22.03.1984
Sameinað þing: 69. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4063 í B-deild Alþingistíðinda. (3460)

184. mál, friðarfræðsla

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Mér þykir í aðra röndina hálfleiðinlegt að koma hér upp í ræðustól til þess að lýsa efasemdum mínum um ágæti þessarar till. og andstöðu við hana, a. m. k. á þessu stigi málsins. Þetta er ekki vegna þess að mér hafi þótt málflutningur 1. flm. vondur, þvert á móti. Mér þótti ræða hennar hin merkasta, verð allrar íhygli og umr. og bera höfundi sínum fagurt vitni.

Það kom fram í máli hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur og í þeirri heimsmynd og þeirri sýn, lífsskoðun, sem hún dró upp að hún er mikill friðarsinni. Hún lýsti andstöðu sinni við stríð og ofbeldi sem aðferð til þess að leysa ágreiningsefni milli þjóða og einstaklinga. Hún fordæmdi það brjálaða vígbúnaðarkapphlaup sem tröllríður heimsbyggðinni, hún harmaði þá gegndarlausu sólund efnislegra og mannlegra verðmæta sem á sér stað í okkar heimi og leiðir af þessu vígbúnaðarkapphlaupi. Hún lýsti sjúku efnahagskerfi heimsins sem birtist okkur í blöskranlegri misskiptingu auðs og valds. Hún nefndi ótal dæmi þess hvernig verja mætti þeim fjármunum, sem nú er varið til vígbúnaðar og vopnaframleiðslu, til þess að uppræta sjúkdóma, til þess að vinna bug á hungri og örbirgð, til þess að vinna bug á ólæsi og fáfræði, til þess að leysa vandamál mengunar og eyðingar í náttúrlegu lífríki okkar. Og þannig mætti lengi telja.

Ég hygg að sá maður sé vandfundinn sem lýsi andstöðu sinni við þessi háleitu markmið. Ég hygg að sá maður sé vandfundinn sem ekki hljóti að segja: Þessi orð eru út af fyrir sig töluð út úr mínu hjarta. Hvers vegna er ég þá að lýsa andstöðu við þá till. sem hér um ræðir, að innleiða skuli friðarfræðslu í skóla, umfram það sem þegar er eðli málsins samkvæmt og þá líka á dagvistarstofnunum, barnaskólum? Ástæðan fyrir því er aðallega ein. Mér finnst till. sem slík, sem hér liggur fyrir, lýsa hugmyndum um hlutverk skóla og trú á getu skóla sem uppeldisstofnunar sem ég er engan veginn sannfærður um að sé rétt og hef miklar efasemdir um. Ég vík svolítið betur að því síðar.

Það kann að þykja nokkuð íhaldssamt sjónarmið að lýsa efasemdum um hlutverk skóla í lýðræðisþjóðfélagi af þessu tagi en að því verður vikið síðar. Þegar við hlýddum á þessa ágætu ræðu hv. 1. flm., þar sem lýst er svo háleitum markmiðum og svo hrikalegum vandamálum í mannheimi, vakna hins vegar upp margar spurningar. Spurningarnar lúta flestar að litlu orði þ. e. spurningunni: Hvernig eigum við að snúast við þessum vandamálum? Hvernig ætlum við að stefna að því að leysa þau? Getur það verið að svörin við þessu litla orði leiði í ljós einhvern djúpstæðasta pólitíska ágreining sem uppi er nærri því um flest mál, stór og smá, í mannlegu samfélagi?

Mér dettur í hug að spyrja: Við heyrum daglega fréttir af litlu ríki í Mið-Ameríku sem heitir El Salvador. Við eigum bágt með að skilja þær hörmungar sem sú þjóð býr við. Við höfum grun um að undirrótin sé ægileg misskipting auðs og valds. Nánast allt vald, allur auður þessa þjóðfélags er á höndum tiltölulega örfámennrar yfirstéttar sem virðist vera siðferðilega rotin og gerspillt. Daglegt líf alls almennings er hungur, örbirgð, fáfræði, vonleysi og meira en það. Það er morðið sjálft, hið daglega morð.

Það er erfitt að vera friðarsinni í þessum heimi. Ég spyr sjálfan mig og hef oft spurt í svipuðum tilfellum: Á þeirri stundu þegar búið væri að leiða karl föður minn til aftöku, myrða móður mína, misþyrma börnum mínum af svo óforbetranlegu valdi, væri ég þá líklegur til þess að leggjast á bæn og biðja um frið gagnvart kvölurum mínum og kúgurum? Eða væru þau viðbrögð líklegri að ég leitaði upp þann stað þar sem ég gæti komið mér upp vopnum til þess að gera upp sakir við þetta ómennska kúgunarkerfi? Ég er ansi hræddur um að siðferðilegt ágæti mitt sé ekki meira en þetta, að ég mundi fara þá leið, þegar ég stend frammi fyrir svo miskunnarlausu ofbeldi, að gjalda líku líkt.

