiptast þeir tekjulega og eftir landshlutum og hver eru samskipti þeirra við einstakar lánastofnanir? Þó er ljóst að að verulegum hluta er hér verið að leysa ákveðinn greiðsluvanda innlánsstofnana kaupfélaganna. Með því að samþykkja þetta frv. er verið að gera öllum meginþorra innlánsdeilda kaupfélaganna kleift að fullnægja bindiskyldu við Seðlabankann með bréfum sem gefin væru út á grundvelli þessa frv.

Ég tel út af fyrir sig ekki eðlilegt að mismuna lánastofnunum með þessu hætti heldur eigi sama að gilda fyrir allar lánastofnanir ef menn á annað borð ætla að fara inn á þessa braut sem út af fyrir sig má ýmislegt um segja. En ef ætlunin er að gera það með þessum hætti er eðlilegt eitt og hið sama gildi fyrir allar innlánsstofnanir. Þess vegna vænti ég þess að við endanlega afgreiðslu á þessu frv. sýni menn þá sanngirni að taka þátt í því að láta sömu reglur gilda fyrir alla og íhugi vandlega áður en þeir hafna þeim brtt. sem hér hafa verið fluttar hvers konar skref það væri gagnvart samskiptum launafólks og bænda að segja nei við þeim brtt. sem fluttar eru á þskj. 464.

Ég vil svo, herra forseti, að lokum ítreka þá ósk mína að þessari 2. umr. verði ekki lokið fyrr en þeir þrír hæstv. ráðh., félmrh., viðskrh. og forsrh., hafa fengið tækifæri til þess að tjá sig um þessar brtt., nema hæstv. landbrh. geti tjáð sig við umr. fyrir þeirra hönd.