21.03.1984
Neðri deild: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4033 í B-deild Alþingistíðinda. (3438)

196. mál, lausaskuldir bænda

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er með hálfum huga að ég kveð mér hljóðs á þessum kvöldfundi. (Gripið fram í: Ég er ekki hissa á því.) Sem skiljanlegt er, já, vegna þess að margir eru á brott héðan úr salnum sem tekið hafa þátt í þessari umr. og gefið tilefni til ákveðinna svara. Þannig var sérstaklega rætt um þá brtt., sem ég hef hér flutt, af hv. þm. Pálma Jónssyni og Stefáni Valgeirssyni, sem hvorugur er nú hér staddur, annar að mér skilst af fullkomlega skiljanlegum og löglegum ástæðum, en um ástæðu hins fyrrnefnda veit ég ekki. Þá þótti mér kasta tólfunum þegar hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson hvarf úr salnum. (Gripið fram í: Ha? Hann er hér.) Hann hvarf úr salnum áðan og óttaðist ég þá að hann væri genginn á sömu braut og aðrir. (Gripið fram í: Menn þurfa nú að pissa.) Hann hefur sem betur fer birst hér aftur og er mér það mikið ánægjuefni. Gefst þá tóm til að leggja nokkuð út af orðum hans hér.

En ég hlýt þó áður en ég held lengra að skýra nokkuð að gefnu tilefni þá brtt. sem ég hef hér flutt, og harma ég þá enn og aftur að hv. 1. þm. Norðurl. v., Pálmi Jónsson, skuli vera fjarri góðu gamni þar sem ég held að skilningur hans á þeirri brtt. sem ég flyt á þskj. 427 sé ekki alveg fullkominn. Því er þannig farið að að sjálfsögðu ber að lesa brtt. með því frv. til l. sem hún er flutt við, þar sem þar er um að ræða viðbótargreinar sem koma þá til viðbótar þeim sem fyrir eru í frv. og verða að skoðast í því samhengi. (Gripið fram í: Þarna er Pálmi kominn.) Oft kemur góður þá getið er, og gengur nú í salinn áður nefndur hv. þm., Pálmi Jónsson 1. þm. Norðurl. v. og er honum fagnað.

Það hefur nokkuð verið rætt um meðferð á þeim skuldabréfum sem til stendur að gefa út í þessu skyni og það hefur margkomið fram í þessari umr. að þar hefur gætt nokkurrar mismununar eftir því hjá hverjum bændur hafa skuldað. Þannig hefur það t. d. verið í sumum tilfellum lán í óláni að skulda hjá litlum sparisjóði eða lítilli deild hjá kaupfélagi sem hefur innan við ákveðna ársveltu þannig að Seðlabankinn endurkaupir bréf af viðkomandi stofnun upp í bindiskyldu. Þeir sem eru svo óheppnir að skulda í stærri sparisjóðum eða bönkum eða bankaútibúum hafa hins vegar ekki notið þessarar þjónustu og á þeim vígstöðvum hefur gætt ákveðinnar og skiljanlegrar tregðu á því að taka bréf af bændum upp í skuldir þeirra. Þannig hefur einn ágætur bóndi, sem býr að Áslandi í Hrunamannahreppi í Árnessýslu, skrifað landbn. Nd. Alþingis og rakið fyrir henni erfiðleika sína af þessu tilefni. Það kom einnig fram í skoðun hv. landbn. á þessu máli að margir könnuðust við þetta misræmi. Því hef ég á þskj. 427 flutt einfalda brtt. sem mundi leysa þetta vandamál svo ekki þyrfti um að þrasa meir og væru þá jafnt bændur sem og lánardrottnar þeirra betur staddir en ella, ef hv. þd. og Alþingi treystir sér til að samþykkja þá brtt. En það .er einmitt það sem hæstv. landbrh., sem hér hefur talað fyrir sína hönd og annarra fjarstaddra, treystir sér eða þorir ekki að gera samkvæmt orðum hans hér áðan og tel ég það vissulega miður.