Við spyrjum sjálf okkur: Ef við værum þeldökkir utangarðsmenn í því ríki sem heitir Suður-Afríka og stæðum frammi fyrir því í öllum daglegum veruleika okkar að við erum niðurlægð, smánuð og minnt á það að við erum nánast ekki mannfólk í þessu þjóðfélagi, hvernig bregðumst við við? Lýðræðissinni af Vesturlöndum fer náttúrlega með sína lífsskoðun, sem er sú að lýðræðið sé í eðli sínu pólitísk aðferð til þess að leysa ágreiningsmál með friðsamlegum hætti í staðinn fyrir ofbeldi. En hversu oft hefur maðurinn ekki staðið frammi fyrir þeim staðreyndum í lífi sínu að honum er neitað um friðsamlega lausn, hann er hrakinn til þess að reyna að leita réttar síns með því að rísa upp gegn kúgara sínum?

Skyldu þessar spurningar ekki vera ofarlega í huga þeirra manna sem hafa tekið sér vopn í hönd í Afganistan og ekki skirrst við að mæta yfirþyrmandi vélvæddu ofbeldi nágrannaríkisins sem fer eldi og eimyrju um land þeirra, brennir þorp, myrðir fólk með vopnavaldi? Þessir menn taka sér vopn í hönd þrátt fyrir vonleysi baráttunnar og neita að gefast upp, neita að sætta sig við það að þeir eigi að lúta þessu ofbeldi í nafni friðarins.

Það er vandasamt að vera friðarsinni í þessum heimi. Við höfum horft upp á Pólverja, þessa stoltu, menntuðu, gáfuðu þjóð með sína glæsilegu, sögulegu erfð, tilraunir hennar á undanförnum misserum til þess að beita vopnalausri, friðsamlegri andstöðu, andófi til stuðnings kröfu um frumstæðustu réttindi, svo sem eins og réttinn til þess að þrautpíndur öreigalýður þar í landi megi mynda samtök. Bak við þá kröfu eru miklu djúpstæðari tilfinningar. Krafan er um sjálfstæði pólsku þjóðarinnar, um sjálfsforræði hennar, krafan er um það að aðrar þjóðir virði rétt hennar til lífs, til mannréttinda, til frelsis. Við höfum orðið vitni að því hvernig þessi hreyfing var brotin á bak aftur af yfirþyrmandi valdi, brotin á bak aftur að forminu til af leppstjórn sem allir sem eitthvað þekkja til mála í Póllandi, vita að mundi ekki standast deginum lengur ef henni væri ekki haldið uppi með vopnavaldi erlends stórveldis. Hægt er að nefna þessi dæmi endalaust og þau leita á hugann.

Það er erfitt að vera friðarsinni í slíkum heimi. Vissulega er það fögur hugsjón. En menn hafa svo oft og iðulega — ekki bara í sögunni heldur ekki hvað síst á þessari 20. öld sem er tvímælalaust mesta ofbeldistímabil sem hin skráða saga kann frá að greina — staðið frammi fyrir þessum sálarháska, þessum lífsvanda. Og svörin eru engin til einhlít eða einföld, þannig að unnt sé að leiða þau inn í skólastofuna og kenna skilmerkilegar niðurstöður.

Til er skemmtileg frásögn af því þegar þeir Maxim Gorki og Vladimir Lenin ræddu þetta vandamál. Gorki lýsti efasemdum sínum við byltingarleiðtogann um það að hinn þrautkúgaði almenningur Rússlands, hinir ómenntuðu bændur, aldir upp í skriðdýrshætti gagnvart yfirstéttarvaldi, við fáfræði, skort og gjörsneyddir því sem Gorki hélt af kynnum sínum af Vesturlandabúum að væru ytri form siðmenningar, að þeir væru það hráefni sem hægt væri að byggja á nýtt þjóðfélag, nýja manngerð byggða á hugsjónum um sósíalismann sem átti að innleiða öld allsherjarnirvana — friðar í mannlegum samskiptum. Svar Lenins var einfalt. Hann sagði að þetta væru fallegar hugmyndir en því miður hefði hann ekki tíma til þess að bíða eftir því að þessi hugarfarsbreyting, sem Gorki raunverulega var að biðja um, gæti gerst. Síðan eru liðnir nokkrir áratugir, byltingin er að verða sjötug. Menn geta út af fyrir sig eftir á sagt sem svo: Þetta var ekki svo galið hjá Gorki. Arftaki Lenins, sem byggði vissulega á kenningum hans og hugsjónum og hugmyndum, fjöldamorðinginn Josef Stalin, mikilsvirkasti fjöldamorðingi sögunnar, er arftaki einhverrar háleitustu hugsjónar sem sett hefur verið fram í samhengi evrópsks húmanisma.

Við getum nú litið yfir þann veg og spurt til hvers þetta leiddi. Þjóðfélagið, sem af þessum hugsjónum spratt, er valdbeitingin og ofbeldið holdi klætt í þeim skilningi að þetta þjóðfélag fengi ekki staðist deginum lengur án ofbeldis. Það byggist á algerri valdaeinokun tiltölulega fámenns úrvalshóps. Allt vald, efnahagslegt, pólitískt, menningarlegt er í þeirra höndum. Þessu valdi hefur verið beitt af svo skefjalausu og hamslausu mannhatri og óbilgirni að í valnum liggja 50–60 millj. manna. Heilu þjóðirnar hafa orðið að sæta nauðungarflutningum. Hver sá maður, sem lýst hefur annarri skoðun, hefur mátt finna það, annaðhvort með því að gjalda fyrir með lífi sínu eða frelsi sínu, vissulega allri mannlegri virðingu sinni. Hugsjónin um alþjóðlegt bræðralag verkalýðsins hefur snúist upp í þá ömurlegu martröð að verða að alþjóðatugthúsi utan um öreiga heimsins.

