01.11.1983
Sameinað þing: 11. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í B-deild Alþingistíðinda. (344)

20. mál, hjartaskurðlækningar á Landspítalanum

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir hans svör, þó að mér finnist á skorta nokkuð að fyllt sé út í þá mynd sem ég hygg að þarna sé um að ræða, og bið ég þá hæstv. ráðh. að leiðrétta á eftir ef það hefur farið fram hjá mér svar hans að því er varðaði Mjólkursamsöluna. Er það misskilningur hjá mér að Mjólkursamsalan sé með hús í byggingu? Um það er spurt. Hver er kostnaður af því og hvernig er það fjármagnað?

Ég segi enn og aftur að hafi svar hæstv. ráðh. farið fram hjá mér bið ég á því forláts, en hafi það ekki komið fram óska ég svars og þá ítrekaðs ef ég hef af því misst.

Að því er varðar Osta- og smjörsöluna sýnist mér ærið mikill peningur hafa farið í þá byggingu sem þar var byggð á sínum tíma, þ.e. hátt í 47 millj. miðað við verðlag í lok árs 1982. Ég er á engan hátt að draga úr því að það hafi verið þörf á byggingu slíks húsnæðis. En þörfin er miklu víðar en á þessum sviðum. Þarna er um að ræða ca. sex íbúða verðmæti. Miðað við verkamannaíbúð, eins og menn kalla, mætti byggja fyrir þessa upphæð a.m.k. sex íbúðir. (EG: Ráðh. fór ekki rétt með tölur áðan. Það ruglaðist eitthvað lítillega.) Ég var ekki alveg búinn. Ég held að það vanti ýmislegt til viðbótar því sem fram kom í svari hæstv. ráðh.

Að sjálfsögðu er tekið undir það að góð umgengni á að vera til fyrirmyndar og á engan hátt er ég að amast við þeim sem þarna ráða ríkjum, nema síður sé, því að ég hygg að þeir hafi verið til fyrirmyndar á sviði umgengni. En sem betur fer er líka hægt að finna ýmsa aðra sem eru til fyrirmyndar í umgengni og snyrtimennsku.

Ég skal ekki hafa um þetta öllu fleiri orð, en ég vænti þess að það hafi ekki farið fram hjá mér ef hæstv. ráðh. hefur svarað þeim hluta spurningarinnar sem snýr að Mjólkursamsölunni. (Gripið fram í: Það er bara í fyrirsögninni hjá þér.) Það er spurt um hvort tveggja og hv. þm. Egill Jónsson ætti að vita betur. Ekki hygg ég að það sé neitt feimnismál hjá honum að segja með hvaða hætti slíkar byggingar eru fjármagnaðar.