Það er enn sem oftar þegar til umfjöllunar á hv. Alþingi kemur sú merka stofnun Seðlabanki Íslands, að þá fer mesti hugurinn úr mönnum og menn eru næsta tregir til nokkurra þeirra aðgerða sem geta á einhvern hátt skipað þeirri stofnun eitthvað fyrir verkum. Ég hefði haft tilhneigingu til að hvetja menn til að samþykkja einfaldlega brtt. mína og vera þar með lausir við þennan draug og þurfa svo ekki eftir á að fara að véla um það mál hvort og þá með hvaða skilmálum Seðlabanki Íslands fáist til að taka einhvern þátt í þessum aðgerðum. Hitt þættu mér öllu hreinlegri vinnubrögð. En, herra forseti, ég skal ekki lengja þetta mjög. Þetta hefur fengið hér allítarlega umfjöllun og afstaða mín liggur fyrir á brtt.

Ég ætla ekki að kveðja þennan hv. ræðustól án þess að svara nokkuð ágætum hv. þm. Jóni Baldvin Hannibalssyni sem tók í það allmikinn hluta af ræðutíma sínum að fjalla nokkuð um landbúnaðarstefnu þess stjórnmálaflokks sem ég sit á Alþingi fyrir. Gerði hann þar í fyrsta lagi lítið úr ágætri landbúnaðarstefnu þess flokks í gegnum tíðina. Ég bendi þeim hv. þm. á að það væri fróðlegt, í anda þeirrar ágætu stefnu að neysla manna fer nokkuð eftir kaupmætti þeirra og kaupgetu, að skoða hvernig kaupmáttarskerðingin undanfarna mánuði af völdum hæstv. ríkisstj. sem nú situr og stýrir landinu að nafninu til hefur leikið kaupgetu almennings og þar með auðvitað innkaup hans á landbúnaðarvörum. Skyldi þá ekki sannast hið fornkveðna, sú ágæta stefna sem stundum hefur verið kennd við Lúðvík Jósepsson, að vandinn vaxi þeim mun meir og offramleiðslan aukist þeim mun meir sem við getum minna keypt hér innanlands. Þetta eru svo einföld sannindi að ég er viss um að jafnvel hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson sér þetta ef hann hugsar um þetta augnablik, og þá þarf hann ekki lengur að gera grín að þessari ágætu stefnu.

Hann sagði að ég mundi vera nokkuð sem hann kallaði „talsmaður hinna gömlu framsóknarviðhorfa í landbúnaðarmálum innan Alþb.“ Þá verð ég að byrja á því að segja það við hv. þm. að vegna þess hvernig Framsfl. hefur þróast á undanförnum árum og alveg sérstaklega þetta síðasta ár vil ég miklu frekar vera talsmaður hinna gömlu framsóknarviðhorfa en þeirra nýrri. Ég tel þau hafa verið miklum mun vænlegri og þá stefnu sem sá flokkur ber nú fyrir brjósti alveg heillum horfna.

Engu að síður vil ég segja það að lokum við þennan ágæta þm., Jón Baldvin Hannibalsson, að segja má að landbúnaðurinn og Alþfl. eigi dálítið skylt með sér og séu að mörgu leyti í svipaðri stöðu. Þannig er nefnilega með Alþfl. að hann hefur lengi viljað leggja bændur niður, en að sama skapi hafa kjósendur viljað leggja Alþfl. niður. Nú er þannig ástatt að í þessum hildarleik stend ég með bændum, það verður nú að viðurkennast hér, og ef um það er að ræða að annar hvor þessara aðila eigi að hverfa út úr íslensku þjóðlífi á næstu árum eða áratugum ætla ég að vona að það verði Alþfl., en bændur verði áfram til á Íslandi. (Gripið fram í: Ég vona að þér skakki í þeim efnum.) Reynslan mun skera úr um það, hv. þm.