Hefði verið hægt að fara hina friðsamlegu leið? Vel má vera. En spurningin er kannske betur orðuð þannig: Hvernig eiga þeir einstaklingar og þeir hópar, sem unna málstað friðar og gera sér grein fyrir því að eina leiðin til friðsamlegrar lausnar er hugsjónin um pólitískt lýðræði í venjulegu pólitísku starfi, að bregðast við ofbeldinu?

Hvernig áttu menn að bregðast við Hitler? Sósíaldemókrata hefur lengi greint á um það þegar þeir rifja upp sögu sína hvort vesældarleg og uppgjafarleg viðbrögð þeirra við valdatöku Hitlers og þýska nasismans sé ekki einn versti smánarbletturinn í þeirra sögu.

Hefðu þeir ekki átt að stemma á að ósi? Hefðu þeir ekki átt að taka þá ákvörðun, í staðinn fyrir að láta það ómennska ofbeldi yfir sig ganga, að grípa til valdbeitingar gegn valdbeitingu og koma í veg fyrir að þessi geðveiku ofbeldisöfl næðu völdum og steyptu veröldinni út í nýja heimsstyrjöld sem kostaði tugi milljóna mannstífa?

Hvernig áttu lýðræðisríkin að bregðast við Hitler? Almenningur í lýðræðisríkjunum var minnugur hörmunga fyrra stríðs þegar heilar kynslóðir ungs fólks voru leiddar að því er virtist í algjöru tilgangsleysi á blóðvöllinn. Lýðræðisríkin voru á móti stríði, almenningur var á móti stríði, hann vildi allt á sig leggja til þess að viðhalda friðnum. Ríkisstjórnir í lýðræðisríkjum eiga ekkert sérstaklega auðvelt með að egna upp vilja til styrjaldar, eða fá allan almenning til að sætta sig við þungbærar efnahagslegar fórnir til þess að byggja upp herstyrk — til að koma í veg fyrir stríð. Niðurstaðan varð sú að fólk vildi ekki trúa hinu illa. Það vildi í lengstu lög fresta uppgjörinu við Hitler og morðsveitir hans. Afleiðingarnar voru vægast sagt hörmulegar.

Í hinni ágætu ræðu hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur vakti hún upp spurninguna: Hverjar eiga að vera hetjur og fyrirmyndir hinna ungu? Eiga það að vera fjöldamorðingjarnir, eiga það að vera hugsjónaglóparnir, eiga það að vera stríðsleikameistararnir, eiga það að vera poppstjörnurnar eða eiga það að vera hinir raunverulegu merkisberar mannúðar í hversdagslegu starfi, eins og t. d. móðir Theresa, Martin Luther King eða einhverjir slíkir?

Af því að þetta er árið hans Orwells, 1984— og af því að hv. þm. nefndi líka Mahatma Gandhi — datt mér í hug umhugsunarverð ritsmíð þessa breska hugsuðar, sem alinn var upp á jaðri breska heimsveldisins og fjallaði mikið um Indland. Hann velti því fyrir sér hvernig á því stóð að það var svo algengt meðal frjálslyndra, róttækra menntamanna í Bretlandi á þeirri tíð að lýsa mikilli aðdáun á Gandhi og reyna að yfirfæra aðferðir, sem hann beitti þar gegn breska nýlenduveldinu, og gera þær að algildri pólitískri kenningu. Niðurstaða Orwells var sú að þótt aðferðir Gandhis, þ. e. hinn vopnlausi mótþrói, hefðu skilað nokkrum árangri í baráttunni gegn breska nýlenduveldinu hefðu þær að engu gagni komið gegn Hitler, engu gagni komið gegn Stalin, engu gagni komið ef Gandhi hefði átt í höggi við raunverulega fulltrúa hins nýja vélvædda alræðisríkis, hvort heldur það er kennt við hinn rauða fasisma eða hinn brúna. Gandhi hefði ekki verið settur í fangelsi, hann hefði ekki verið frjáls að því að stunda þar fræði, ekki látinn njóta þar „andlegs frelsis“, þ. e. ekki fengið að halda tengslum við samherja sína, hreyfingu sína, skrifa niður hugsanir sínar eða annað þess háttar. Hann hefði einfaldlega verið tekinn af lífi. Ofbeldinu hefði verið beitt gegn þessari hreyfingu og hún hefði verið brotin á bak aftur. Þetta var niðurstaða Orwells. Þetta kann að vera umdeilanlegt en ég hallast að því að Orwell hafi haft rétt fyrir sér. Enn eitt dæmi um það hversu vandasamt er að vera friðarsinni í þessari veröld.

