22.03.1984
Neðri deild: 63. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4081 í B-deild Alþingistíðinda. (3474)

196. mál, lausaskuldir bænda

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég ætla að bera hér fram fjórar spurningar til hæstv. ráðh. sem ekki var svarað við 2. umr. þessa máls, en sem gefin voru fyrirheit um að yrði svarað við þessa umr. Fyrsta spurningin er til hæstv. viðskrh.

Það hefur komið fram að sú venja hefur tíðkast án sérstakrar heimildar í lögum að innlánsdeildir kaupfélaganna hafa getað notað þessi bændabréf til að fullnægja bindiskyldu sinni í Seðlabankanum, en mikill fjöldi sparisjóða í landinu hefur ekki getað notað þessi bréf á sama hátt né heldur almennir viðskiptabankar. Það er því ljóst að mikil mismunun er hér ríkjandi varðandi þann möguleika sem innlánsdeildir hafa til að nota þessi svokölluðu bændabréf til að fullnægja bindiskyldu sinni gagnvart Seðlabankanum. Við 2. umr. var gerð tilraun til að samræma þetta kerfi á þann veg að allar innlánsstofnanir sætu við sama borð. Nú hafa ríkisstjórnarmeirihlutinn og ýmsir aðrir hér í þinginu fellt þá brtt. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. viðskrh., þar sem það er á hans valdi: Ætlar hann að viðhalda þeirri mismunun sem er ríkjandi á þessu sviði? Ætlar hann að láta það viðgangast áfram að innlánsdeildir kaupfélaganna séu nánast eini aðilinn sem getur notað þessi bændabréf til að fullnægja bindiskyldu sinni í Seðlabankanum, en sparisjóðum, stærri sparisjóðum og innlánsstofnunum öðrum sé neitað um þennan möguleika?

Ég vil taka t. d. dæmi af ýmsum stöðum úti á landi þar sem eru hlið við hlið innlánsdeild í kaupfélaginu og sparisjóður byggðarlagsins. Ef bændur vilja versla við sparisjóðinn geta þeir ekki notað þessi bréf til að láta ganga inn í bindiskylduna í Seðlabankanum. En ef bændur versla hins vegar við innlánsdeild kaupfélagsins eiga þessi bréf greiðan aðgang inn í bindiskylduhít Seðlabankans.

Ég vil spyrja hæstv. viðskrh.: Hvað ætlar hann lengi að láta þessa mismunun viðgangast? Ef hann er ekki reiðubúinn að lýsa því yfir hér hvenær henni ljúki, vill hann þá ekki lýsa afstöðu sinni gagnvart þessu kerfi? Er hann fylgjandi því að því verði breytt, og þá á hvern veg, eða er hann kannske stuðningsmaður þess að þessi forréttindi innlánsdeildanna geti haldið áfram? Ég sé satt að segja ekki hvaða tilgangi það á að þjóna að vera að festa í sessi mismunun með þessum hætti.

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. landbrh.— Er hæstv. landbrh. í salnum? (Forseti: Ég kem nú ekki auga á hæstv. ráðh., en ég skal gæta að því hvort hann er í húsinu. Hann á ekki sæti í þessari deild.) (Forsrh.: Hann varð að fara á einhverja ráðstefnu.) Hann varð að fara á ráðstefnu, segir hæstv. forsrh. (Forseti: Þá virðist málið upplýst.) Já. Það hlýtur að vera brýn ráðstefna, vegna þess að hæstv. landbrh. hefur hvað eftir annað á síðustu sólarhringum sagt að það sé afar brýnt að þetta frv. sé afgreitt í dag. Ef hann má ekki einu sinni sjálfur vera að því að vera viðstaddur þá afgreiðslu hlýtur sú ráðstefna að vera afar brýn. — En mín spurning til hans var einmitt hvað það væri sem ræki svona á eftir því að þetta frv. væri afgreitt hér og nú, einkum og sér í lagi þegar ljóst er að ýmsir veigamiklir þættir málsins hafa ekki verið upplýstir. Hvaða aðilar eru það sem knýja á um að frv. sé afgreitt? Hvað gerist ef frv. er látið bíða einhvern tíma og menn fá svör við spurningum í millitíðinni?

