22.03.1984
Neðri deild: 62. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4080 í B-deild Alþingistíðinda. (3472)

196. mál, lausaskuldir bænda

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Með vísan til þess að ég hef flutt frávísunartill. við þetta frv. í heild sinni með þeim rökstuðningi að sérstök lagasetning sé óþörf og lagaheimildir nægar fyrir í lögum um veðdeild Búnaðarbanka Íslands, en það sem fyrst og fremst kemur til kasta Alþingis sé afstaðan til fjárútvegunar í þessu skyni, þá hefur það þau áhrif á þessar tillögur að hér eru lagðar fram tillögur um nákvæmlega sömu fyrirgreiðslu til launþega og Alþingi hefur nú samþykkt til bænda, en sá böggull fylgir skammrifi að engin grein er gerð fyrir því, sem máli skiptir, með hverjum hætti fjárútvegun verði til að sinna þessari gífurlegu þörf, þá tel ég ótímabært að taka efnislega afstöðu fyrr en fyrir liggur með hvaða hætti þessi till. verði fjármögnuð. Lokun veðdeildar sýnir að sjóðakerfi húsnæðislánakerfisins er nú greiðsluþrota og umr. á Alþingi og afgreiðsla um fjárlög, lánsfjárlög o. fl. sýnir að ríkisstj. gegnir ekki þeirri skyldu sinni að tilkynna Alþingi með hvaða hætti hún ætli að fjármagna nauðsynleg mál af þessu tagi. Þess vegna greiði ég ekki atkv. um þessa till. að svo stöddu.