Ég held að af þessum dæmum verði ekki leiddar neinar algildar niðurstöður. Ég held að ekki sé til nem einhlít kenning um hvernig eigi að mæta ofbeldinu. Ég held að ekki sé til nein einhlít skýring á orsökum ófriðarátaka og ofbeldis. Ef þær skýringar væru til hlytum við að vera komnir nær því að uppgötva þær á þessari glórulausustu ofbeldisöld sem nokkurn tíma hefur yfir mannkynið runnið.

Mér fannst gæta þess í málflutningi hv. þm., þegar hún boðaði nýjar hugmyndir og nauðsyn hugarfarsbreytingar, að í hugskoti hennar væri sú tilfinning að hún væri raunverulega að boða nýjar skoðanir, nýjan sannteika, sem áður hefði lítið gætt eða ekki fengið að njóta sín í pólitískri umr. og afstöðu til þeirra hugmyndakerfa sem mest hafa átt ítök í hugum fólks. Kannske er þetta rangur skilningur hjá mér. En engu að síður finnst mér vera tilefni til þess að rifja upp að vandamálin sem hv. þm. var að lýsa eru ævagömul. Tilraunir manna til þess að móta sér skoðanir, smíða sér kenningakerfi um það hvernig eigi að leysa þau, eru líka ævagamlar. Má ég taka dæmi af marxisma?

Þetta hugmyndakerfi sem er upprunnið úr evrópsku iðnaðarsamfélagi hefur vissulega haft ótrúlegt aðdráttarafl. Í nafni þess hefur þriðji partur jarðarbúa verið hnepptur í þjóðfélagslega ánauð. En hver var hvatinn að þessu hugmyndakerfi? Vafalaust hvorki meira né minna en hugsjónin um að uppræta orsakir ófriðar í mannlegu samfélagi. Milovan Djilas lýsir marxismanum í viðtali á þá leið að það hræðilega við hann sé að hann sé hugmyndakerfi sem gefi einföldum sátum sem vita lítið það á tilfinninguna að þeir geti útskýrt margt og mikið. Hann leggur áherslu á hina hræðilegu einföldun, hinn hræðilega misskilning á óendanlega flóknu mannlegu eðli og flóknu mannlegu samfélagi, hina óendanlegu trúgirni á einfaldar lausnir, sem sagan síðan kennir okkur að hafa snúist upp í andstæðu sína — ömurlegustu martröð. En hvatinn að þessu hugmyndakerfi var tvímælalaust að létta af arðráni manns á manni, einnar þjóðar á annarri, að leysa vandamál örbirgðar og fátæktar og útrýma þar með orsökum ófriðar og ofbeldi.

Kenningin er ákaflega einföld. Um leið og við afnemum einkaeignarrétt á framleiðslutækjunum afnemum við arðránið, afnemum við stéttaskiptinguna og innleiðum nýtt þjóðfélag þar sem önnur mannleg gildi ráða í samskiptum fólks. Þetta var hugmyndin, þetta var kenningin. Það er ekkert óskiljanlegt við það að þessi einfalda kenning kveikti í hugum fólks, m. a. hér uppi á Íslandi.

Mér dettur í hug að rifja upp að núna fyrir jólin var endurútgefin bók eftir höfuðsnilling og skáldjöfur Íslendinga á þessari öld, Halldór Kiljan Laxness. Þessi bók heitir Gerska ævintýrið. Þetta er einhver andstyggilegasta bók sem skrifuð hefur verið á íslensku, fyrst og fremst af þeirri ástæðu að í henni er ekki að finna satt orð — þjáningar saklausra fórnarlamba eru þar hafðar að háði og spotti.

Samt er ekki nokkur vafi á því að þessi bók var skrifuð af þeirri hvöt að útrýma fordómum og fáfræði um Sovétríkin, að vara Íslendinga við einfeldningslegum áróðri um Sovétríkin — vara við „Rússagrýlunni“. Hver er niðurstaðan hins vegar þegar bókin er könnuð? Niðurstaðan er sú að höfundurinn var því miður ginningarfífl sinnar eigin botnlausu fáfræði um Sovétríkin. Það er ljóst þegar þessi bók er lesin — og var reyndar mörgum samtímamönnum ljóst þegar hún var skrifuð — að bókin er byggð á fáfræði, ranghugmyndum. Hún hafði gífurleg áhrif ásamt öðrum bókum sama höfundar í þá átt að gefa t. d. frómt þenkjandi mönnum, mönnum sem vildu láta segja sér af draumnum um hið nýja samfélag, alrangar hugmyndir um þetta samfélag. Rússagrýlan reyndist vera miklu hræðilegri en Halldór Kiljan Laxness og samtímamenn hans nokkurn tíma óraði fyrir. Skáldið hefur um síðir gert upp við þessa fortíð og gert tilraun til að leiðrétta þau sögulegu mistök sem þarna áttu sér stað, svona eins og það er á mannlegu valdi að gera það. Nú deila yfirleitt engir menn um það að þjóðfélagið sem byggt var á þessum draumi er þjóðfélag ofbeldis. Þjóðfélag friðarins, sem átti að vera, er eitt mesta hernaðarhyggjuþjóðfélag sem heimurinn hefur séð. Í hverju lýsir það sér? Það lýsir sér í því að þar er aðeins ein kenning og ein skoðun sem er leyfileg. Hún er helguð af því að þjóðfélagið er byggt á þessari skoðun. Valdhafarnir réttlæta alræðisvald sitt með skírskotun til þessarar lífsskoðunar. Þessi skoðun er síðan kennd, hún er t. d. kennd í skólum alveg frá blautu barnsbeini.