Fyrst hæstv. landbrh. má ekki einu sinni vera að því að vera hér við afgreiðslu mála er það enn eitt dæmið um að ráðh. mega ekki einu sinni vera að því að vera viðstaddir afgreiðslu sinna eigin frv. hér í þinginu, en ætlast svo til þess að stjórnarandstaðan og þingheimur allur sé sífellt að greiða fyrir þeirra málum. Væri nú æskilegt að forsetar þingsins og forsrh. tækju í eitt skipti fyrir öll þessum ráðh. tak og segðu þeim að þeir eigi að vera hér. Ef þeir telja að málið sé svo mikilvægt að nauðsynlegt sé að afgreiða það í þinginu ber þeim fyllsta skylda til að vera hér í salnum. Það er satt að segja alveg út í hött að þingið sé að leggja á sig sérstakt erfiði til að veita málum einstakra ráðh. forgang þegar hinir sömu ráðh. mega svo ekki einu sinni vera að því að vera viðstaddir afgreiðsluna. Þetta kemur fyrir í hverju málinu á fætur öðru, eins og kom fram í umr. hér í gær.

En þá verð ég að beina þeirri fsp. til hæstv. forsrh. hvað það sé sem reki svona á eftir því að þetta mál sé hér og nú afgreitt án þess að menn fái viðhlítandi upplýsingar. Hvaða nauðsyn er það sem knýr á um nákvæma dagsetningu á afgreiðslunni? Við fengum svör við því varðandi lánsfjáráætlunina að það yrði að taka erlent lán og þess vegna yrði að afgreiða hana, en það hafa engin svör fengist við því hvað gerir það svona brýnt að afgreiða þetta mál hér og nú. Það hafa verið leiddar að því líkur að það sé fjárhagsvandi innlánsdeilda kaupfélaganna sem gerir að verkum að það sé rekið svona á eftir því að þetta mál sé afgreitt hér og þingið sé þess vegna á hlaupum við að þjónusta innlánsdeildirnar í þessu efni. En því hefur ekki verið svarað og ekki um það fjallað. Nauðsynlegt er að fá svör við þessu.

Í þriðja lagi ætla ég að spyrja hæstv. fjmrh. — Er hann kannske líka farinn? Er hæstv. fjmrh. í húsinu? (Fjmrh.: Ég er aldrei langt frá þér, vinur minn.) Ágætt, það er gott að vita það. Það verður að segja hæstv. fjmrh. það til hróss að þó hann eigi ekki sæti í þessari hv. deild sér hann samt sem áður sóma sinn í því og sýnir Alþingi þá virðingu að vera viðstaddur þessa umr., þótt landbrh., sem flytur þetta frv., hafi ekki gert það. Ber að þakka hæstv. fjmrh. fyrir það. Það er orðið nokkuð sjaldgæft að ráðh. sinni þingskyldum sínum með þessum hætti.

Spurning mín til hæstv. fjmrh. kemur í framhaldi af þeirri spurningu sem borin var upp í gærkvöld þegar spurt var hvernig ætti að fjármagna þessa skuldbreytingu. Þá lýsti hæstv. fjmrh. því yfir að hann mundi nú í morgun halda fund með forsvarsmönnum bankakerfisins til að fjalla um það mál hvernig ætti að fjármagna þessa skuldbreytingu. Ég spyr hæstv. fjmrh.: Liggur það nú ljósar fyrir en það gerði í gærkvöld hvernig á að fjármagna þessa skuldbreytingu? Það lá alls ekki ljóst fyrir í gærkvöld, það vissi það ekki nokkur maður, og seint um síðir, þegar fór að halla í miðnætti, lýsti fjmrh. því yfir að hann mundi halda fund í morgun til að reyna að leiða í ljós svör við þeirri spurningu. Það væri æskilegt áður en þetta frv. er endanlega afgreitt frá hv. deild að hæstv. fjmrh. veitti svör við því.

Lokaspurningin er svo einnig til hæstv fjmrh.: Verður tekið erlent lán til að greiða fyrir þessari skuldbreytingu? Það hefur komið fram í meðferð málsins hér í þinginu að bankastjórar Búnaðarbankans hafa lýst því yfir að Búnaðarbankinn hefði ekkert fjármagn til að greiða fyrir þessari skuldbreytingu nema fá til þess erlent lánsfé. Það er hins vegar mjög óeðlilegt að fara að sækja erlent lánsfé til að standa að baki þessari skuldbreytingu, einkum og sér í lagi þegar erlendu lántökurnar eru nú komnar jafnhátt og raun ber vitni. Þess vegna vil ég að lokum beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh. hvort hann geti svarað því nú, sem hann gat ekki í gærkvöld, hvort það verður tekið erlent lán eða ekki. Væri æskilegt að því væri svarað afdráttarlaust með jái eða neii.