22.03.1984
Sameinað þing: 69. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4075 í B-deild Alþingistíðinda. (3462)

184. mál, friðarfræðsla

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Í hvert sinn sem hv. 3. þm. Suðurl. tekur til máls verður andrúmsloft hér í þingsölum þrungið eftirvæntingu. Hvaða fjólum mun hv. þm. nú dreifa meðal áheyrenda? hugsa menn, og ekki brást hann vonum í dag. Inni í miðri ræðu sem einkum virtist fjalla um kristni og kvenrembu upphóf hann vangaveltur um fjarveru okkar kvennalistakvenna úr nýafstaðinni þingveislu og finn ég mig knúna til að svara því örfáum orðum, þótt mér finnist það kannske ekki eiga allt of vel heima í umr. um friðarfræðslu.

Satt er það að við létum okkur vanta í þingveisluna. Sá litli snjóbolti hefur nú hlaðið meiru utan á sig en okkur grunaði og við ætluðum. Það var aldrei ætlun okkar að slá okkur til riddara í þessu máli. Við vildum gjarnan skemmta okkur með öðrum þm. á árshátíð og erum sammála því að slík sameiginleg skemmtun geti stuðlað að samvinnu og vinsamlegum tjáskiptum þm. sem e. t. v. er ekki allt of mikið af. Hins vegar komumst við að þeirri sameiginlegu niðurstöðu, að það væri óverjandi tvískinnungur að tala hér nótt sem nýtan dag um nauðsyn sparnaðar og gagnrýna veisluhöld og bílafríðindi og hvers konar óráðsíu í yfirstjórn ríkisstofnana, en éta svo og drekka og dansa í gatinu á kostnað skattborgaranna án þess einu sinni að spyrja þá leyfis.

Við lögðum til á fundi með þingflokksformönnum og forsetum þingsins að þm. greiddu árshátíð sína úr eigin vasa. Sú hugmynd féll í grýttan jarðveg og fannst okkur þá sjálfgert að sitja heima. Okkur þykir leitt ef við höfum komið öðrum þm. í klípu með þessari afstöðu. Það var ekki ætlunin. Við gerðum okkur grein fyrir að svo gæti farið og það hvarflaði að okkur að fara þrátt fyrir allt í þessa veislu einmitt af tillitssemi við aðra þm. En þetta var orðin okkur nokkur samviskuspurning sem við hlutum að svara á þennan hátt. Svo einfalt var það nú.

En hv. þm. Árni Johnsen beindi hér til mín þeirri spurningu, hvað ég hefði verið að gera á gægjum á Hótel Sögu kvöldið sem þingveislan var og þar sem ég skil, að það kann að virðast tortryggilegt athæfi, þá vil ég upplýsa það. Þar var ég stödd að beiðni skemmtikraftanna Helgu Thorberg, Eddu Björgvinsdóttur og Arnar Árnasonar. Þau höfðu samband við mig um kl. hálftíu umrætt kvöld og báðu mig að koma og meta fyrir fram, hvort eitthvað í skemmtidagskrá þeirra kynni að ofbjóða svo virðulegri samkomu sem þau væntu að þingveislan væri. Af undirtektum veislugesta, sem ég heyrði í hliðarsal, tel ég að svo hafi ekki verið. Ykkur hafi ekki verið ofboðið, heldur hafið þið skemmt ykkur ljómandi vel. Ég bið svo afsökunar á þessu innleggi í friðarumr., sem hv. þm. Árni Johnsen gaf tilefni til.