Ef nokkurt ríki í heiminum er til þar sem valdhafarnir sjálfir mundu vera ásáttir við að „friðarfræðsla“ væri í góðu lagi þá væri það í Sovétríkjunum. Kenningin er ákaflega einföld. Sovétríkin eru boðberi friðarins. Þau eiga við að glíma grimma djöfla heimsauðvaldsins, sem helgast af kenningunni um það að styrjöld sé afleiðing kapítalískra þjóðfélagshátta. Orsakir ófriðar hafa verið afnumdar í Sovétríkjunum, skv. kenningunni, með því að komið hefur verið á sósíalisma, og sósíalismi er skv. skilgreiningu friður. Þessi kenning er kennd í skólum, á dagvistarheimilum, í skátahreyfingu ríkisins, í barnaskólum, í gagnfræðaskólum, í háskólum, á vinnustöðunum, hún er kennd alls staðar. Og hver sá sovéskur þegn, sem andmælir þessari kenningu eða ofbýður ginnungagapið milli þessarar opinberu réttlætingar á ríkinu og þeirrar botnlausu hræsni sem í henni felst, er ekki látinn í friði með þann ágreining sinn, hann geldur þess í stóru sem smáu. Rísir þú upp gegn þessari innrætingu, þessum botnlausa áróðri, þessari orwellsku hugsanastýringu í skólakerfi hins nýja alræðisríkis, er alveg fyrir fram séð hver örlög þín verða. Í versta falli læturðu lífið. Í öðrum tilvikum ertu tekinn úr umferð, þú geldur þess með því að vera sviptur athafnafrelsi og atvinnu, þú ert lokaður í þrælabúðir. Ef þú gerir tilraunir til að lýsa skoðunum þínum er afleiðingin sú að þú ert settur á geðveikrahæli undir umsjón lækna í nafni vísindanna.

Þetta er skóli alræðisríkisins. Svona var skóli Hitlers, svona var skóli þýska nasismans, svona er skóli hins austræna alræðisríkis. Ég spyr áfram: Hvernig er skóli Múllanna í Íran? Hvað skyldi vera kennt þar? Og af því að við erum nú að tala um ályktun sem er komin frá allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þá vakna spurningar: Hvernig skyldi skólahaldi vera háttað í mörgum þeirra nýfrjálsu ríkja vanþróaða heimsins, að því er þetta varðar? Hvað um virðinguna fyrir skoðanafrelsi, um efasemdirnar um áróður og innrætingu í skólum? Um það væri margt hægt að segja en ég hygg að það skólahald sé a. m. k. í algjöru ósamræmi við þær viðteknu hugmyndir manna í lýðræðisþjóðfélagi að skóli eigi að vera fræðslustofnun sem fyrst og fremst eigi að forðast innrætingu skoðana. Hann eigi alltaf að byggja starf sitt á viðleitninni eftir einhverri hlutlægri umfjöllun og gagnrýni og að forðast fyrst og fremst að kenna einhverja altæka, einfalda lausn á flóknum mannlegum veruleika.

Að svo miklu leyti sem þetta varðar spurninguna um það hvort leggja megi að jöfnu það þjóðfélag sem við almennt kennum við vestrænt lýðræði og hið nýja atræðisríki ógnarstjórnarinnar þá vakna spurningar ósjálfrátt, t. d. við að hlýða á málflutning hv. flm. um hver yrði hlutur hennar og skoðanasystkina hennar í þeim þjóðfélagsveruleika sem mér skildist að hún teldi að leggja mætti að jöfnu við það þjóðfélagsumhverfi sem við búum við. Það þarf ekki að spyrja margra spurninga. Ekki er nokkur vafi á því að í því þjóðfélagskerfi mundi hv. 1. flm. ekki liðast það að stofna sérstök stjórnmálasamtök til þess að berjast fyrir bættum kjörum, auknu frelsi eða auknum pólitískum áhrifum kynsystra sinna. Ekki er nokkur vafi á því að henni mundi ekki líðast það að stofna samtök til þess að leggja lið þeim málstað friðar sem hún vissulega var í ræðu sinni innblásinn talsmaður fyrir. Um leið og hún hefði flutt þessa ræðu einhvers staðar í þessu ríki hefði hún verið komin á skrá sem sakamaður, andlegur glæpamaður, uppreisnarmaður gegn þjóðfélaginu, uppvís að baráttu gegn grundvallarreglum og stjórnarskrá, grundvallarforsendum ríkisins. Ég er ekki í nokkrum vafa um að hún hefði verið tekin úr umferð.

Þá vaknar spurningin: Hvernig getum við sem horfum á allt þetta ofbeldi úr fjarska — af því að við viljum líta á okkur sem talsmenn mannréttinda fyrst og fremst og mannréttindabaráttu og virðingar fyrir mannréttindum — helst lagt því fólki lið sem við þetta hlutskipti má búa í alræðisríkjum nútímans? Og nú er ég ekki bara að tala um sovétríkin ein sér eða leppríki þeirra. Við getum eins litið til þjóðfélagsveruleikans í lögregluríkjum og fasistaríkjum þriðja heimsins, ekki síður.

