22.03.1984
Neðri deild: 63. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4084 í B-deild Alþingistíðinda. (3477)

196. mál, lausaskuldir bænda

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör þeirra. Það greiðir tvímælalaust fyrir umr. og gangi mála í þinginu þegar loksins fást svör við spurningum en ekki þarf að standa hér eins og í gær klukkutíma eftir klukkutíma til að láta reyna á að svör fáist. Þegar viljinn er fyrir hendi, eins og í dag, sýnir sig að hægt er á fáeinum mínútum að greiða fyrir umr. með því að veita skýr svör þáttum sem ella, eins og sýndi sig í gær þegar ráðh. voru ýmist ekki reiðubúnir að svara eða voru fjarverandi, gerðu það að verkum að málið tæki mjög langan tíma í umfjöllun.

Það hefur verið upplýst hjá hæstv. viðskrh. að það er engin niðurstaða fengin um hvernig eigi að fjármagna þessa skuldbreytingu. Það er í fyrsta skipti sem það kemur skýrt fram við meðferð þessa máls á hv. Alþingi við lok 3. umr. í þessari deild, að það er játað hreint og beint að ekki liggja fyrir neinar till. um hvernig eigi að fjármagna þessa skuldbreytingu. Við höfum verið að reyna að ganga á eftir því hér í þinginu að fá svör við þessu og það er ekki fyrr en nú sem það fæst á hreint að lausnin er alls ekki fundin.

Hér er sem sagt verið að óska eftir því að þingið samþykki frv. sem skuldbindur ríkið til breytingar á lausaskuldum, en hæstv. ráðh. hafa ekki enn þá fundið neina lausn á því hvernig eigi að fjármagna þá skuldbreytingu: Engu að síður liggur það fyrir í grg. að frv. er búið að vera í undirbúningi í rúma sex mánuði. Það eru rúmir sex mánuðir síðan hafinn var undirbúningur að frv. og enn er ekki fundin nein lausn á þessum vanda.

Ég bið hæstv. fjmrh. afsökunar á því að það var misminni mitt að hann hefði átt að eiga sæti á þeim fundi sem haldinn var í dag. Ég skildi hann þannig í gærkvöld. Það er alveg sjálfsagt að taka við þeirri leiðréttingu, enda hefur komið skýrt fram að hæstv. viðskrh., hæstv. landbrh. og fulltrúi Seðlabankans eru nú að halda fundi til að reyna að finna lausn á þessum vanda.

Ég vil segja við hæstv. forsrh. að það er auðvitað alveg rétt og hefur hér margoft komið fram að greiðslustaða bænda og greiðslustaða kaupfélaganna af þeim sökum er erfið, en ég sé ekki hvernig það á að greiða úr þeirri greiðslustöðu að við rjúkum til og samþykkjum frv. hér þegar hæstv. ráðh. og Seðlabankinn hafa ekki fundið fjármagnið sem á að nota í þessa skuldbreytingu. Það er margupplýst hér nú að það er ekki til. Þessi skuldbreyting gerist ekki með pappírsgögnum frá Alþingi eða ríkisprentsmiðjunni Gutenberg. Hún gerist á grundvelli þess fjármagns sem finnst og fæst. Það stendur þess vegna ekki á þinginu hvað þessa skuldbreytingu snertir. Það er orðið ljóst í lok þessarar 3. umr. Það stendur á hæstv. ráðh., sérstaklega hæstv. viðskrh. og hæstv. landbrh. og fulltrúum Seðlabankans, sem enn hafa ekki fundið neina lausn á málinu. (FrS: Gutenberg prentar ekki peningaseðlana.) Það er gagnlegt að þá liggi alveg ljóst fyrir hverjir bera ábyrgðina á þessum töfum. Það hefur verið látið að því liggja hér að stjórnarandstaðan gerði það. Nú hefur það mál verið hreinsað. Það er ljóst að þeir ráðh. sem funduðu í dag ásamt fulltrúum Seðlabankans bera meginábyrgðina.

Það kom ekki heldur neitt fram í svörum ráðh. við því hvenær þeir vænta þess að lausnin finnist. Hún er greinilega mjög vandfundin. Það hefur tekið marga mánuði að finna hana. Hæstv. fjmrh. lýsti því yfir að hann gerði ekki ráð fyrir að erlent lán yrði tekið í þessu skyni. Það má segja að það sé nokkuð ótvíræð yfirlýsing. Þó er hún ekki algjör neitun á því að erlent lán verði tekið. Þess vegna er nokkuð ljóst að í ljósi þeirrar yfirlýsingar sem hæstv. fjmrh. hefur gefið hér kann að vera áfram þrýstingur á að erlent lán verði tekið í þessu skyni.

Ég vil svo að lokum fagna því að hæstv. viðskrh. hefur gefið hér yfirlýsingu um að hann hafi óskað eftir sérstakri greinargerð um hvernig þessi bréf hafa verið notuð til að fullnægja bindiskyldu sumra innlánsstofnana í Seðlabankanum, en öðrum innlánsstofnunum bannað að gera það. Hæstv. ráðh. lýsti því yfir hér að hann væri persónulega andvígur sérhverjum sérréttindum varðandi þetta atriði. Það má þá væntanlega treysta því að þegar hæstv.ráðh. hefur fengið þessa greinargerð muni hann beita sér fyrir því að þessi sérréttindi verði afnumin. Þau er hægt að afnema á tvennan veg: Annars vegar með því að veita öllum innlánsstofnunum þennan rétt, þannig að það verði ekki neinn — (Gripið fram í: Hvort hæstv. ráðh. vilji ekki birta greinargerðina.) Já, ég tel alveg sjálfsagt að hann birti greinargerðina. Það finnst mér svo sjálfsagt að það þurfi ekki einu sinni að taka það fram og hún verði jafnvel lögð fram í þinginu til upplýsingar. Í gærkveldi, þegar hæstv. viðskrh. var fjarstaddur skorti mjög á að hæstv. landbrh. gæti gefið upplýsingar um þetta atriði. Ég vil því taka undir þá ósk að hæstv. viðskrh. birti þessa grg. þegar hann fær hana í hendur.

Hitt er þó aðalatriðið að hæstv. viðskrh. hefur gefið út yfirlýsingu um það hér og nú að hann ætli að afnema þessi sérréttindi. Ég get ekki skilið að ráðh. sem er andvígur sérréttindum geti látið þau viðhaldast. Hann getur afnumið þau á tvennan veg: Hann gæti látið allar innlánsstofnanir njóta þessara réttinda. Ráðh. greiddi atkvæði gegn því fyrr í dag í þinginu og er þess vegna búinn að hafna þeirri leið. Þess vegna liggur alveg ljóst fyrir að innan tíðar hlýtur hæstv. viðskrh. að afnema þau réttindi innlánsdeilda kaupfélaganna að nota þessi bréf til að fullnægja bindiskyldu sinni í Seðlabankanum. Við bíðum eftir því að það verði þá formlega tilkynnt að hæstv. ráðh. hafi beitt sér fyrir þeirri breytingu.