21.03.1984
Neðri deild: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4011 í B-deild Alþingistíðinda. (3433)

196. mál, lausaskuldir bænda

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. landbn. fyrir afgreiðslu þessa máls og þeim sem hér hafa tekið til máls fyrir þann stuðning sem þeir hafa lýst yfir við málið. Allir virðast vera sammála um að brýn þörf sé á að gera það sem frv. þetta gerir ráð fyrir, aðeins er einhver skoðanamismunur um leiðir. En hér hefur verið rakið ýmislegt í sambandi við þetta og ég skal ekki endurtaka það.

En ég verð samt sem áður að láta í ljós þá skoðun mína og taka undir það sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði að þetta eitt leysir ekki allan vanda bænda. Því miður er of mikið sagt hjá hv. 7. þm. Reykv. að þeir þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af eignum sínum næstu árin. Ég er hræddur um að þar þurfi meira til. Við vitum að aðstæður hafa breyst mjög í landbúnaði á síðustu árum af ástæðum sem öllum er kunnugt um þannig að þar þarf ýmsu að breyta. Því vil ég taka undir með hv. 4. þm. Norðurl. eystra að þörf er á stefnumörkun. Ég hef óskað eftir að fá ýmsar upplýsingar sem verið er að vinna að og hægt væri að byggja slíka stefnumörkun sem kannske væri öllu róttækari en fram hefur verið sett þegar aðstæður hafa verið aðrar en núna eru. Ég vil taka undir það að að því máli verður unnið og svara þeirri spurningu hv. þm. með því.

En þrátt fyrir stefnumörkun býst ég við að alltaf geti komið upp vandi í landbúnaði. Við vitum hvað árferðið hefur þar mikil áhrif og við vitum hversu erfitt árferði hefur verið flest árin nú um fimm ára skeið. Það á tvímælalaust stóran hlut í þeim erfiðleikum sem bændur eiga nú við að glíma.

Komið hefur fram að æskilegt væri að meiri upplýsingar lægju fyrir um það hversu umfangsmikið mál hér væri um að ræða. En því miður er útilokað að gera sér að fullu grein fyrir slíku fyrr en til framkvæmdanna kemur þrátt fyrir að ýmislegt hafi verið gert til að reyna að afla gagna eins og hér hefur komið fram. Ekki er vitað í hvað miklum mæli skuldareigendur vilja taka við þeim bréfum sem gert er ráð fyrir að gefin verði út skv. þessum lögum. Á það er ekki hægt að reyna að fullu fyrr en öll kjör hafa verið ákveðin en ekki er hægt að ganga að fullu frá því fyrr en lögin hafa verið afgreidd, svo þetta er nokkuð samtengt. Frv. kveður á um það með hvaða hætti það skuli gert eða hverjir það skuli ákveða.

Hv. 7. þm. Reykv. hefur flutt brtt. all viðamiklar við frv. og spurðist fyrir um álit samráðherra minna um það. Ég hef ekki rætt við þá um það en treysti mér þó til að fullyrða að þeir telji æskilegt að fara fremur þá leið sem hv. þm. gerði í upphafi, þ. e. að flytja sérstakt frv. um það og skoða það rækilega. Því að mér er ekki kunnugt um að þessar till. sem hann flytur hér hafi neitt verið athugaðar í n. í þinginu og því sé lítið vitað hversu umfangsmikið mál hér er um að ræða.

Ég skal ekkert draga úr því að það eru margir sem eiga við margvíslega erfiðleika í fjármálum að etja. Ástæður fyrir því eru margar. En með tilliti til þess að talið hefur verið æskilegt að fá meiri upplýsingar um skuldamál bænda sem, eins og ég sagði, hefur þegar verið reynt að afla held ég að erfitt sé fyrir hv. alþm. að taka afstöðu til þessara brtt. eða samþykkja þær nema eitthvað frekar sé vitað hvað þar er um að ræða og því sé það tvímælalaust þinglegri meðferð að taka til athugunar og afgreiðslu það frv. sem hv. þm. flutti ásamt Sighvati Björgvinssyni og liggur fyrir á sérstöku þskj. Þetta tel ég mig sem sagt geta fullyrt fyrir hönd þeirra ráðh. sem hann minntist á.

Ég vil að lokum endurtaka þakklæti til þeirra sem unnið hafa að framgangi þessa máls og undir það tekið og taka undir með þeim líka að þörf sé á að hraða þessu. Eins og kom fram í framsöguræðu minni var lögð áhersla á að þessi lagaheimild næði einnig til ársins 1983 en það gat vitanlega ekki gerst fyrr en það ár a. m. k. var liðið.