Ég sagði í upphafi máls míns að mér þætti leiðinlegt að lýsa þessum efasemdum mínum um gildi þessara till. en ástæðan væri fyrst og fremst aðeins ein. Ástæðan væri sú að mér fyndist till. lýsa hugmyndum um skóla og getu skólans til að annast uppeldi þegnanna sem er ekki í samræmi við mínar hugmyndir eða reynslu. Í mínum huga eru takmörkin á því sem skóli getur gert það sem mér kemur fyrst í hug.

Hvert er hlutverk skóla? Að kenna að lesa og skrifa og reikna, sem eru einföldustu forsendur þess að einstaklingurinn geti bjargað sér á lífsleiðinni. Að ávaxta menningararf viðkomandi þjóðar með því að kenna unglingum reynslu kynslóðanna í sögu og bókmenntum, það háleitasta sem hefur verið hugsað, þau afreksverk sem mestur ljómi stendur um í sögu þjóðarinnar. Óhjákvæmilegt hlutverk skóla er í þriðja lagi að kenna fólki einhver undirstöðuatriði þekkingar á efnisheiminum og þeirri tækni, þeim vísindum sem iðnaðarsamfélag samtímans byggir tilveru sína á. Og vissulega þarf síðan á einhverjum stigum að kenna um þjóðfélagið, um tengsl einstaklings og þjóðfélags og hlutverk einstaklingsins í þjóðfélaginu. Það er ekkert nýtt og það er gert. Um það má nefna t. d. námsskrána sem hv. þm. vitnaði til.

Námsskrá fyrir skóla í lýðræðislegu þjóðfélagi er þá um það að það sé eðlilegur vettvangur skólastarfs að gefa unglingum á mótunarskeiði kost á fræðslu, vissulega, upplýsingum, en fyrst og fremst út frá einni grundvallarhugmynd: Að þar verði ekki leidd í öndvegi nein ein algild skoðun eða einföld lausn á flóknum veruleika. Að viðleitnin til hlutlægrar umfjöllunar verði það sem er ráðandi, að viðleitnin sé sú að kenna fólki vinnubrögð til þess að afla sér þekkingar, að efla með fólki gagnrýnið hugarfar, að auðvelda fólki sjálfstæða hugsun, að auðvelda fólki að varast áróður sem yfir það dynur alls staðar í þjóðfélaginu. En varast síðan fyrst og síðast eitt og það er að gera skólann að innrætingarstofnun, að boðbera einhverrar einnar skoðunar eða kenningar.

Þannig held ég að skóli í lýðræðisþjóðfélagi hljóti að vera. Það sé ákaflega takmarkað sem hann getur gert.

Hvert er uppeldishlutverk hans í raun og veru? Er það á valdi kennara, umfram það sem honum er falið að gera, að veita fræðslu, að leysa lífsgátuna fyrir nemendur sína, umfram það sem hann kann að geta gert í nánum persónulegum samskiptum með góðu fordæmi? Er það á hans valdi að búa til hinn nýja mann? Er það á valdi skólans að skila miklu í uppeldisstarfi? Hvað ræður uppeldinu, hvað mótar skoðanirnar? Það er ekki bara skólinn sem gerir það í síminnkandi mæli. Það eru einhvers konar samtvinnuð tengsl skóla, heimilis, aldursfélaga viðkomandi barns, fjölmiðla og alls umhverfis og tíðaranda. Skólinn er aðeins takmarkaður þáttur í þessu öllu saman.

Einu er þýðingarmikið að muna eftir í þessu samhengi, að svo miklu leyti sem við erum að tala um börn á aldrinum frá kannske 5–15 ára gömul. Þá var það réttilega mælt hjá flm. þegar hún talaði um hversu ofurseldur hinn gljúpi barnshugur er áróðri sem yfir hann dynur alls staðar að úr þjóðfélaginu. Ekki mundi það vera til þess að bæta úr ef skólinn yrði samastaður þess konar áróðurs. M. ö. o. ég held að þarna eigi fyrst og fremst að gæta að því að það er ekki rétti vettvangurinn fyrir pólitíska fræðslu að fara með hana í fóstruskóla og barnaskóla, einfaldlega vegna þess að það er óframkvæmanlegt. Við erum hér að ræða spurningar og leita svara við spurningum sem ekki er hægt að gefa svör við sem henta þroskastigi barna nema með svo hrikalegri einföldun að einföldunin í sjálfu sér hlýtur að mínu mati að vera fölsun. Ég held að þetta komi betur til skila ef menn spyrja einfaldra spurninga um það, hvað er friðarfræðsla og hvernig á að koma henni á framfæri.

Þá er ég ekki að spyrja um háleit markmið, um þær heitu þrár eftir betra og ofbeldislausu þjóðfélagi, sem fram komu í ræðu hv. flm. Það eru hugsjónir sem væntanlega margir deila með henni. En þegar kemur að fræðslu sem er annað en predikun eða boðun skoðana þá á að rannsaka skv. till. „orsakir deilna og átaka sem má finna samofnar skynjunum, verðmætamati og viðhorfum einstaklinga.“ Það er ekki í lítið ráðist.

Í annan stað er markmið friðarfræðslu eins og hér segir: „Enn fremur má finna orsakir átaka í félagslegri, stjórnmálalegri og efnahagslegri gerð þjóðfélagsins.“ Ég endurtek: „félagslegri, stjórnmálalegri og efnahagslegri gerð þjóðfélagsins.“

Hvað erum við hér raunverulega að tala um? Við erum að tala um einhver flóknustu viðfangsefni vísinda eins og spurninguna um erfðir og uppeldi og hlut hvors tveggja í mótun einstaklingsins, atferlis hans og hegðunar. Við erum að tala um undirstöðuatriði í líffræði, sálarfræði, félagsfræði og mannfræði. Þegar talið berst að gerð þjóðfélagsins erum við að tala um hagfræði, sögu hagfræðilegra hugmynda, samanburð hagkerfa, við erum að tala um inntak stjórnmálafræði, afstöðuna til atræðis og lýðræðis og ótal margra annarra kenninga og hugmyndakerfa. Við erum að tala um einstaklingshyggju og félagshyggju eins og hún er skilgreind í félagsfræði. Við erum að tala um alla reynslu sögunnar af stríði og friði og þjóðfélagsþróun, eða gildismat heimspekikerfa, afstöðu til hugtaka eins og frelsis, réttlætis, jafnaðar. Þetta er ekki smátt viðfangsefni. Við erum hvorki meira né minna en að tala um alla samanlagða mannlega þekkingu, byggða að vísu mjög oft á umdeilanlegu og ólíku gildismati. Við erum að tala um stjórnun í víðtækustu merkingu. Ég verð fyrir mitt leyti að segja að ekki treysti ég mér til að annast þessa fræðslu í fóstruskóla, barnaskóla, gagnfræðaskóla, með engu móti. Það mætti kannske bæta við þeirri spurningu hverjir eigi að kenna kennurum.

Í tilefni af þessari þáltill. var þeirri spurningu beint til Gunnars Gunnarssonar, sem er forstöðumaður öryggismálanefndar ríkisins, hver væri afstaða hans til þessarar till. um að upp skyldi tekin þessi friðarfræðsla í skólum. Mér þykir rétt að vitna til orða hans skv. Morgunblaðinu. Því miður hef ég ekki dagsetninguna við hendina, en hann segir, með leyfi forseta:

„Mér virðist sem svo að í þessari þáltill. sé í rauninni verið að fara fram á það að grundvallaratriði alþjóðastjórnmála verði kennd í skólum. Það er talað um að auka fræðslu um friðarmál, eins og það er orðað, en það er alveg ljóst að friðarmál verða ekki slitin úr samhengi við orsakir átaka. Þannig að um er að ræða þessa hefðbundnu spurningar í alþjóðastjórnmálum um stríð og frið, þ. e. hverjar eru orsakir vopnaðra átaka, og í framhaldi af því, hvaða leiðir eru vænlegastar til að koma í veg fyrir þau.“

Gunnar sagði í öðru lagi:

„Í sjálfu sér hafa þessar spurningar verið alla tíð miðpunktur rannsókna í alþjóðastjórnmálum. Komið hafa fram ýmsar kenningar og menn hafa mjög mismunandi afstöðu og viðhorf til þeirra. Jafnframt er ljóst að hvers konar fræðsla um þessi mál hlýtur að krefjast þess að grundvallaratriðum í alþjóðastjórnmálum séu gerð skil þ. e. a. s. að hún yrði að fela í sér að grein yrði gerð fyrir uppbyggingu og eðli hins alþjóðlega samfélags og hreyfiöflum milliríkjasamskipta almennt.“ Enn fremur segir hann:

„Mér sýnist góðra gjalda vert að efla fræðslu í alþjóðastjórnmálum þó ég verði að segja eins og er að ég er ekki viss um að sú fræðsla eigi heima í dagvistarstofnunum og í grunnskólum eins og það er orðað í þáltill. Hins vegar held ég að þetta efni sé hægt að kenna í framhaldsskólum. En þetta er flókið mál og ég held að það sé tæpast um það að ræða að setja þetta fram við yngri nemendur. Auðvitað er hægt að einfalda mál á ýmsan hátt en of mikil einföldun gefur hreinlega ranga mynd.“

Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég er sammála þessu mati. Mér dettur í hug t. d. að á þingi hafa verið fluttar till. um að ráðinn yrði sérhæfður mannafli í þjónustu íslenska ríkisins, stjórnarráðsins, utanrrn., til þess að utanrrn. hefði einhver tök á því að meta út frá einhverjum faglegum sjónarmiðum allan þann urmul till., kenninga, upplýsinga, sem berast þó ekki væri nema bara í hinni alþjóðlegu afvopnunarumr., á einhvern hlutlægan máta. Aðeins hefur þokast í áttina með þetta. Þessi till. fékk ekkert sérlega góðar undirtektir á sínum tíma en öryggismálanefndin t. d. hefur unnið nokkuð gott byrjunarstarf á þessu sviði. Þó verður að játa að íslensk tunga er nærri því ónuminn akur á þessu sviði. Ef við bara spyrjum einföldustu spurninga: Hvar eru bækur, tímarit, upplýsingar á íslenskri tungu um þessi mál? Ég tala nú ekki um það sem hægt væri að nota í skólastarfi við hæfi unglinga eða barna og hægt væri að leggja til grundvallar þessari kennslu.

Ég rifja t. d. upp að á hv. þingi urðu umr. í tilefni af innrás Bandaríkjanna og nokkurra ríkja í Grenada á s. l. hausti. Ég ætla ekki að gera hana að umr. hér efnislega. En þá komu fram fulltrúar stjórnmálaflokka og kröfðust þess samhljóða að þessi aðgerð í alþjóðastjórnmálum yrði fordæmd. Mér er einna minnisstæðast frá þessari umr. — af því að hún gerðist mjög fljótlega eftir að atburðirnir áttu sér stað — að um leið og ég hlustaði á þessar umr. hallaðist ég helst að því að enginn þeirra sem þátt tóku í umr. hefðu hugmynd um hvað gerst hefði á Grenada nema vera skyldi einn. Og þá er ég hreinlega að tala um upplýsingar um það hvað raunverulega hafði þarna gerst, hver var aðdragandinn og hvaða forsendur voru fyrir því að leggja mat á þessa atburðarás eða gera kröfu um það. Ef ástandið er þannig að utanrrn. Íslendinga telur sig varla bært að leggja mat á það upplýsingasteymi, sem því eðli málsins skv. sem utanrrn. sjálfstæðs ríkis ber að gera, hvað þá um aðra aðila í þjóðfélaginu?

Ég þykist hafa sagt nóg til þess að segja að þessi mál eru býsna vandmeðfarin. Það er engan veginn einfalt mál né sjálfsagt að stórpólitísk ágreiningsefni af þessu tagi henti til hlutlægrar fræðslu fyrir börn og/eða unglinga þó að hitt sé jafnrétt að skólum ber auðvitað að lokum að gefa fræðslu og upplýsingar á hlutlægan hátt um þjóðfélagið og einstaklinginn. En ég held að það sé staðreynd að það gerist ekki, fyrir því séu ekki þekkingarlegar forsendur fyrr en talsvert er komið áleiðis í námi.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu mikið lengri þó að endalaust væri reyndar hægt að spyrja fleiri spurninga og reyna að varpa ljósi á fleiri hliðar þessa máls. Ég ætla aðeins að draga saman niðurstöður mínar. Ástæðan fyrir því að ég lýsi andstöðu minni við þessa till. er mjög einföld. Hún er sú að þó að ég kunni að vera sammála þeim markmiðum, þeirri heimslýsingu, sem fram kom í ræðu hv. þm. og 1. flm. að mjög verulegu leyti, er ég ósammála henni og flm. fyrst og fremst um það hvað sé eðlilegt hlutverk skóla í lýðræðislegu þjóðfélagi.

Það hefur vonandi komið nægilega skilmerkilega til skila í minni ræðu að ég tel að forðast beri það fyrst og fremst, ekki síst á fyrstu árum skólagöngu barna og unglinga, að ætla sér þá dul að boða þeim einhvern algildan stóra sannleika, hvort heldur er í þessum málum eða öðrum. Ég vildi fyrst og fremst forðast það að skólakerfi í okkar þjóðfélagi dragi þannig dám af skóla alræðisríkjanna sem er raunverulega partur af áróðursvél ríkisvaldsins í viðkomandi löndum. Um leið og svo væri orðið hefði skólinn að mínu mati hætt að gegna því hlutverki sem hann þarf að gera í lýðræðislegu þjóðfélagi.

Hinn rétti vettvangur fyrir þessa umr. er eiginlega alls staðar annars staðar. Hann er vissulega hér á Alþingi Íslendinga. Hann er vissulega hér úti á götu, hér úti á Austurvelli. Hann er alls staðar á mannfundum. Hann er vissulega þess virði að vera í umr. pólitískra samtaka í blöðum og fjölmiðlum, þ. e. með öllum þeim öðrum hætti, öllum þeim tækjum, sem fjölræðisþjóðfélag, lýðræðisþjóðfélag, hefur upp á að bjóða til þess að koma á framfæri skoðunum, á jafnréttisgrundvelli.

Fyrst og síðast ber hins vegar að forðast það að þröngva skoðunum eða einhverri sérstakri ákveðinni heimsmynd eða einföldum lausnum upp á fólk. Sér í lagi ber að hafa það í huga að forræði hinna fullorðnu yfir börnum býður kannske eitt út af fyrir sig upp á hættu á ákveðnu andlegu ofbeldi. Við eigum að virða rétt barnsins, unglingsins, sem ekki getur borið hönd fyrir höfuð sér, hefur ekki forsendur til þess að varast stóra sannleika hinna fullorðnu. Við eigum að virða rétt hans til að fá að vera í friði fyrir áróðri a. m. k. fram undir það að hann er sjálfur það væddur þekkingu, skilningi og reynslu að hann geti borið hönd fyrir höfuð sér.